Laugardagur 14.03.2015 - 09:52 - FB ummæli ()

Sigmundur horfinn eina ferðina enn – og öllum er sama

Merkileg er sú staðreynd að þótt allt hafi farið hér á annan endann við hið galna útspil ríkisstjórnarinnar á fimmtudaginn var, og fólst í bréfinu sem Gunnar Bragi bar Evrópusambandinu, þá virðist enginn vera að bíða þess hvað Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra hefur um málið að segja.

En hann er nú gufaður upp, eina ferðina enn.

Ríkisstjórn hans varpar sprengju í stærsta utanríkismáli þjóðarinnar – en hann lætur ekki ná í sig, frekar en fyrri daginn, þegar mikið er um að vera.

Það er auðvitað ekki boðleg afsökun að hann sé í fríi, jafnvel ekki að hann hafi átt afmæli fyrir einhverjum dögum.

Almennilegir verkstjórar láta sig hafa það að svara í símann á afmælinu sínu.

En Sigmundur Davíð er náttúrlega óhæfur verkstjóri, það er löngu komið í ljós.

Og nú eru sem sagt allir hættir að reikna með því að nokkuð sem Sigmundur Davíð Gunnlaugsson segir eða gerir sé líklegt til að leysa eða skýra þau mál sem upp koma í hinni furðulegu ríkisstjórn hans.

Ríkisstjórn sem er – þið fyrirgefið innilega þó ég segi það – að verða eins og skrípamynd.

Fyrr eða síðar mun Sigmundur þó koma fram í dagsljósið á ný.

Kannski ekki fyrr á þriðjudagseftirmiðdag á Bylgjunni, kannski ögn fyrr.

En þá mun hann fyrst og fremst hrista hausinn yfir „umræðunni“.

Segja að hann hafi verið að lesa erlend blöð þar sem margt merkilegt hafi komið fram.

En um leið hafi hann hvorki skilið upp né niður í heiftinni í „umræðunni“ heima á Íslandi. Og alls konar „misskilningi“ sem vaðið hafi uppi. Og öllum „árásunum“ sem hann og stjórn hans hafi orðið fyrir.

Hann mun vera yfirlætisfullur í bragði og segja einn brandara sem allir aðstoðarmennirnir hafa verið í marga daga að klambra saman.

Og hann mun segja að þjóðin þurfi að hugsa sinn gang.

En það er reyndar alveg rétt.

Þjóðin þarf að hugsa sinn gang.

Þjóðin þarf alvarlega að velta því fyrir sér hve lengi hún getur þolað þessa ríkisstjórn.

 

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Illugi Jökulsson
RSS straumur: RSS straumur

Tímans rás



Hleð...

Eingöngu gamlar fréttir!