Miðvikudagur 02.04.2014 - 23:29 - FB ummæli ()

Bætt geðheilbrigði

Ég vil vekja athygli á þessari þingsályktunartillögu sem var lögð fram í gær af 17 þingmönnum fjögurra flokka. Fyrsti flutningsmaður er Karl Garðarsson þingmaður Framsóknar.

Tillagan lýsir jákvæðum vilja til þess að bæta geðheilbrigðisþjónustu fyrir börn, unglinga og fjölskyldur þeirra ásamt verulegri áherslu á forvarnir vegna geðraskana sem við vitum öll að hafa skelfileg áhrif á líf hvers þess sem þjáist, ástvini viðkomandi og samfélagið allt. Áhrif sem oft er hægt að afstýra eða hafa veruleg áhrif á með réttu inngripi í takt við bestu mögulegu þekkingu.

Lengi býr að fyrstu gerð. Það er besta fjárfesting hverrar þjóðar að fjárfesta í börnum og unglingum því þau eru framtíðin. Ótal rannsóknir hafa sýnt fram á mikilvægi þess og fjölmargir fræðimenn bent á þetta mikilvæga atriði. Mikið af þeim erfiðleikum og sársauka sem við berum sem fullorðin á rætur sínar að rekja áratugi aftur í tímann. Að því sögðu er einnig mikilvægt að ráðast í umbætur á geðheilbrigðiskerfi fullorðinna því fullorðnir eru í mörgum tilfellum foreldrar og órjúfanlegur hluti lífs barna sinna ásamt því sem við fullorðna fólkið snúum hjólum atvinnulífsins og berum uppi samfélagið í dag. Því betur sem okkur líður því betur gengur okkur sem heild. Með því að vinna á vanda fullorðinna bætum við stöðu okkar í dag en með því að vinna á vanda barna og unglinga höfum við gríðarleg áhrif á framtíðina.

Það er full ástæða til þess að færa þeim þingmönnum sem að þessari tillögu standa lof í lófa. Til hamingju við öll með þetta góða framfaraskref!

 

Flokkar: Lífið og tilveran · Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Kristbjörg Þórisdóttir
er sálfræðingur með diplóma gráðu í fötlunarfræðum sem hefur mikinn áhuga á heilbrigðum lífsstíl, samfélaginu, umbótum og stjórnmálum
Vertu breytingin sem þú vilt sjá í heiminum (Mahatma Gandhi)

Kristbjörg er varaþingkona Framsóknarflokksins í Suðvesturkjördæmi
RSS straumur: RSS straumur