Fimmtudagur 24.04.2014 - 00:20 - FB ummæli ()

MacBook tölvan sem fuðraði upp

Þann 27. mars s.l. fjárfesti ég í langþráðri MacBook Air tölvu. Ég staðgreiddi 140 þúsund krónur og setti 19 þúsund á VISA kortið. Tölvuna keypti ég eftir vandlega íhugun þar sem gamli jálkurinn minn sem þessi pistill er skrifaður á er gömul Dell tölva. Sú var keypt 2007 og er enn að þjóna mér þrátt fyrir háan aldur og líklega um 18 ferðir á milli Íslands og Danmerkur og fjöldamargar ferðir innanlands. Enn skröltir sú gamla.

Þegar ég ætlaði að kveikja á My precious  þá var nýja tölvan bara frosin og ég náði engu sambandi við hana. Eftir miklar tilraunir tókst loks með herkjum að nánast handsnúa henni í gang. Að þessum byrjunarörðugleikum loknum virkaði hún bara vel. Þar til nokkrum dögum síðar að tæmdist á einni nóttu af rafhlöðunni. Þá fór ég með hana í búðina þar sem ég keypti hana. Þar litu starfsmennirnir aðeins á hana og áttu eitthvað við hana. Í leiðinni keypti ég flakkara og tösku fyrir dýrgripinn að andvirði um 20 þúsund króna í viðbót. Nú hélt ég að þessu væri lokið. Næst tók hún upp á því að skjárinn varð svartur og á hann komu furðulegar línur. Þá hugsaði ég með mér, nei þetta gengur ekki. Nú er þessi tölva búin að vera með meiri uppákomur en sú gamla s.l. 7 ár. Ég fór með tölvuna í búðina og elskulegir starfsmennirnir lofuðu að það yrði litið á hana með hraði og haft samband. Mér var boðin lánstölva á meðan gert yrði við nýju biluðu tölvuna mína sem ég afþakkaði.

Það var svo gert núna rétt fyrir páska. Ég fór enn eina ferðina í búðina. Skilaboðin sem ég fékk núna voru að það væri rétt hjá mér að tölvan hefði verið gölluð (og þetta væri nánast stjarnfræðilega útilokað og ég hefði átt að kaupa mér lottómiða sama dag því ég hefði örugglega unnið, svo ólíklegt átti það að vera að MacBook tölva bili). Hver voru svo viðbrögðin? Jú, mér var afhent óinnpökkuð tölva sem ég átti að taka með mér í venjulegum plastpoka og  tilkynnt að þetta væri nýja tölvan mín! Ég hváði við og sagði að þetta væri ekki ný tölva því hún væri ekki í neinum umbúðum. Þá voru skilaboðin þau að þetta væri stefna hjá Epli.is að við svona tilfelli fengi viðskiptavinurinn svokallaða útskiptitölvu. Þar sem ég væri komin með hleðslutæki og þess háttar aukabúnað átti ég að sætta mig við að fá tölvu sem var í engum umbúðum, með ekkert innsigli og gera mér hana að góðu fyrir þau 160 þúsund sem ég hef greitt þessu fyrirtæki fyrir nýja tölvu. Ég bauðst að sjálfsögðu til þess að skila kassanum og hleðslutækinu. Ég fékk fáleg svör þegar ég spurði hvernig þessi óinnpakkaða tölva hefði komið til landsins. Hvort svona skiptitölvur væru þá fluttar inn sérstaklega hrúgað óinnpökkuðum í gám. Þessari heimsókn lauk með engri tölvu.

Í dag fór ég svo aftur þar sem þá átti ég að fá að tala við einhvern sem réði meiru. Þar fékk ég sömu skilaboð og sama tilboðið um „nýju“ tölvuna í engum umbúðum og plastpoka. Ég afþakkaði enn á ný og spurði hvort ég gæti fengið endurgreitt. Þegar ég fékk ekki skýr svör við því sagðist ég myndi leita réttar míns.

Ef ég væri að reka þetta fyrirtæki þá hefði ég beðið viðkomandi viðskiptavin innilega afsökunar á þessum óþægindum og boðið jafnvel aðeins betri tölvu eða aukahluti í sárabætur. Það vita allir sem koma að rekstri að ánægður viðskiptavinur sem mætir sanngirni ber slíkt víða en slæmt orðspor er erfitt að laga.

Eftir þessa óskemmtilegu reynslu er ég mörg spurningamerki. Ég er búin að reiða fram 180 þúsund krónur til þessa fyrirtækis og það eina sem ég hef í höndunum er óopnaður flakkari, taska með engri tölvu, hleðslutæki og tómur kassi. Það er sem fína drauma MacBook Air tölvan hafi bara fuðrað upp því hún virðist ekki ætla að skila sér heim þrátt fyrir að ég sé búin að greiða hana að fullu.

Hver er minn réttur í svona máli? Get ég fengið endurgreitt að fullu? Hver er staðan varðandi skilarétt þegar engin leið var fyrir mig að vita að tölvan væri gölluð fyrr en hún er sett í gang og því búið að opna umbúðirnar. Á ég sem neytandi að sætta mig við það að kaupa glænýja vöru, greiða hana að fullu og vera svo boðið tölva í plastpoka sem lítur út eins og notuð án nokkurs innsiglis eða umbúða í stað þeirrar sem var gölluð? Fyrir mig sem neytanda er nákvæmlega engin trygging fyrir því að þetta sé ekki bara nákvæmlega sama tölvan eða tölva sem einhver annar viðskiptavinur skilaði.

Eru þetta eðlileg vinnubrögð og er þetta eitthvað sem þú lesandi góður værir sáttur með?

 

Flokkar: Lífið og tilveran

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Kristbjörg Þórisdóttir
er sálfræðingur með diplóma gráðu í fötlunarfræðum sem hefur mikinn áhuga á heilbrigðum lífsstíl, samfélaginu, umbótum og stjórnmálum
Vertu breytingin sem þú vilt sjá í heiminum (Mahatma Gandhi)

Kristbjörg er varaþingkona Framsóknarflokksins í Suðvesturkjördæmi
RSS straumur: RSS straumur