Laugardagur 26.01.2013 - 15:16 - FB ummæli ()

Guðbjartur Hannesson stuðningsgrein

Eftir því sem maður kynnist stjórnmálum betur áttar maður sig sífellt betur og betur á því hversu gott fólk er að finna innan allra flokkanna. Ákveðnir einstakingar höfða betur til manns en aðrir. Oft er það eitthvað við fyrstu sýn sem maður tekur eftir en í stjórnmálum gildir það ekki síður að fólk ávinnur sér traust og hylli manns. Það gerir það sem það segir og segir það sem það gerir (eins og Eygló Harðardóttir þingkona Framsóknar hefur lýst svo vel).

Þannig hefur Guðbjartur Hannesson núverandi velferðarráðherra áunnið sér traust mitt og stuðning. Hann er einn af þeim stjórnmálamönnum sem ég myndi hiklaust greiða atkvæði mitt í persónukjöri og styðja í ábyrgðarstöður.

Hvers vegna?

Í fyrsta lagi vegna þess að hann hefur marga þá kosti sem ég tel að prýða þurfi góðan stjórnmálamann og leiðtoga. Í öðru lagi þá tel ég hann standa fyrir mörg málefni og gildi sem ég er afar sammála.

Guðbjartur er alþýðlegur stjórnmálamaður sem ég kynntist aðeins persónulega þegar ég vann að tímabundnu verkefni yfir sumar í velferðarráðuneytinu. Hann settist hjá okkur sumarstarfsfólkinu og spjallaði um daginn og veginn. Þar upplifði maður ekki að maður sæti í kaffi með ráðherra sem teldi sig að einhverju leyti yfir aðra hafinn heldur sat þarna gamli skólastjórinn, jafnaðarmaðurinn og persónan Gutti. Þannig upplifði ég það. Hann var ekki upptekinn af því hvaða stól hann vermdi eða hvaða hlutverki hann gegndi heldur var hann sjálfur með sjónar á þeim úrlausnarefnum sem blöstu við á hverjum degi með almannahag að leiðarljósi. Það skiptir mig mjög miklu máli varðandi stjórnmálamenn að þeir týni ekki sjálfum sér í starfinu. Með Guðbjarti í ráðuneytinu vinnur afbragðs fólk. Aðstoðarkona hans Anna Sigrún Baldursdóttir og ógrynni af öflugu starfsfólki.

Guðbjartur hefur sennilega staðið eina erfiðustu vakt sem boðið hefur verið upp á að stýra velferðarráðuneytinu sem tekur ef ég man rétt amk. 30-40% af útgjöldum ríkissjóðs á krepputímum þar sem gríðarleg krafa hefur verið um sársaukafullan niðurskurð og hagræðingu. Þetta hefur honum tekist að gera eins vel og hægt er að búast við að mínu mati. Hann þorir að taka erfiðar ákvarðanir sem reynast misvel því enginn getur tryggt að allar ákvarðanir sem maður tekur séu réttar. Munurinn á honum og öðrum er sá að þegar honum hefur orðið á eins og varðandi mál forstjóra Landspítalans þá hefur hann getað staðið í lappirnar, leiðrétt mistökin og beðist afsökunar. Stundum sjáum við nefnilega eftir á að ákvörðun sem við byggðum á ákveðinni rökfærslu hrindir af stað atburðarrás sem við sáum ekki fyrir og ný gögn í málinu sýna okkur að ákvörðunin var röng og þarf að leiðrétta.

Ég hvet þá sem hafa kosningarétt í kjöri Samfylkingarinnar að nýta sér atkvæðisrétt sinn og greiða Guðbjarti Hannessyni atkvæði sitt sem næsta formanns Samfylkingarinnar. Kjörinu lýkur á mánudaginn 28.1. kl. 18.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Kristbjörg Þórisdóttir
er sálfræðingur með diplóma gráðu í fötlunarfræðum sem hefur mikinn áhuga á heilbrigðum lífsstíl, samfélaginu, umbótum og stjórnmálum
Vertu breytingin sem þú vilt sjá í heiminum (Mahatma Gandhi)

Kristbjörg er varaþingkona Framsóknarflokksins í Suðvesturkjördæmi
RSS straumur: RSS straumur