Fimmtudagur 06.12.2012 - 23:31 - FB ummæli ()

Til stuðnings Eygló Harðardóttur

Ég man ennþá eftir símtalinu sem ég fékk þegar ég var nemi í Árósum í Danmörku. Þá var hún að bjóða sig fram til ritara Framsóknarflokksins eins og önnur afar frambærileg kona og fyrrverandi bekkjarsystir mín var einnig að gera. Ég vissi svo sem ekki mikið um þessa ungu eldhuga konu. Við áttum gott spjall og ég taldi mig skynja það að í fyrsta lagi værum við á sömu línu málefnalega og deildum áþekkum hugsjónum og í öðru lagi þá gæti ég treyst því að hún væri að meina það sem hún segði frá innstu hjartarótum.

Fólk sem biður um stuðning í ábyrgðarstörf getur farið með fallegar ræður og rökrætt af skynsemi. Það sem skilur á milli þess sem ég styð og ekki í mínum huga er annars vegar mín tilfinning fyrir manneskjunni við fyrstu kynni en hins vegar það sem tíminn leiðir í ljós um manneskjuna. Hvort fólk segi það sem það gerir og geri það sem það segir. Þannig byggir fólk upp traust og áreiðanleika. Núna, tæplega fjórum árum síðar hefur það komið á daginn að ekki aðeins var Eygló traustsins verð heldur hefur hún farið fram úr mínum væntingum sem afburða og framúrskarandi þingmaður.

Eygló Harðardóttir hefur unnið sér fylgi langt út fyrir raðir síns flokks vegna dugnaðar, heiðarleika, skynsemi, festu og mikilla hæfileika til þess að gegna því virðingarverða starfi að gera samfélag okkar betra sem þjóðkjörinn fulltrúi. Ég hef fylgst vel með henni og tekið eftir því að þegar aðrir rífast í þáttum þá bíður hún róleg en kemur svo með vel rökstutt innlegg á réttum tímapunkti og nær athygli allra. Ég hef tekið eftir því að þegar aðrir gleyma sér í persónulegum hagsmunum þá horfir hún til hagsmuna heildarinnar. Ég hef tekið eftir því að þegar aðrir reyna að dansa á fyrirfram ákveðinni línu til þess að elta hjörðina þá fylgir hún sannfæringu sinni. Ég hef tekið eftir því að þegar aðrir rífast og missa fókusinn í ágreiningi þá er hún rödd skynsamra sátta sem reynir að miðla málum. Ég hef tekið eftir því að hún tekur að sér þjóðfélagslega mikilvæg málefni, kynnir sér þau vel og sinnir þeim af festu og einurð. Þar má m.a. nefna t.d. skuldamálin, efnahagsmál ásamt ýmsum umbóta- og velferðarmálum. Ég hef tekið eftir því að meðan aðrir tala í frösum þá les hún sér til og kynnir málefnalega afstöðu. Ég hef tekið eftir því að hún hefur afar marga eiginleika sem góður þingmaður, ráðherra og leiðtogi þarf að hafa án þess að vera fullkomin frekar en nokkur annar.

Ég hef þá stefnu að styðja gott fólk sem stendur fyrir góð málefni. Aðrir þingmenn/þingkonur sem ég er nú ekki alltaf sammála en ber virðingu fyrir og tel að starfi af einlægni eru m.a. Lilja Mósesdóttir, Guðmundur Steingrímsson, Margrét Tryggvadóttir, Siv Friðleifsdóttir, Guðbjartur Hannesson, Atli Gíslason, Oddný G. Harðardóttir, Björgvin G. Sigurðsson, Pétur Blöndal, Ögmundur Jónasson og Guðfríður Lilja Grétarsdóttir til þess að nefna nokkur góð nöfn.

Ég ætla að mæta á kjördæmisþing framsóknarmanna í SV kjördæmi um helgina til þess að greiða Eygló Harðardóttur atkvæði mitt sem oddvita listans því hún hefur unnið sér inn traust mitt og henni treysti ég allra best til þess að vinna að hag íslensku þjóðarinnar og hef einnig væntingar um að hún taki að sér enn stærri hlutverk í náinni framtíð.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Kristbjörg Þórisdóttir
er sálfræðingur með diplóma gráðu í fötlunarfræðum sem hefur mikinn áhuga á heilbrigðum lífsstíl, samfélaginu, umbótum og stjórnmálum
Vertu breytingin sem þú vilt sjá í heiminum (Mahatma Gandhi)

Kristbjörg er varaþingkona Framsóknarflokksins í Suðvesturkjördæmi
RSS straumur: RSS straumur