Föstudagur 21.04.2017 - 19:45 - FB ummæli ()

Ástir samlyndra hjóna í ríkisstjórn

Þorsteinn Víglundsson félagsmálaráðherra var spurður í RÚV í kvöld hver væru helstu afrek ríkisstjórnarinnar á fyrstu 100 dögum hennar. Hann taldi fram ríkisfjármálaáætlun og tvær nefndir sem til stæði að tilnefna í.

Verkleysi ríkisstjórnarinnar er hins vegar ekki helsta vandamálið sem blasir við í stjórnarsamstarfinu. Fylgishrun Viðreisnar og Bjartrar framtíðar er stærri og erfiðari biti.

Það er engin tilviljun að samstarfsflokkar Sjálfstæðisflokksins tapa alltaf fylgi á meðan hann fitnar eins og púkinn í fjósi Sæmundar. Sjálfstæðisflokkurinn er eins og vel smurð vél og deilur innan flokksins ná sjaldan upp á yfirborðið, Bjarni Benediktsson er einn sterkasti forystumaður stjórnmálanna í dag og stefnan er skýr í flestum málaflokkum. Kjósendur vita að hverju þeir ganga.

Á meðan eru sumir aðrir flokkar meira og minna þjakaðir af sundurlyndi og innbyrðis átökum.

Það á kannski ekki sérstaklega við um Viðreisn og Bjarta framtíð, en Sjálfstæðisflokkurinn hefur hins vegar gert þessum flokkum þann „greiða“ að eftirláta þeim erfið og umdeild ráðuneyti. Slíkt leiðir sjaldnast til fylgisaukningar.

Óttarr Proppé og Benedikt Jóhannesson eiga erfiða daga framundan. Fylgi þeir ekki stefnu Sjálfstæðismanna í stóru málunum blasa kosningar við – það myndi henta Sjálfstæðisflokknum ágætlega, en yrði ávísun á þjáningarfullan dauðdaga Viðreisnar og Bjartrar framtíðar. Við slíkar aðstæður er betra að láta undan.

Við sjáum fyrstu merki þessarar undanlátssemi í fréttum þessi dægrin, þar sem Óttarr Proppé fer undan í flæmingi þegar talið berst að einkavæðingu heilbrigðiskerfisins.

Öðruvísi mér áður brá.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Karl Garðarsson
Höfundur er fyrrverandi þingmaður Framsóknarflokksins á Alþingi
RSS straumur: RSS straumur