Mánudagur 12.01.2015 - 08:50 - FB ummæli ()

Hvers konar forsætisráðherra er þetta?

Sigmundi Davíð bar auðvitað engin skylda til að fara til Parísar.

Ég hefði að vísu haldið að hann hefði viljað fara.

Stundin á République-torgi var skipulögð af fólki til að láta í ljós stuðning við grunngildi samfélags – frelsi, jafnrétti, bræðralag.

Flestir þjóðarleiðtogar Evrópu og margir utan álfunnar skildu hvað klukkan sló og mættu til að sýna stuðning og samstöðu.

Þar á meðal allir forsætisráðherrar Norðurlandanna – nema Sigmundur Davíð.

Það er mjög skrýtið, en ég ítreka að honum bar engin skylda til að fara.

Hann mátti alveg vera hérna heima, ef honum sýndist.

Hins vegar skuldar hann okkur skýringar á því af hverju hann fór ekki.

Forsætisráðherra sem lætur hjá líða að fara á slíkan samstöðu- og samúðar- og baráttufund, hann skuldar okkur einfaldlega skýringu á því.

Og þá skýringu verður Sigmundur Davíð að gefa – hreinskilnislega.

Því hún snýst um grunngildi og forgangsröð helsta ráðamanns okkar.

Og nú skuldar Sigmundur Davíð okkur aðra skýringu.

Sem sé á því af hvers vegna hann kom ekki hreint fram í gærkvöldi, þegar hann gaf loksins færi á skýringum – ekki í eigin persónu, heldur á Facebook og með yfirlýsingu frá forsætisráðuneytinu.

Hann sagði þar að margir samverkandi þættir eins og flugáætlanir og dagskrá ráðherrans hefðu komið í veg fyrir för hans, en hann hefði svo gjarnan viljað fara.

Þetta eru bara lygar.

Tryggðatröllið aðstoðarmaður Sigmundar Davíðs, Jóhannes Þór Skúlason, var búinn að koma fram í fjölmiðlum og segja að hann gæti ekki gefið nánari skýringar á fjarveru Sigmundar.

Og á maður svo að trúa því að Jóhannes Þór hafi ekki í tvo daga vitað af tilraunum Sigmundar Davíðs til að komast til Parísar?

Og meðal annarra orða – hvað í „dagskrá ráðherra“ stangaðist á við Parísarferðina? Var hann að gera eitthvað annað um helgina?

Ekki hefur frést af því.

Þetta er auðvitað bara bull – og eins og bent hefur verið á: Ef íslenskri stjórnsýslu tekst ekki að koma einum ráðherra til Parísar á tveim dögum, þá er eitthvað mjög mikið að.

En það var náttúrlega ekkert verið að reyna það.

Því yfirlýsingar Sigmundar Davíðs eru þvættingur.

Og nú skuldar hann okkur skýringar á tvennu.

Í fyrsta lagi, af hverju hann fór ekki til Parísar til að sýna þar stuðning Íslendinga við Frakka og alla þá sem virða einhvers tjáningarfrelsi og samstöðu meðal fólks.

Af hverju hann setti okkur út í horn með því að mæta ekki.

En í öðru lagi, og það er ekki síður mikilvægt:

Af hverju sagði hann ekki sannleikann um ástæðurnar fyrir því að hann fór ekki?

Hverjar sem þær kunna að hafa verið.

Af hverju taldi hann okkur ekki meira virði en svo að það væri allt í lagi að ljúga að okkur?

Hvers konar forsætisráðherra er þetta?

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Illugi Jökulsson
RSS straumur: RSS straumur

Tímans rás



Hleð...

Eingöngu gamlar fréttir!