Miðvikudagur 18.07.2012 - 22:24 - FB ummæli ()

Kosningar fyrir allla kjósendur

Það styttist í kosningar og greinilegt að ýmsir eru farnir að hugleiða kosningabaráttuna.

Ég fékk mjög góða áskorun sem ég ætla að verða við hér og það er að taka upp umræðu á þessum vettvangi um mikilvægi þess að það sem stjórnmálaflokkarnir láta frá sér varðandi stefnumál og annað verði aðgengilegt öllum kjósendum. Þessum spurningum var meðal annars velt upp:

  • Hvers vegna eru upplýsingar um starf flokkanna ekki á auðskildu máli?
  • Hvers vegna eru upplýsingar um það fyrir hvað flokkarnir standa ekki á auðskildu máli?
  • Hvers vegna eru helstu stefnumálin og kosningastefnuskrárnar ekki á auðskildu máli?

Það væri jafnvel spurning hvort einhver sem er sérfróður um auðlesið efni gæti tekið að sér það verkefni að setja saman efni um öll framboðin á auðlesnu máli þannig að það væri aðgengilegt og í sömu gæðum því það er ekki sama hvernig þetta er gert til þess að það nýtist. Innanríkisráðuneytið?

Kosningaþátttaka fer dvínandi og mögulega myndu fleiri taka þátt ef þeir hefðu raunverulegt aðgengi að upplýsingum um flokkana og helstu stefnumál þeirra sem myndi vekja áhuga og auðvelda valið og nýtingu kosningaréttarins. Hér er um mikilvægt mannréttindamál að ræða því öll eigum við sama kosningarétt og rétt á því að greiða atkvæði okkar leynilega eins og Freyja Haraldsdóttir mannréttindafrömuður (ekki meint mannréttindafrekja) hefur svo réttilega bent á í þessum pistli. Ýmsar leiðir eru færar til þess að allir geti nýtt sinn kosningarétt með stolti, hér er ein hugmynd sem ég fann á netinu og þær eru eflaust ófáar lausnirnar sem hafa verið kynntar:

Gott er að hafa í huga í sambandi við aðgengismál að oft eru mun fleiri en fólk með skerðingar sem nýtir sér gott aðgengi hvort sem það er manngert eða að upplýsingum. Hvern truflar það að hafa breiðari hurðir, skýrari og styttri texta og einfaldara umhverfi? Ekki mig. Slíkt getur hentað sérlega vel fólki af erlendu bergi brotnu, yngri kynslóðinni, fólki með skerðingar, eldra fólki, tímabundnu fólki á hraðferð og svo framvegis.

Ég hef áður velt þessum málum fyrir mér m.a. í þessari grein og eitt af því sem hefur verið mér hugleikið eru vefsíður og aðgengileiki þeirra. Hér má sjá ýmsar gagnlegar upplýsingar um aðgengilegar vefsíður. Vefsíða Alþingis er til dæmis ekki aðgengileg enn í dag þrátt fyrir að ég (og kannski fleiri) hafi bent á það oftar en einu sinni. Vefstjórar allra opinberra vefsíðna ættu að vera skyldugir til þess að laga sig að þörfum margbreytileikans eins og síða Tryggingamiðstöðvarinnar er gott dæmi um og eiga þeir og fleiri mikið hrós skilið fyrir. Einnig þarf að huga að að manngerðu aðgengi eins og hvort allir kjósendur komist auðveldlega á kosningaskrifstofur flokkanna og þá er átt við að þeir komist sömu leið og aðrir kjósendur, ekki bakdyramegin.

Einn þáttur sem spilar hér inn í er fjármagn. Eins og kerfið er uppbyggt í dag fá þeir flokkar sem eiga þingmenn fjármagn eftir þingstyrk. Ný framboð fá nánast ekkert. Það kostar framboðin fjármagn að setja heimasíðurnar upp þannig að þær séu eins aðgengilegar og þær geti verið, að koma sér upp húsnæðisaðstöðu sem er aðgengileg og að snara efninu yfir á auðlesið mál (sé það ekki gert t.d. í innanríkisráðuneytinu). Það er samt mikilvægt að hafa það í huga að oft er ekki um verulegan kostnaðarmun að ræða sé þetta gert rétt strax í upphafi.

Ég mun tala fyrir þessu í mínum flokki, SAMSTÖÐU flokki lýðræðis og velferðar og vona að önnur framboð hugi einnig að þessu.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Kristbjörg Þórisdóttir
er sálfræðingur með diplóma gráðu í fötlunarfræðum sem hefur mikinn áhuga á heilbrigðum lífsstíl, samfélaginu, umbótum og stjórnmálum
Vertu breytingin sem þú vilt sjá í heiminum (Mahatma Gandhi)

Kristbjörg er varaþingkona Framsóknarflokksins í Suðvesturkjördæmi
RSS straumur: RSS straumur