Fimmtudagur 17.01.2013 - 22:04 - FB ummæli ()

Lífsspor kraftaverkakonu

Um þetta leyti er Vilborg Arna Gissurardóttir líklega að renna í langþráð mark á Suðurpólnum.

Ég dáist að þessari ungu kraftaverkakonu. Ekki bara fyrir það líkamlega atgervi að skíða 1100 km við sennilega erfiðustu aðstæður sem hægt er að hugsa sér heldur líka fyrir þann gríðarlega mikla andlega styrk sem kemur henni frá upphafi hugmyndar til lokamarksins.

Vilborg hefur með taumlausri vinnu og dugnaði gert draum sinn að raunhæfu markmiði. Allur undirbúningurinn, hugmyndafræðin og sá andlegi styrkur sem þarf til þess að standa ein úti í algleymi þar sem allra veðra er von og eflaust fleiri óvæntra uppákoma eins og ísbjarna (kannski ekki alveg en hvað veit maður hverju hún gæti mætt?), að þurfa að takast á við allt sem mögulega gæti komið upp á eigin spýtur er veruleg þrekraun. Hugrekki, áræðni og jákvæðni er það sem þarf en það eru þau gildi sem Vilborg hefur að leiðarljósi.

Fljótlega fennir í þau spor sem Vilborg hefur lagt að baki eða sólargeislar Suðursins hafa brætt þau en svo mikið er víst að þau spor sem hún hefur markað í huga margra munu aldrei hverfa. Spor þeirrar sem sýnir í verki að skilgreini maður drauma sína nákvæmlega, undirbúi sig og hafi hugrekki, áræðni og jákvæðni til að hrinda þeim í framkvæmd þá getur hvert og eitt okkar staðið á okkar póli. Fyrir þá sem stýra þjóðarskútunni þá er Vilborg líka fyrirmynd því við sem þjóð getum líka staðið á okkar póli og glaðst vitum við hvert við viljum stefna, undirbúum okkur vel, höfum gildi okkar að leiðarljósi og sýnum kjark, áræðni og jákvæðni til að stefna áfram að markmiðum okkar, að okkar pól.

Ég hef að sjálfsögðu styrkt LÍFsspor Vilborgar og hvet aðra að gera slíkt hið sama.

Til hamingju Vilborg.

Til hamingju þjóð með kraftaverkakonuna sem markað hefur óafmáanleg lífsspor fyrir okkur öll.

Flokkar: Lífið og tilveran

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Kristbjörg Þórisdóttir
er sálfræðingur með diplóma gráðu í fötlunarfræðum sem hefur mikinn áhuga á heilbrigðum lífsstíl, samfélaginu, umbótum og stjórnmálum
Vertu breytingin sem þú vilt sjá í heiminum (Mahatma Gandhi)

Kristbjörg er varaþingkona Framsóknarflokksins í Suðvesturkjördæmi
RSS straumur: RSS straumur