Þriðjudagur 25.03.2014 - 21:16 - FB ummæli ()

Örugg höfn

safe shoreHver vegur að heiman er vegurinn heim.

Síðustu helgi fór ég með tveimur frænkum mínum í sund í Álftaneslaug. Önnur er tveggja, hin átján. Það voru lítil ferðalög þeirrar litlu sem vöktu mig til umhugsunar. Börn geta kennt okkur sem fullorðin eru svo margt. Við erum líka ennþá barnið sem við einu sinni vorum innst inni. Um leið og sú stutta var orðin örugg í sundinu fór hún að leggja í litlar ferðir í barnalauginni og skoða sig um. Meðal annars að prófa að setjast á langan orm sem er þarna og henni fannst mjög spennandi. Hún fylgdist alltaf grannt með okkur hvort við værum ekki örugglega enn á sama stað. Hvort örugga höfnin hennar væri ekki þarna ennþá. Reglulega sigldi hún til okkar á milli þess sem hún lagði úr höfn að skoða heiminn. Það var dásamlegt að fylgjast með hvernig öryggi hennar til þess að skoða sig um óx með hverri mínútunni sem leið og finna að hún treysti okkur fyrir að vera til staðar.

Þessi upplifun leiddi mig að hugsuninni um örugga höfn. Hver er örugga höfn okkar sem fullorðin erum? Hvar liggur okkar örugga höfn sem við getum leitað í á milli þess sem við tökumst á við ólgusjó og lygna daga lífsins? Er það góður maki? Er það við sjálf? Eru það vinirnir eða er það kjarnafjölskyldan? Kannski er það afar ólíkt á milli okkar hvar og hver örugga höfnin er. Kannski er örugga höfnin hjá sumum mjög óörugg eins og áfengi eða vímuefni og virkar þá svipað og að ætla að leggja landfestar við sker sem engu heldur og brýtur bara bátinn í næsta ölduróti.

Ég kann vel við samlíkinguna um lífið sem siglingu á sjó og nota það oft í kennslu. Við erum á okkar báti og þurfum að vera skipstjórar hvert á sinni skútu. Við þurfum að vita hvert við erum að fara, hafa áætlun, áttavita og landakort svo við siglum ekki bara í hringi. Lífið er þannig að stundum eru öldurnar himinháar með brotsjó og ofsaveðri en daginn eftir skín sólin á sléttan hafflötinn og sýnir okkur stórkostlega óendanlega vídd sjóndeildarhringsins með öllum litbrigðum og magnþrunginni fegurð. Þeirri sýn missum við af ef við leggjum aldrei úr höfn af ótta við brotsjóinn. Við þurfum að standa hann af okkur til að upplifa mögnuðu stundir lífsins. Til þess að hafa kjark í það er mikilvægt að vita að maður eigi örugga höfn þegar allt er afstaðið. Albert Einstein sagði að skip er ávallt öruggt í höfn en það er ekki það sem það er gert fyrir. Ætli það sé ekki eins með okkur.

Ein af grunnþörfum okkar er að upplifa okkur örugg. Þess vegna er gott að spyrja sig hvað það sé sem geri mann óöruggan og hvað það er sem skapar manni öryggi og leitast svo eftir því að vinna á óörygginu og tryggja öryggi. Það er einnig mikilvægt að tryggja börnum okkar örugga höfn. Þau þurfa að finna að við erum til staðar fyrir þau á sama stað. Þau þurfa að finna að þau geti lagt úr höfn, siglt um og skoðað heiminn með þá vissu að þegar þau þurfi geti þau siglt aftur í sína öruggu höfn. Með öruggri höfn byggist líka upp traust og eitthvað sem við köllum heim. Þetta er mikilvægt hverju barni og þetta er líka mikilvægt í samfélagslegum skilningi. Við þurfum í sameiningu að skapa börnum okkar örugga höfn með öllum tiltækum ráðum. Þannig vaxa þau úr grasi sem einstaklingar með kjark, vilja og þor til að skoða og sigra heiminn. Þannig munu þau áfram bæta það samfélag sem við byggjum.

Hver vegur að heiman er vegurinn heim í örugga höfn.

 

Flokkar: Lífið og tilveran

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Kristbjörg Þórisdóttir
er sálfræðingur með diplóma gráðu í fötlunarfræðum sem hefur mikinn áhuga á heilbrigðum lífsstíl, samfélaginu, umbótum og stjórnmálum
Vertu breytingin sem þú vilt sjá í heiminum (Mahatma Gandhi)

Kristbjörg er varaþingkona Framsóknarflokksins í Suðvesturkjördæmi
RSS straumur: RSS straumur