Miðvikudagur 27.06.2012 - 22:25 - FB ummæli ()

Hvað gerist 1.7.2012?

Á laugardaginn 30. júní n.k. munum við Íslendingar kjósa okkur nýjan þjóðarleiðtoga, nýjan forseta lýðveldisins Íslands.

Stóra spurningin liggur í loftinu og henni verður ekki svarað fyrr en talið hefur verið upp úr kössunum. Hvernig mun andlit þjóðarinnar líta út að morgni 1. júlí 2012? Hvaða einstaklingur mun leiða íslensku þjóðina næstu árin (8-12 árin), vera sameiningartákn hennar innanlands og andlit hennar út á við? Erum við ennþá jafn huguð og framsýn og við vorum þegar við vorum fyrsta þjóðin til þess að kjósa okkur konu sem forseta?

Frá því íslenska efnahagsundrið brotlenti með hvelli og sprakk framan í þjóðina höfum við ekki fengið tækifæri til þess að kjósa okkur nýjan forseta, en núna er komið að því.

Við lifum sérstaka tíma, umbrotatíma, sögulega tíma. Því eru kosningarnar ákaflega mikilvægar og geta slegið þung stef komandi missera og ára.

Hvað á að kjósa? mynd af forsetaframbjóðendum 2012

Á að kjósa sitjandi forseta sem setið hefur á valdastóli í 16 ár og telur sig ómissandi amk. næstu fjögur árin, forseta sem er eins og kamelljónið og lagar sig að aðstæðum hverju sinni. Hefur staðið fremstur í klappliði og flogið í einkaþotum útrásarvíkinganna þegar það var inni en skömmu seinna lagt hlífðarskildi yfir þjóðina til að reyna að hlífa henni við skelfilegum afleiðingum af brotlendingum sömu einkaþotanna. Er rétt að kjósa forseta vegna þess að hann einn (sem stjórnmálaafl í sjálfu sér) eigi að vernda hana fyrir sitjandi óvinsælli ríkisstjórn (sem hefur einungis umboð nokkra mánuði í viðbót) eða græðgishrömmum Evrópu sem bíði færis á að læsa sig í land og þjóð en óttast þó ekki kínverska drekann sem virðist ekki síður hafa mikinn áhuga á fámennu þjóðinni sem býr á einu ríkasta landi heims af auðlindum. Forseta sem keppist við að bjóða háttsettum fulltrúum úr austri inn í betri stofuna á Bessastöðum en lítur á sama tíma undan vegna hörmulegra mannréttindabrota og menningarmorðs Kínverja gegn Tíbetum?

Eða á að kjósa forseta nýrra tíma. Nýtt andlit. Nýjan forseta sem sendir þjóðinni og umheiminum sterk skilaboð um að nú séu runnir upp nýir og betri tímar. Tímar samstöðu og sátta með þjóðarhag að leiðarljósi. Forseta sem ætlar að beita sér fyrir því að vera forseti allra, hvorki meira eða minna. Ætlar að leitast fyrst og fremst við að sameina ólíkar fylkingar, hjálpa fólki að sjá hvað það á sameiginlegt, hvað það getur staðið saman um og hvernig megi nýta jákvæðnina sem drifkraft breytinga og nýrra tíma. Forseta sem mun vissulega beita sér í stjórnmálunum ef á þarf að halda en einbeitir sér fyrst og fremst að sínu ópólitíska hlutverki að vera þjóðarleiðtogi allra Íslendinga í gegnum súrt og sætt.

Ætlar þú að kjósa nýja framtíð eða nýja fortíð á laugardaginn?

Ég ætla að kjósa nýja framtíð og tel Þóru Arnórsdóttur vera þann frambjóðanda af úrvali hæfra frambjóðenda meðal annarra Hannesi og Ara Trausta sem hefur mesta burði til þess að leiða okkur saman inn í nýja framtíð fyrir Ísland og íslenska þjóð.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Kristbjörg Þórisdóttir
er sálfræðingur með diplóma gráðu í fötlunarfræðum sem hefur mikinn áhuga á heilbrigðum lífsstíl, samfélaginu, umbótum og stjórnmálum
Vertu breytingin sem þú vilt sjá í heiminum (Mahatma Gandhi)

Kristbjörg er varaþingkona Framsóknarflokksins í Suðvesturkjördæmi
RSS straumur: RSS straumur