Föstudagur 02.12.2016 - 18:32 - FB ummæli ()

Pólitískt harakiri!

Það er örugglega gaman að vera ráðherra. Að vera „aðal“ í pólitíkinni. Og geta sagt barnabörnunum seinna frá afrekunum.

Allavega svona oftast nær.

Nú freista Píratar þess að koma saman fimm flokka stjórn ólíkra flokka. Það væri vissulega forvitnilegt að sjá slíka tilraun heppnast – svona út frá pólitísku sjónarhorni. Og það væri ekki síður gaman að sjá Birgittu Jónsdóttur í stól forseta Alþingis – í hlutverki vinnustaðasálfræðingsins. Hlutverk forseta þingsins er nefnilega ekki síst að ná sáttum og finna leiðir til að ólíkt fólk geti unnið saman. Hann þarf að vera sannkallaður vinnustaðasálfræðingur.

Sjálfur sé ég ekki Birgittu fyrir mér í þessu hlutverki, minnugur þess að kalla þurfti til slíkan sálfræðing til að miðla málum í þriggja manna þingflokki Pírata ekki fyrir löngu.

Annað er þó athyglisverðara. Ólíklegt er að fimm flokka stjórn lifi lengi. Til þess eru flokkarnir of ólíkir. Þá mun þvælingslegt og óljóst stjórnkerfi Pírata koma í veg fyrir eðlilega stjórnsýslu. Líklega yrði fljótlega boðað til kosninga að nýju – hætt er við að samstarfið við Pírata verði banabiti eins eða fleiri flokka í þessu samstarfi.

Arfleifðin verður pólitískt harakiri.

Eitt er víst. Það verða jól allt árið í stjórnarandstöðu hjá Sjálfstæðis- og Framsóknarflokki, fari svo að draumur Birgittu um fjölflokkastjórn rætist.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Karl Garðarsson
Höfundur er fyrrverandi þingmaður Framsóknarflokksins á Alþingi
RSS straumur: RSS straumur