Miðvikudagur 14.01.2015 - 07:41 - FB ummæli ()

Að skíta upp á bak

Ég þoli ekki orðalagið „að skíta upp á bak“.

Mér finnst það groddalegt, illa þefjandi, óþarflega myndrænt og yfirleitt of lítillækkandi fyrir þá sem það er notað um – hvað svo sem þeir kunna að hafa gert af sér.

Ég held því að ég hafi aldrei notað það.

En um ummæli Ásmundar Friðrikssonar alþingismanns er eiginlega ekki hægt að nota neitt annað orðalag.

Hann skeit upp á bak.

Þeim mun undarlegra er það að hann hefur ekki drullast til að biðjast afsökunar á ömurlegum orðum sínum.

Hann hefur dregið í land hér og þar, gefið til kynna að hitt og þetta hafi kannski verið ofsagt, eitthvað hafi kannski mátt betur fara.

En á hinn bóginn hefur hann gert illt verra með skammarlegu kjaftæði um að „við yrðum að taka umræðuna“ en sá frasi er í svona málum skálkaskjól rasista og ekkert annað.

Ég ætla Ásmundi ekki að vera rasisti, en hann verður að átta sig á að hann steig út á markaðan fjóshaug rasismans með orðum sínum.

Og því ætti hann að biðjast þegar í stað afsökunar – enda hafa sem betur fer margir orðið til að benda honum á það.

En af einhverjum ástæðum virðist Ásmundur Friðriksson líta svo á að ein afsökunarbeiðni væri meiri synd en þessi fjóshaugur sem hann anaði svo glaðbeittur í með orðum sínum á Facebook.

Hvað er það við afsökunarbeiðni, sem gerir að verkum að flestir íslenskir stjórnmálamenn vilja ganga í gegnum hvaða gagnrýni og mótlæti sem er, frekar en biðjast afsökunar?

En þangað til Ásmundur biðst fyrirvaralaust afsökunar, þá verður hann að átta sig á einu.

Að hann er og verður með skítinn upp á bak.

 

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Illugi Jökulsson
RSS straumur: RSS straumur

Tímans rás



Hleð...

Eingöngu gamlar fréttir!