Miðvikudagur 04.03.2015 - 08:50 - FB ummæli ()

Áskorun til KSÍ

Sæll Geir Þorsteinsson formaður KSÍ.

Hér er ein vinsamleg fyrirspurn, og meðfylgjandi áskorun.

Rétt áðan var ég að fylgja 15 ára syni mínum í skólann. Hann hefur verið heima í tvo daga en nú var honum ekki lengur til setunnar boðið. Svo ég sá á eftir honum inn í skólann þar sem hann staulaðist við hækjuna sína og gretti sig ferlega í hverju spori.

Hann er með sýkingu í fæti, ekkert stóralvarlega en veldur því að það fylgir því heilmikill sársauki að hreyfa vöðvana.

Og hvað kemur þetta þér við?

Jú, á sunnudaginn var, þá var piltur í fullu fjöri og spilaði ásamt félögum sínum í 3ja flokki Vals leik við ÍR-Leikni á gervigrasinu í Egilshöll.

Eftir hraustlega rennitæklingu brenndi piltur sig helstil illa en það hefur nú svo sem gerst áður, það er ekkert þægilegt en er fljótt að jafna sig.

Í þetta sinn fylgdi hins vegar sýking í brunasárið. Við héldum fyrst að þetta yrði bara eitthvað lítilsháttar en sýkingin ætlar greinilega að vera illskeyttari en vonir stóðu til.

Og aftur má spyrja: Hvað kemur þetta þér við?

Jú, sýkingin stafar af því að drengurinn hefur verið svo óheppinn að lenda með opið brunasárið eftir gervigrasið beint í  hrákaslummu einhvers sem nýlega hafði spilað á vellinum.

Þegar við neyddumst til að leita læknis með bólgnandi sárið sögðu bæði læknir og hjúkrunarfræðingur að sýkingar af þessu tagi væru ansi algengar, ekki síst eftir leiki á gervigrasvöllum en raunar einnig þegar leikið hefði verið á venjulegum grasvöllum.

Og ástæðan væri eingöngu sá undarlegi ósiður fótboltamanna að spýta og hrækja í allar áttir meðan á leik stendur.

Reyndar hefur mér lengi þótt þessi siður bæði furðulegur og einstaklega ósmekklegur. Stundum sér maður fótboltamenn ræskja sig af öllu afli og þeyta svo hrákaslummunum frá sér eins og það sé sérstakt manndómsmerki.

Tala nú ekki um þegar menn fara að snýta sér niður í grasið líka.

Þegar fótboltamenn eru spurðir hvers vegna þeir geri þetta segjast þeir „þurfa“ að gera þetta. Þeir bara verði að losa sig við munnvatn eða nefslím, og það geti ekki beðið.

Það er auðvitað bara bull.

Handboltamenn og körfuboltamenn og blakmenn og ótal fleiri íþróttamenn spila heilu leikina án þess nokkru sinni að finnast þeir „þurfa“ að hrækja í allar áttir.

Einfaldlega af því það er búið að gera þennan ósið útlægan úr íþróttaiðkun, öðrum en fótbolta.

Þetta eru eftirhreytur frá þeim ömurlega tíma þegar fólk kom í heimsókn til annars fólks og hrækti óhikað á stofugólfið. Viðurstyggilegar slummur voru um öll gólf.

Það tókst að kveða þetta niður innanhúss, en af hverju þykir þetta ennþá fínt á fótboltavöllum?

Því þar eru slíkar slummur um allt í grasinu. Finnst ykkur fótboltamönnum virkilega geðsleg tilhugsun að lenda með nefið niðri í þessu þegar hæst ber í leiknum?

Og þá kemur svarið við spurningunni um hvað raunir hans sonar míns koma þér við.

Burtséð frá hvað þessir hrákar og skyrpingar og snýtur úti á vellinum eru innilega ósmekkleg fyrirbæri, finnst þér ekki ástæðulaust að þið fótboltamenn látið líðast að vellirnir ykkar séu hálfgerð pestarbæli?

Og hér er áskorunin: Er ekki hægur vandi að fá fótboltamenn til að hætta þessu einfaldlega? Það var hægt að fá handboltamenn til þess. Ekki eru fótboltamenn verr gefnir en þeir sem spila handbolta.

Sjálfsagt er þessi sýking hans sonar míns ekki hættuleg. Vafalaust munu sýklalyfin vinna á henni á endanum.

En af hverju á hann að missa úr skóla, missa úr æfingar og geta varla sofið á nóttunni fyrir bólgu og eymslum, bara af því einhver óviti taldi sig þurfa að hrækja á fótboltavöllinn þar sem hann var svo að spila?

 

Viðbót:

Ég hef fengið mjög skjót og góð viðbrögð frá bæði formanni og framkvæmdastjóra KSÍ í dag við þessari áskorun. Þau benda á að KSÍ hafi byrjað herferð gegn þessum ósið fyrir nokkrum árum, en fallast fúslega á að full ástæða sé til að endurvekja hana og gera betur. Ég þakka fyrir það, og kann vel að meta það.

Þá fór drengurinn til læknis nú eftir hádegi og sýking virðist ekki vera lengur í sárinu, svo núverandi þjáningar pilts í dag stafa fremur af brunasárinu en sýkingunni sem virðist hafa verið kýld niður fljótt með sýklalyfjameðferð.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Illugi Jökulsson
RSS straumur: RSS straumur

Tímans rás



Hleð...

Eingöngu gamlar fréttir!