Föstudagur 22.11.2013 - 00:23 - FB ummæli ()

Skuldaleiðrétting

Ég tel að nú sé loksins að hylla undir skuldaleiðréttingu fyrir íslensk heimili.

Það hefur verið áhugavert að fylgjast með fjölmiðlum undanfarna daga þar sem vaxandi þungi virðist vera að koma fram í umfjöllun gegn skuldaleiðréttingu. Því meiri þungi sem er í umræðunni gegn aðgerðinni því meiri von fæ ég um að þetta sé raunverulega að fara að gerast. Einhverjir eru farnir að skjálfa á beinunum og aðrir farnir að gjamma og glefsa.

Framsóknarflokkurinn hefur allt frá árinu 2009 talað fyrir mikilvægi þess að leiðrétta stökkbreytt lán almennings. Slíkt sé forsenda fyrir því að geta byggt upp heilbrigt efnahagslíf og samfélag í kjölfar hruns íslenska fjármálakerfisins. Það er fátt sem snýr að pólitíkinni sem ég hef persónulega haft eins mikla trú á. Ég hef ekki og mun aldrei skilja hversu þungur róður það hefur verið þessi 5 ár að vinna þessu farveg ekki síst í ljósi þeirra ofboðslegu fjármuna sem hafa verið settir í önnur verkefni jafnvel án mikillar umræðu eins og Vilhjálmur Birgisson verkalýðsforingi Íslands hefur verið ötull við að benda á:

Búið er að afskrifa hjá fyrirtækjum um 3000 milljarða frá hruni!
• Búið er að leggja 427 milljarða á herðar skattgreiðanda til að bjarga fjármálakerfinu!
• Seðlabankinn vildi leggja hundruð milljarða á herðar skattgreiðenda vegna Icesave!
• Lífeyrissjóðirnir töpuðu 500 milljörðum af lífeyrir launafólks!
• Búið er að skerða lífeyrisréttindi á hinum almenna vinnumarkaði um allt að 150 milljarða frá hruni!
• Bankarnir þrír eru búir að skila uppundir 250 milljörðum í hagnað frá hruni, hagnaður sem byggist m.a. á að verið er að uppfæra kröfur heimila og fyrirtækja sem fengust með miklum afslætti úr gömlu bönkunum!
• Verðtryggðarskuldir heimilanna hafa hækkað yfir 400 milljarða frá hruni!

Í ljósi þessa er ekki annað hægt en undrast andstöðuna við að nota 200-300 milljarða í það að leiðrétta skuldir almennings.

Það er ánægjulegt að sjá þá áherslu á skuldaleiðréttingu sem kemur fram í stjórnarsáttmálanum:

Ríkisstjórnin leggur áherslu á:

Heimilin

Heimilin eru undirstaða og drifkraftur þjóðfélagsins.

Ríkisstjórnin mun með markvissum aðgerðum taka á skuldavanda íslenskra heimila sem er til kominn vegna hinnar ófyrirsjáanlegu höfuðstólshækkunar verðtryggðra lána sem leiddi af hruni fjármálakerfisins. Grunnviðmiðið er að ná fram leiðréttingu vegna verðbólguskots áranna 2007–2010 en í því augnamiði má beita bæði beinni niðurfærslu höfuðstóls og skattalegum aðgerðum. Um verður að ræða almenna aðgerð óháð lántökutíma með áherslu á jafnræði. Beita má fjárhæðartakmörkum vegna hæstu lána og setja önnur skilyrði til að tryggja jafnræði í framkvæmd og skilvirkni úrræða.

Í ljósi þess að verðtryggðar skuldir hækkuðu og eignaverð lækkaði, m.a. vegna áhrifa af gjaldþroti fjármálafyrirtækja og áhættusækni þeirra í aðdraganda hrunsins, er rétt að nýta svigrúm, sem að öllum líkindum myndast samhliða uppgjöri þrotabúanna, til að koma til móts við lántakendur og þá sem lögðu sparnað í heimili sín, rétt eins og neyðarlögin tryggðu að eignir þrotabúanna nýttust til að verja peningalegar eignir og endurreisa innlenda bankastarfsemi. Ríkisstjórnin heldur þeim möguleika opnum að stofna sérstakan leiðréttingarsjóð til að ná markmiðum sínum.

Æskilegt er að nýta það tækifæri sem gefst samhliða skuldaleiðréttingu til að breyta sem flestum verðtryggðum lánum í óverðtryggð. Lækkun höfuðstóls nýtist þá til að koma í veg fyrir að mánaðarleg greiðslubyrði aukist verulega, jafnvel þótt lán verði greidd hraðar niður. Þannig má einnig koma í veg fyrir þensluhvetjandi áhrif leiðréttingarinnar og styrkja grundvöll peningastefnunnar, en það er mikilvægur liður í afnámi hafta.

Báðir flokkarnir virðast því vera á ágætis leið með að standa við þennan hluta kosningaloforða sinna sem voru svipuð varðandi þessi mál þrátt fyrir aðeins ólíkar leiðir að markmiðinu. Sjálfstæðismenn töluðu um að taka á skuldavanda heimilanna þannig að ná mætti 20% lægri höfuðstól meðalíbúðaláns á næstu árum með skattafslætti og skattfrjálsum séreignarsparnaði, að tryggja ætti valfrelsi lántakenda þannig að verðtryggingin yrði ekki almenn regla, hvetja ætti til húsnæðissparnaðar og breyta lögum um stimpilgjald, sem hefur þegar komið fram. Framsóknarmenn lögðu hins vegar áherslu á forsendubrestinn sem varð við hrunið og á almenna höfuðstólslækkun til að leiðrétta verðtryggð húsnæðislán. Einnig voru nefndar skattalegar aðgerðir til að lækka höfuðstól lána og mikilvægi þess að afnema verðtryggingu af neytendalánum. Þessu til viðbótar lögðu báðir flokkar áherslu á að taka húsnæðiskerfið til endurskoðunar, meðal annars að lögum yrði breytt þannig að lántaki gæti afsalað sér heimili sínu til lánveitanda án þess að það leiddi til gjaldþrots.

Stjórnarflokkarnir virðast því vera á góðri leið með að vinna þríhöfða þursinn: 1) Taka á skuldamálunum, 2) Afnema verðtrygginguna og 3) Byggja upp nýtt húsnæðiskerfi þar sem fólk hefur raunverulegt val um búsetuform.

Enginn lofaði að þessi barátta yrði auðveld en ég hef trú á að fólk sé að leggja blóð, svita og tár í hana enda veit ég að margir sem fara þar fremst í víglínu er fólk sem er full alvara og gefst ekki upp. Þar má nefna t.d. Vilhjálm Birgisson sem stýrir nefndinni um afnám verðtryggingar, hæstvirtan húsnæðis- og félagsmálaráðherra Eygló Harðardóttur og hæstvirtan forsætisráðherra Sigmund Davíð Gunnlaugsson.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Kristbjörg Þórisdóttir
er sálfræðingur með diplóma gráðu í fötlunarfræðum sem hefur mikinn áhuga á heilbrigðum lífsstíl, samfélaginu, umbótum og stjórnmálum
Vertu breytingin sem þú vilt sjá í heiminum (Mahatma Gandhi)

Kristbjörg er varaþingkona Framsóknarflokksins í Suðvesturkjördæmi
RSS straumur: RSS straumur