Föstudagur 23.01.2015 - 17:58 - FB ummæli ()

Hin hrollvekjandi Hanna Birna

Ég efast ekki eitt augnablik um að sínum nánustu sé Hanna Birna Kristjánsdóttir hin vænsta manneskja.

En þó ekki aðstoðarmönnum sínum.

Þeim atti hún út í ótrúlegt lygafen, og mun skömm hennar lengi uppi vegna þess.

Ég efast heldur ekki um að hún hafi ætlað sér að vinna hin gagnlegustu störf í pólitík.

En dómgreindarbresturinn sem hún sýndi í lekamálinu reynist nú hafa verið beinlínis hrollvekjandi.

Og ekki aðeins dómgreinarbrestur, heldur líka pólitískt siðleysi.

Í meira en ár þumbaðist hún við og laug og laug og laug.

Hún flækti allskonar fólk í sinn lygavef alveg samviskulaust, og þarf ekki að orðlengja um það hér.

Hún kom í hið fræga uppstillta Kastljósviðtal og hélt áfram að ljúga.

Þegar hún var loks neydd til að segja af sér gekk hún út úr ráðuneytinu og vildi ekkert viðurkenna.

Þetta er – eftir á að hyggja – hrollvekjandi.

Hrollvekjandi vegna þess að Hanna Birna Kristjánsdóttir er nánast uppalin í pólitík.

Hún hefur, svo ég muni, ekki unnið við neitt annað á fullorðinsárum.

Hún nam við fótskör Kjartans Gunnarssonar hægri handar Davíðs Oddssonar á velmektarárum þeirra.

Hún var starfsmaður þingflokks, borgarfulltrúi, borgarstjóri, þingmaður.

Og hún lærði …. ÞETTA?!

Það er hrollvekjandi og sorglegt, en við eigum líka að láta okkur það að kenningu verða.

Hefur annað eins og hún gerðist sek um kannski tíðkast óátalið í íslenskri pólitík?

Af hverju tók svona langan tíma að hreinsa þetta mál?

Af hverju studdu þingmenn stjórnarflokkanna hana nánast fram í rauðan dauðann?

Af hverju sá Sigmundur Davíð forsætisráðherra sóma sinn í því að hnýta í umboðsmann, sem nú kemur í ljós að hefur unnið sitt verk óaðfinnanlega?

Af hverju ráðlagði enginn Hönnu Birnu að láta af þessari feigðarför sinni út í lygafenið?

Jahérna.

Eitt gæti Hanna Birna gert til að ávinna sér svolitla virðingu aftur.

Ef hún bæði persónulega afsökunar þá blaðamenn og starfsmenn DV sem sættu sífelldum árásum hennar í heilt ár af því þeir voru að sinna sínu starfi af meiri heiðarleika en hún.

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Illugi Jökulsson
RSS straumur: RSS straumur

Tímans rás



Hleð...

Eingöngu gamlar fréttir!