Fimmtudagur 24.08.2017 - 13:13 - FB ummæli ()

„Það finnst bara enginn betri“

Fyrir ekki svo löngu var ég sendur af Evrópuráðinu til Kazakhstan til að sinna kosningaeftirliti. Í því landi ræður Nursultan Nazarbayev ríkjum og hefur gert frá 1991. Í síðustu forsetakosningum fékk hann um 98% atkvæða. Í þingkosningum fékk flokkur hans litlu minna.

Á kjördag var ég á flakki milli kjörstaða fyrir utan höfuðborgina Astana, ásamt bílstjóra og túlki. Mér varð á að spyrja þau af hverju ekki fengist frambærilegur frambjóðandi gegn forsetanum. Það sló þögn á ferðafélaga mína og þau litu á hvort annað. Loks sagði túlkurinn: “ Það finnst bara enginn betri.“

Mér hefur oft verið hugsað til þessara orða þegar kemur að foringjavali í íslenskri pólitík. Leiðtogar flokka eru yfirleitt sjálfkjörnir hafi þeir á annað borð áhuga á að starfa áfram. Frá þessu eru reyndar allmargar undantekningar, en það þarf almennt nokkuð mikið að ganga á áður en sjálfir leiðtogarnir falla.

Framundan eru áhugaverðir fundir hjá stóru flokkunum. Þannig er landsfundur Sjálfstæðisflokksins handan við hornið, sömuleiðis landsfundur Vinstri grænna, að ógleymdu flokksþingi Framsóknarflokksins strax eftir áramót.

Hér vakna spurningar. Ljóst er að breytingar verða í forystusveit sumra flokka, ekki síst hvað varaformennsku varðar. En ná breytingarnar lengra? Er t.d. sjálfgefið að Bjarni Benediktsson gefi kost á sér sem áframhaldandi formaður Sjálfstæðisflokksins? Bjarni hefur sannað sig sem sterkur stjórnmálamaður, en er hugsanlegt að áhuginn sé farinn að dvína?

Ég veit ekki svarið.

Eða verður niðurstaða allra þessara funda kannski bara eins og í Kazakhstan. „Það finnst bara enginn betri.“

Flokkar: Óflokkað

«

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Karl Garðarsson
Höfundur er fyrrverandi þingmaður Framsóknarflokksins á Alþingi
RSS straumur: RSS straumur