Laugardagur 18.08.2012 - 00:27 - FB ummæli ()

Ég verð aldrei söm

Þann 21. maí 1999 hóf ég störf á sambýli fatlaðs fólks. Ég var ung, blaut á bakvið eyrun og hafði enga reynslu af starfi með fötluðu fólki né orðið mikið vör við þátttöku fatlaðs fólks í samfélaginu eða í nærumhverfinu.

Ég starfaði á þessum einstaka stað í átta ár og held enn tengslum við staðinn og íbúana og ég get fullyrt það að ég verð aldrei söm. Ég var minnt á það þegar ég kvaddi góða vinkonu hversu mikið þetta starf og sérstaklega fólkið sem ég vann fyrir kenndi mér. Í starfinu eignaðist ég líka marga mjög góða kunningja og vini sem eru mér dýrmætir samferðafélagar í dag.

Stundum þegar við hendumst í gegnum lífið, föst í fortíðinni eða á fleygiferð með hugann í framtíðinni með áhyggjur af öllu á milli himins og jarðar og erum búin að flækja líf okkar út í hið óendanlega þá hreinlega gleymum við því sem skiptir mestu máli. Augnablikinu sem er hér og nú, þeim gildum að vera nákvæmlega og í einlægni þar sem við erum, þau sem við erum í einfaldleika lífsins. Það er einn besti lærdómur sem ég tók með í farteskið. Fólkið sem ég vann fyrir kunni og kann þetta svo ákaflega vel. Að vera þau sjálf, sleppa því að setja upp grímu og sýna tilfinningar sínar og upplifun. Kunna að njóta þess sem hvert augnablik hefur upp á að bjóða og njóta hins einfalda í lífinu. Þau kenndu mér að vera ekki of föst inn í rammanum sem við múrum okkur stundum inn í. Það getur verið frábær hugmynd að dansa úti á götu eða dansa í flugvél ef þér líður þannig :). Það má alveg skála í morgunkaffinu og segja sama brandarann aftur og aftur ef það gleður mann sjálfan og fólkið í kringum mann. Maður er einfaldlega betri manneskja fyrir sjálfan sig og aðra ef maður kann að njóta lífsins eins og það kemur fyrir án allrar tilgerðar.

Mikið vona ég að sem flestir geti notið þessa lærdóms og mikið vona ég að samfélag okkar þróist á þann veg að skilja betur og aðlaga sig betur að þörfum sem flestra. Samfélagið á ekki að setja upp hindranir heldur brjóta þær niður. Við eigum margar hulduhetjur sem vinna þrekvirki daglega. Þær er að finna í fólki með skerðingar sem heyjar stundum erfiða lífsbaráttu en nær samt að einbeita sér að því sem mestu máli skiptir í lífinu og kenna mörgum öðrum í leiðinni. Þær er líka að finna í aðstandendum fatlaðs fólks sem hafa þurft að berjast fyrir ýmsu af því sem flestir telja sjálfsagt og huga vart að oft með aðdáunarverðu æðruleysi og styrk. Hulduhetjur er líka að finna í starfsfólki sem vinnur oft á tíðum ákaflega flókin og sérhæfð störf við það að hjálpa þeim sem þess þurfa að lifa innihaldsríku lífi þrátt fyrir sorglega lágar tölur á launaseðlinum.

Í huga mínum er fyrst og fremst þakklæti fyrir það að hafa fengið það tækifæri að starfa með fólki og í umhverfi sem kennir svona mörg og góð fög í háskóla lífsins og verða aldrei söm á eftir.

Flokkar: Lífið og tilveran

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Kristbjörg Þórisdóttir
er sálfræðingur með diplóma gráðu í fötlunarfræðum sem hefur mikinn áhuga á heilbrigðum lífsstíl, samfélaginu, umbótum og stjórnmálum
Vertu breytingin sem þú vilt sjá í heiminum (Mahatma Gandhi)

Kristbjörg er varaþingkona Framsóknarflokksins í Suðvesturkjördæmi
RSS straumur: RSS straumur