Miðvikudagur 05.08.2015 - 21:24 - FB ummæli ()

Íslenskir rithöfundar 1930: Þórbergur á kjólfötum og glæsimennið Kristmann

Sigurjón Magnússon rithöfundur sendi í aldarbyrjun frá sér afskaplega fína skáldsögu sem heitir Borgir og eyðimerkur og fjallar um Kristmann Guðmundsson rithöfund. Hann var á sínum tíma einna frægastur höfundur á Íslandi og raunar erlendis líka framan af ferli sínum; skrifaði fyrstu bækur sínar á norsku og bjó þar í landi, en kom svo til Íslands rétt um það bil sem heimsstyrjöldin síðari hófst og skrifaði á íslensku síðan. Þótt enginn gæti efast um ástríðu Kristmanns til ritstarfa mætti hann ýmsum mótbyr eftir að hingað var komið, bæði listrænum og þó ekki síður pólitískum. Um ýmsa þætti í ævi Kristmanns fjallar Sigurjón á afar skemmtilegan og næman hátt í sögu sinni.

Screen shot 2015-08-05 at 9.19.15 PM

Sigurður, Harriet, Kristmann og Gunnar. Um myndina skrifaði Sigurjón Magnússon: „Oskar nokkur Vistdal hefur skrifað mikið verk um tengsl Gunnars Gunnarssonar við Noreg og hann gróf myndina upp á skjalasafni norska rithöf. sambandsins, þannig að hún dálítið rarítet. Hún er tekin á rithöfundaþingi í Osló 1930 og hefur hvergi birst nema í rafútgáfu af bók Oskars.“

En öll sú saga er enn inní óséðri framtíðinni á mjög skemmtilegri ljósmynd sem Sigurjón sendi mér að gamni sínu í dag, en hún sýnir Kristmann og Gunnar Gunnarsson rithöfund hönd í hönd á rithöfundaþingi í Osló í Noregi árið 1930. Þeir eru giska reffilegir, báðir tveir, sem og Sigurður Nordal sem einnig er á myndinni, og Harriet Haalund, sem var önnur eiginkona Kristmanns, og Sigurjón segir mér raunar að þau Kristmann hafi gengið í hjónaband aðeins fáeinum dögum eftir að myndin var tekin.

Saga Gunnars og Kristmanns var á yfirborðinu nokkuð svipuð, þótt sem rithöfundar væru þeir gjörólíkir – báðir hösluðu sér völl erlendis í upphafi ferilsins og skrifuðu á erlendum málum, Kristmann á norsku og Gunnar á dönsku. Það má fylgja sögunni að báðir náðu þeir afar miklu valdi á því tungumáli sem þeir kusu sér. Kristmann þótti skrifa frábæra norsku, og ekki minni manneskja en söngkonan Gagga Lund sagði einu sinni í mín eyru að Gunnar hefði skrifað einhverja þá fegurstu dönsku sem hún hefði nokkru sinni lesið, og las hún þó mikið á móðurmáli sínu alla ævina.

Og ekki skaðaði að Kristmann þótti einstakt glæsimenni, eins og raunar má auðveldlega sjá af myndinni.

Bæði Gunnar og Kristmann komu svo heim í stríðsbyrjun og lentu í ákveðnum erfiðleikum hér heima, og spilaði pólitík inn í fyrir þá báða. Áhrifamestu mennirnir í íslensku bókmennta- og menningarlífi voru nær allir vinstrisinnaðir og litu leynt og ljóst hornauga þá sem skipuðu á hægri vænginn í menningarskærum kalda stríðsins.

gglax

Gunnar Gunnarsson og Halldór Laxness.

En á ljósmyndinni er sem sagt allt í góðu gengi – og það má kannski líta á hana sem einskonar fyrirrennara þeirrar menningarpólitísku blokkar sem Kristmann og Gunnar skipuðu sér – eða var skipað í – seinna meir. Í því ljósi er líka gaman að Sigurður Nordal sé í útjaðri myndarinnar, því hann neitaði ævinlega að taka þátt í flokkadráttunum í menningarlífinu, en var stundum grunaður um að vera svona heldur hægra megin en hitt.

Aðallega var Sigurður þó líklega enginn öfgamaður á tímum sem kröfðust þess að allir ættu að taka afstöðu.

Nema hvað, myndin var semsagt tekin á rithöfundaþingi í Osló 1930 og svo vill til að Alþýðublaðið birti viðtal við einn af öðrum íslenskum þátttakendum, en það var enginn annar en Halldór Laxness.

Blaðamaður Alþýðublaðsins skrifar:

„Ég hitti Halldór Kiljan Laxness í gær og bað hann um að segja mér eitthvað um hið merka rithöfundamót í Osló. Fórust honum orð á þessa leið:

Thordarson,Thorbergur_02.jpg.550483

Þórbergur.

Mótið hófst 1. júní og endaði 6. júní. Slík mót og þetta eru haldin fimta hvert ár. Sækja þau rithöfundar af öllum Norðurlöndum. Að þessu sinni tóku Íslendingar fyrsta sinni þátt í þessum mótum. Vorum við 5 staddir þar: Sigurður Nordal, Þórbergur Þórðarson, Kristmann Guðmundsson, Gunnar Gunnarsson og ég. — Margir fyrirlestrar og umræðufundir voru haldnir, og enn fremur margar veizlur hjá ýmsum merkum mönnum, t. d. Movinckel forsætisráðherra.

Voru fyrirlestrarnir afar fróðlegir og athyglisverðir og umræðufundirnir mjög fjörugir. Var oft glatt á hjalla í veizlunum, enda voru rithöfundarnir gleðimenn miklir. En Þórbergur, sem er bindindismaður og grængresisneytandi, tók einkum þátt í hinum andlega hluta mótsins, en samt fengum við þá ánægju að sjá hann kjólklæddan í síðustu næturveizlunni, þar sem hann tók öflugan þátt í gleðskapnum.“

Síðar spyr blaðamaður:

„Hvað segið þér um landa okkar, sem dvelja erlendis, Gunnar og Kristmann ?

Gunnar Gunnarsson tók þátt í mótinu sem formaður Bandalags íslenzkra listamanna. Hann hélt ræðu fyrir okkar hönd við opnun mótsins. Gunnar er alt af að vaxa og nema ný lönd í listinni. Hann er og alt af í raun réttri að nálgast meir og meir sitt íslenzka eðli. Hann telur sig og íslenzkan rithöfund fyrst og fremst, enda þótt hann sé hins vegar góður danskur ríkisborgari um leið.

Kristmann Guðmundsson mun vera ákaflega duglegur og afkastamikill rithöfundur. Einn af merkustu bókmentagagnrýnendum Noregs, Charles Kent, kvað hann mjög efnilegan og sumar mannlífslýsingar hans aðdáunarlegar. Kristmann skrifar norsku framúrskarandi vel. Það, sem einkennir Kristmann mest, eru lýsingar hans. Hann flytur engan boðskap.

Mótið var alt mjög ánægjulegt. Þarna stofna orðsins menn til vináttu sín á milli, og slík vinátta miðar að vaxandi bræðralagi milli þjóðanna og auknum skilningi.“

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Illugi Jökulsson
RSS straumur: RSS straumur

Tímans rás



Hleð...

Eingöngu gamlar fréttir!