Fimmtudagur 10.10.2013 - 22:18 - FB ummæli ()

Til geðhamingju!

john-lennon-quote-1Til hamingju með Alþjóða geðheilbrigðisdaginn!

Flest óskum við þess að verða hamingjusöm í lífinu. Hamingjan er ein eftirsóknarverðasta tilfinning sem við getum upplifað og það er ekki síður mikilvægt að læra hvernig höndla má þessa dýrmætu gjöf en læra stærðfræði í skóla.

Til þess að njóta hamingju eru ákveðnir einstaklingsbundnir þættir og grunnþarfir sem þurfa að vera í lagi. Við viljum upplifa öryggi, við viljum vera elskuð og elska, við viljum tilheyra og eiga ákveðið hlutverk og við viljum skilja eitthvað merkilegt eftir okkur.

Þrátt fyrir mikla velmegun þá virðist hamingjan stundum af skornum skammti. Margir bera harm sinn í hljóði og upplifa sig eina í vanlíðan. Jafnvel fólk sem flestir halda að líði frábærlega á sína svörtu daga. Enn í dag erum við að fást við hamlandi fordóma sem liggja eins og mara yfir samfélaginu. Það má nefnilega ekki vera geðveikur en það má alltaf vera bakveikur! Vitið þið um marga sem hringja sig inn í vinnu og gefa þá skýringu að þeir séu kvíðnir eða þunglyndir og komist þess vegna ekki í dag? Vitið þið um marga sem leita læknisaðstoðar út af kvíða eða þunglyndi á heilsugæslunni? Ég veit ekki um marga en tölfræðilega vitum við að orsök veikindadaga starfsfólks er oft að finna í andlegri vanlíðan og um þriðjungur þeirra sem leita á heilsugæsluna gera það vegna vanda sem er aðallega sprottinn upp úr tilfinningalegri vanlíðan.

Þetta er eitthvað sem við sem samfélag gætum breytt. Við getum skipulagt kerfin okkar þannig að það sé jafn sjálfsagt að leita sér aðstoðar eða missa daga úr vinnu vegna tilfinningavanda og vegna líkamlegs vanda. Með því að gera það er líklegra að vandinn greinist fyrr og því fyrr finnum við lausn á vandanum öllum til heilla. Það hefur líka þau áhrif að draga úr líkum á því að hindranir fordóma standi í vegi fyrir fólki sem upplifir skömm yfir stöðu sinni. Fyrst og fremst þurfum við að breyta viðhorfum því þau eru grunnurinn undir allt annað.

Annað sem við getum gert er að muna eftir því að horfa á það sem er í lagi. Jákvæð sálfræði góðan daginn :). Hvaða góðu eiginleikum búum við yfir? Hvaða gildi höfum við? Hver er framtíðarsýn okkar? Hvað gerir okkur einstök? Við gætum útbúið heilu greiningarkerfin til þess að greina alla okkar styrkleika og finna upp alls konar flotta jákvæða stimpla. F.50.frábær, F.18.framúrskarandi. Ég var svo lítið hrifin af svona stimplum að ég ætlaði aldrei nokkurn tímann að greina fólk… Vinn svo við það í dag sem er kannski svolítið lýsandi fyrir minn feril :). Ég breytti viðhorfi mínu til greininga og lít nú á þær sem mikilvægt verkfæri til þess að greina styrkleika og þætti sem þarf að vinna með.

DC Facial EmotionsAð lifa geðheilbrigðu lífi er eins og margt annað sem er gott fyrir okkur, það þarf að gera eitthvað og það þarf að æfa það! Við fæddumst við mismunandi aðstæður og með mismunandi skeið í munni. Við höfum þurft að hafa mismikið fyrir lífinu. Þegar við vorum börn báru foreldrar okkar ábyrgð á okkur (eða áttu að gera það amk.) en þegar við verðum fullorðin þá berum við pokann sjálf, enginn getur tekið hann fyrir okkur, stundum bætist alls konar drasl í hann og stundum tekst okkur að létta hann aðeins. Hvorki annað fólk, atvik eða atburðir bera ábyrgð á líðan okkar. Við berum ábyrgð á okkur – punktur. Það þýðir samt ekki að við eigum alltaf að vera hoppandi kát og syngjandi eins og Mary Poppins eða Pollýanna. Stundum er lífið uppfullt af blómum og gleði en stundum er stórsjór. Því er eðlilegt að upplifa bæði jákvæðar og neikvæðar tilfinningar. Leyfa þeim að koma en muna líka að leyfa þeim að fara. Sá sem aldrei upplifir sorg myndi ekki þekkja gleðina þó hann dytti um hana.

Mig langar að hvetja fólk til þess að opna umræðuna um geðheilbrigðismál og allt sem lýtur að því. Það er jafn sjálfsagt að „fara í“ geðræktina eins og að fara í ræktina á hverjum degi. Hver og einn getur mótað sína geðrækt. Hvað lætur þér líða vel? Hvað gerir þú þegar þér líður vel, hverjir eru i kringum þig og hvernig hugsarðu? Til þess að byrja mæli ég með geðorðunum 10 sem koma manni vel af stað!

Til geðhamingju!

gec3b0orc3b0in-10

Og síðast en ekki síst…

Mundu að „Limitations live only in your minds“ eins og þessi frábæri maður sýnir svo vel!

Flokkar: Lífið og tilveran

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Kristbjörg Þórisdóttir
er sálfræðingur með diplóma gráðu í fötlunarfræðum sem hefur mikinn áhuga á heilbrigðum lífsstíl, samfélaginu, umbótum og stjórnmálum
Vertu breytingin sem þú vilt sjá í heiminum (Mahatma Gandhi)

Kristbjörg er varaþingkona Framsóknarflokksins í Suðvesturkjördæmi
RSS straumur: RSS straumur