Mánudagur 08.06.2015 - 22:31 - FB ummæli ()

Þið farið með þeim

Sonur minn ungur var að útskrifast úr Austurbæjarskóla nú síðdegis og ég varð þess heiðurs aðnjótandi að fá að halda ávarp fyrir hönd foreldra þegar skólanum var slitið. Í trausti þess að ávarpið segi einhverjum öðrum en bara foreldrum og starfsfólki Austurbæjarskóla eitthvað, þá birti ég ávarpið hér.

– – –

Hæ krakkar.

Ég veit að það allra, allra síðasta sem ykkur langar til núna er að hlusta á langar ræður, hvort heldur er frá mér eða öðrum.

Og það væri alveg sama hvað ræðan væri góð, hvað hún væri frábærlega stíluð og hvað hún hefði að geyma innblásna speki um lífið og tilveruna, um skólagönguna og þroskann, um tímann og vatnið – þið yrðuð samt búin að gleyma henni svona um það bil sem ég sleppti síðasta orðinu.

Og það er líka alveg eðlilegt. Þið eruð að hugsa um annað.

Og þið eigið líka að vera að hugsa um annað. Þið eruð að klára merkilegan áfanga í lífinu og eruð margt að hugsa – en hvað einhver pabbinn segir í ræðustól við það tækifæri, það er ekki eitt af því.

Og á ekki að vera.

Ég ætla þess vegna hér með að leysa ykkur undan því að hlusta á ræðuna. Henni er ekki beint til ykkar, og þið megið mín vegna snúa ykkur að einhverju spennandi í símanum.

En ég ætla hins vegar að segja hér fáein orð við kennara og annað starfsfólk í Austurbæjarskólanum.

Nú er það svo að á mínu heimili höfum við átt börn í þessum skóla alveg samfleytt í 25 ár, alveg frá því að eldri strákurinn byrjaði hér eftir einn eða tvo vetur í Ísaksskóla, og um það leyti sem hann var kominn í unglingadeild, þá byrjaði dóttirin á heimilinu í þessum skóla, og einmitt sama árið og hún hætti, þá byrjaði yngri drengurinn sína skólavist sem hann er nú að ljúka eftir tíu ár.

Svo hér höfum við verið í 25 ár, það er heilan aldarfjórðung.

Um það leyti sem fyrsta barnið okkar gekk hér inn um dyr, þá voru Sovétríkin að leysast upp; nú er einhver slúbbert að reyna að klastra þeim saman aftur.

Þetta er nefnilega langur tími – mörg jólaföndur, margar vorhátíðir, margir foreldrafundir, mörg skólaslit.

Auðvitað rennur þetta allt svolítið saman í eitt í minninu, það vona ég að sé eðlilegt, en merkilegt er hvað yfirbragð allra minninga sem ég á um þennan skóla og vist barnanna okkar í honum er bjart, jákvætt og ja, eiginlega bara notalegt.

Ég skal trúa ykkur fyrir því að þegar elsta barnið okkar byrjaði hér í skólanum, þá var ég örlítið efins. Þegar ég var strákur gengu þær sögur meðal okkar prúðu barnanna í Vesturbænum að í Austurbæjarskólanum væru ægilegir og stjórnlausir villingar sem hollast væri að koma ekki of nálægt.

En svo reyndist andrúmsloftið hér vera bæði friðsælt og uppbyggilegt.

Stundum hefur meira að segja hvarflað að mér að það hafi verið næstum undarlega tíðindalaust í þessum skóla.

Að minnsta kosti er það svo að öll þessi tuttugu og fimm ár, þá hef ég alltaf og undantekningarlaust fengið sama svarið þegar ég hef við kvöldverðarborðið spurt börnin þrjú hvað hafi nú gerst í skólanum í dag.

„Ekkert. Ekki neitt. Ekkert sérstakt.“

Þetta er auðvitað tóm vitleysa, auðvitað hefur margt gerst, að langstærstum hluta jákvætt, sem betur fer, en ég hef reyndar aldrei tekið það illa upp þótt börnunum hafi greinilega ekki fundist það sem gerðist í skólanum endilega koma mér mikið við; þetta er jú þeirra heimur, og svo ykkar – ágætu kennarar og annað starfsfólk.

Og ég hlýt að nota hér þetta tækifæri til að þakka ykkur kærlega og auðmjúklega það mikla og góða starf sem þið hafið unnið í þágu barnanna okkar allra á undanförnum árum – í mínu tilfelli undanfarin 25 ár – starf sem þau munu búa að alla sína tíð.

Ég hef aldrei verið kennari, en ég ímynda mér að það sé svolítið blendin tilfinning fyrir kennara að horfa í síðasta sinn á eftir svona hópi eins og þessum 10. bekk sem nú er að kveðja skólann.

Ég ímynda mér að þið séuð réttilega bæði stolt og ánægð yfir því að hafa tekist bara býsna vel að koma þessum greyjum til nokkurs þroska – að svo miklu leyti sem það er ykkar hlutverk – en svo, af því það tilheyrir kveðjustundum, að vera svolítið meyr, þá dettur mér í hug að önnur hugsun læðist kannski að ykkur líka, hún myndi að minnsta kosti læðast að mér:

Æ, þarna hverfa þau á burt og hvernig skyldi þeim svo vegna í lífinu, og verða þau búin að gleyma okkur öllum hér í skólanum eftir eitt, tvö ár, þegar þau verða farin að takast á við nýja og krefjandi hluti í skólakerfinu og í lífinu sjálfu, og minningarnar úr grunnskóla munu dofna og allt mitt starf – myndi ég hugsa – fer þá að sáldrast smátt og smátt úr huga þeirra, og svo verða þau búin að gleyma okkur öllum saman og öllum þeim stundum sem við áttum hér saman.

Svona myndi ég hugsa – í aðra röndina.

En þetta er auðvitað fjarri öllum sanni.

Við vitum það öll af okkar eigin reynslu að kennarar og annað skólastarfsfólk í grunnskólanum er það fólk sem sest einna tryggilegast að í minni hvers einstaklings. Við eigum hvert um sig okkar sterku minningar sem við getum kallað fram hvenær sem við þurfum á að halda um kennara, gangaverði, annað skólastarfsfólk, fólk sem kenndi okkur eitthvað, ýmist upp úr námsbókunum eða einfaldlega eitthvað um lífið – fólk sem sagði okkur eitthvað – sýndi okkur eitthvað – og það er sú staða sem þið eruð nú í.

Þið eruð að kveðja þennan hóp og munið kannski ekki endilega sjá alla þessa krakka mikið héðan í frá – sum munu hverfa ykkar sjónum, önnur ekki – en þið megið vita að þið eruð með ykkar góða starfi, með ykkar áhuga, með uppbyggilegri velvild og snotra hugarfari, já, með þessu öllu eruð þið búin að tryggja ykkur öruggan stað í minningum þessa káta hóps, sem þið eigið ríkan þátt í að er nú að verða að mönnum – þið eigið þar öruggan sess, og gott betur, það er í rauninni svo að þegar þessir krakkar ganga í síðasta sinn út um dyr Austurbæjarskólans og út í lífið, þá verða þau ekki ein, því þið farið öll með þeim.

Og verðið með þeim æ síðan.

Takk fyrir okkur.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Illugi Jökulsson
RSS straumur: RSS straumur

Tímans rás



Hleð...

Eingöngu gamlar fréttir!