Fimmtudagur 12.07.2012 - 15:50 - FB ummæli ()

Óla Birni Kárasyni svarað

Síðasta bloggfærslan mín virðist einhverra hluta vegna hafa hreyft við viðkvæmum sjálfstæðishjörtum. Svo mikið hreyfði hún við varaþingmanninum Óla Birni Kárasyni að hann virðist hafa séð sig knúinn til þess að skrifa þessa frétt um málið.

Þar sakar hann mig um að skálda staðreyndir og segir m.a.:

Ef staðreyndir falla ekki að fyrirfram ákveðnum skoðunum detta margir í þá gryfju að „búa” til staðreyndir – skálda eitthvað sem þeim finnst að sé eða hjóti að vera. „Skáldaðar staðreyndir” eru síðan notaðar til að rökstyðja ákveðna skoðun. Kristbjörg Þórisdóttir, sálfræðingur og stjórnarmaður í Samstöðu (flokki Lilju Mósesdóttur) trúir því að Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn séu flokkar leyndarhyggju. Til að renna stoðum undir þessa skoðun sína og réttlæta samsæriskenningu, tekur Kristbjörg sér skáldaleyfi – setur fram staðlausa stafi og bull.

Jafnframt segir hann:

Allt er þetta meira eða minna rugl og tilbúningur – hreinn skáldskapur. Kristbjörg hefði ekki þurft að leita lengi inn á vef Sjálfstæðisflokksins til að finna lista (með myndum og upplýsingum) yfir frambjóðendur til miðstjórnar á síðasta landsfundi. Hún hefði einnig átt með lítilli fyrirhöfn að finna upplýsingar um alla þá sem sitja í miðstjórn eftir breytingar sem gerðar voru á samþykktum Sjálfstæðisflokksins á flokkráðsfundi fyrir nokkrum mánuðum:

Ég hef mikinn áhuga á vinnubrögðum og raunverulegu gagnsæi. Þann 18. nóvember 2011 skrifaði ég pistil um efnið þar sem segir m.a.:

Flokkarnir tala um endurnýjun og gagnsæi. Ef maður skimar yfir heimasíður stjórnmálaflokkanna þá er ákaflega erfitt að finna upplýsingar um hverjir sitja í trúnaðarstöðum á vegum þeirra. Það má segja Samfylkingu og Vinstri grænum til hags að þrátt fyrir harða gagnrýni á leyndarhyggju þeirra þá er amk. hægt að sjá hverjir sitja í flokksráðum þeirra á heimasíðum flokka þeirra. Það sama er ekki hægt að segja um Sjálfstæðisflokk og Framsókn. Þetta tel ég mikinn ágalla. Flokkar eru ekki annað en fólkið sem í þeim er. Ef kjósendur geta ekki séð hverjir sitja í valdastofnunum flokkanna eða taka að sér verkefni fyrir þá er verið að bjóða þeim upp á að kjósa pakka sem þeir geta ekki séð innihaldið í. Treysti menn sér ekki til þess að láta vensla nafn sitt við ákveðinn flokk t.d. vegna stöðu sinnar eða atvinnu þá geta þeir valið að starfa með flokkunum sem almennir flokksmenn án þess að taka að sér trúnaðarstöður. Þessi leyndarhyggja býður upp á spillingu og hagsmunagæslu og hana verður að uppræta eigi íslensk pólitík og samfélag að ná heilbrigði á ný. Alþingi og ráðuneytin þurfa líka að vera meðvituð um það að upplýsa um hverjir sitja í öllum þessum nefndum sem endalaust er verið að skipa og virðast eiga að leysa allan landsins vanda og hverjir það eru sem skipuðu þessa einstaklinga.

Ég þekkti innviði Framsóknarflokksins þar sem ég var áður félagi í honum og veit að þar eru nöfn þeirra sem sitja í miðstjórn sem eru um 180 einstaklingar ekki gefin upp, hvorki félagsmönnum né opinberlega.

Ég skoðaði vefsíður hinna flokkanna í haust áður en ég skrifaði færsluna og sá að nöfn þeirra sem sitja í flokksráði Vg eru birt, flokksstjórn Samfylkingar en ég fann ekki lista sambærilegs ráðs hjá Sjálfstæðisflokknum sem hlýtur þá að vera Flokksráðið en nöfn þeirra sem sitja í því eru ekki birt á heimasíðunni einungis kemur fram hvernig það er samsett og nöfn þess sem heitir Miðstjórn hjá Sjálfstæðisflokki eru gefin upp. Á sínum tíma fann ég einungis mjög stuttan nafnalista en kannski hefur Sjálfstæðisflokkurinn eitthvað bætt sig í millitíðinni og birt nákvæmari upplýsingar. Flokknum má þó hrósa fyrir að hafa haft beina útsendingu af Landsfundinum sem ég gerði einmitt en sorglegt að sumir flokksbundnir Sjálfstæðismenn hafi ekki átt þess kost að sitja fundinn eða hafa þar bein áhrif.

Það er gott að Óli Björn sé svona vel upplýstur um innviði Sjálfstæðisflokksins því þá getur hann upplýst mig að aðra um hvar er að finna lista yfir þá einstaklinga sem sitja í Flokksráði og öllum öðrum trúnaðarstöðum á vegum flokksins hans.

Einnig væri áhugavert að heyra hvaða hug Óli Björn ber til þess að koma á fót beinu lýðræði í sínum flokki þannig að allir flokksmenn gætu tekið þátt í að kjósa sér nýjan formann og ákvarða stefnuna.

Í þriðja lagi væri gott að fá fram afstöðu hans til hámarkstíma kjörinna fulltrúa á þingi, sem ráðherra, forseta, ráðuneytisstjóra og öðrum mikilvægum embættum.

Ég hvet þig Óli Björn til þess að svara með því að setja inn athugasemd við þessa færslu því ég sá umfjöllun þína á Facebook síðu þinni og á vef þínum einungis fyrir tilviljun þar sem þú hafðir ekki gert neina athugasemd undir pistilinn sjálfan eins og ég býð upp. Hvet þig jafnframt til þess að bjóða upp á slíkt hið sama á vef þínum.

Að lokum verð ég að segja að mér þykir það sérkennileg afstaða að gefa sér fyrirfram að ég sé að skálda viljandi upp staðreyndir til þess að koma höggi á pólitíska andstæðinga. Það er ákveðið hugtak sem segir að með sínum glerjum sér hver maður heiminn og kannski segir þessi upplifun Óla Björns af pistli mínum meira um hann sjálfan og vinnubrögð í hans flokki en mig.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Kristbjörg Þórisdóttir
er sálfræðingur með diplóma gráðu í fötlunarfræðum sem hefur mikinn áhuga á heilbrigðum lífsstíl, samfélaginu, umbótum og stjórnmálum
Vertu breytingin sem þú vilt sjá í heiminum (Mahatma Gandhi)

Kristbjörg er varaþingkona Framsóknarflokksins í Suðvesturkjördæmi
RSS straumur: RSS straumur