Mánudagur 07.10.2013 - 00:14 - FB ummæli ()

YES

Á föstudaginn tók ég þátt í Breiðholtsbylgjunni þar sem allir starfsmenn Reykjavíkurborgar í Breiðholti héldu velheppnaðan starfsdag. Jóhann Ingi sálfræðingur hélt tölu. Hann fjallaði m.a. um það að hver og einn ber ábyrgð á sér punktur! Við berum líka ábyrgð á því að mæta í vinnuna með ljósin kveikt! Hann fjallaði líka um það að hafa trú á manneskju væri dýrmætasta gjöfin sem við gætum gefið henni/honum. Hann kynnti YES formúluna. Hún snýst um mikilvægi þess að að vera Yfirveguð, Einbeitt og Sjálfsörugg. Það er líka ágætt að hafa YES í huga varðandi það að taka því sem lífið hefur upp á að bjóða hverja stund með opnum örmum. Byrja á því að segja við sjálfan sig YES áður en við leyfum okkur að hugsa NO… Það er svo margt sem við gætum upplifað og notið ef við lifðum eins og YES man. Að lokum minnti hann okkur á að sjálfstraust vex við notkun, punktur.

Mynd af skipi lífsins og ljóðÉg horfði líka á tvær myndir, Notebook og Hotel Rwanda. Báðar hreyfa við manni en með ólíkum hætti. Önnur fjallar um djúpa ást en hin um mannlegan hrylling í sinni verstu mynd. Öll þráum við ást og öryggi og það er eitt það besta sem við getum gefið og þegið. Við megum aldrei gleyma því að hver einasta manneskja sem fæðist á þessari jörð á sama tilverurétt og við og er 99% lík okkur. Þess vegna þurfum við t.d. að standa okkur vel í þróunaraðstoð og þess vegna er mikilvægt að við tökum á móti flóttamönnum og veitum þeim sem upplifað hafa meiri hörmungar en við getum ímyndað okkur öruggt skjól.

Við erum mannleg, við erum breysk. Við eigum okkar góðu hliðar en líka okkar slæmu hliðar. Það er vinna að verða besta útgáfan af sér og sú útgáfa verður sennilega aldrei fullbúin, ekki einu sinni eftir meistaramánuðinn ;), en við getum stefnt þangað. Bætt okkur á hverjum degi. Gert fullt af hlutum og heilan helling af mistökum og lært af þeim flestum. Verið okkar besti lífsförunautur, okkar besti vinur/besta vinkona sem klappar á öxlina fyrir vel unnið verk, hvetur okkur áfram til þess að verða það sem við viljum verða og huggar okkur þegar eitthvað fer úrskeiðis. Við getum verið breytingin sem við viljum sjá í heiminum. Við getum stigið fyrsta skrefið inn í óvissuna og byrjað þannig spennandi ferð. Við getum tekið hverju andartaki með YES-i og verið yfirveguð, einbeitt og sjálfsörugg og notið þess sem lífið hefur upp á að bjóða á hverju einasta augnabliki. Við getum lært af fortíðinni, verið í núinu og hlakkað til framtíðar. Við getum verið skipstjórar á okkar eigin skútu, siglt henni þangað sem bara okkur langar að fara, stundum með vind í seglin, stundum í gegnum brotsjó. Við getum staðið af okkur storminn og notið þeim mun betur sólarinnar þegar hún brýst fram. Við stýrum en látum ekki skútuna okkar veltast um í briminu stjórnlausa og látum ekki aðra kippa í stýrið á okkar fagra fleyi. Öll fáum við bara eina skútu og eina siglingu. Við berum ábyrgð á að njóta hennar vel, verða besta útgáfan af okkur og segja YES við lífið.

Flokkar: Lífið og tilveran

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Kristbjörg Þórisdóttir
er sálfræðingur með diplóma gráðu í fötlunarfræðum sem hefur mikinn áhuga á heilbrigðum lífsstíl, samfélaginu, umbótum og stjórnmálum
Vertu breytingin sem þú vilt sjá í heiminum (Mahatma Gandhi)

Kristbjörg er varaþingkona Framsóknarflokksins í Suðvesturkjördæmi
RSS straumur: RSS straumur