Þriðjudagur 12.08.2014 - 23:29 - FB ummæli ()

Augnablik

Sólsetur

Ertu stundum svo upptekin/nn af framtíðinni að þú missir af núinu? Ætli flestir kannist ekki við það?

Hvorki tíminn né lífið láta að sér hæða. Þau líða áfram eins og á sem rennur að ósi. Allir heimsins peningar geta ekki keypt tímann eða stjórnað honum. Augnablikin líða eitt af öðru og fyrr en varir eru augnablikin orðin að klukkustund, klukkustundirnar að dögum, dagarnir að vikum, vikurnar að mánuðum, mánuðirnir að árum og árin að áratugum. Þegar við erum börn finnst okkur tíminn svo lengi að líða en sem fullorðin þá verðum við sífellt meðvitaðri um hvað hann er af skornum skammti bæði í kapphlaupi okkar við hann dags daglega en líka þegar við áttum okkur á að einn daginn tæmist af tímaglasinu okkar. Einn daginn eru augnablikin orðin að áratugum og tíminn búinn.

Það er ekkert sjálfsagt í þessu lífi. Ekki einu sinni morgundagurinn. Þess vegna er svo mikilvægt að njóta augnabliksins því það kemur aldrei aftur. Sjáir þú falllegt sólsetur skaltu stökkva út úr bílnum og njóta þess því fimm mínútum síðar er það farið. Sértu í kringum fólk sem þú kannt að meta skaltu njóta samvista við það og vera á staðnum því nokkrum vikum síðar er það kannski ekki lengur til staðar. Framtíðin er eitthvað sem við getum teiknað upp í huganum en aldrei gert ráð fyrir. Ef þú ert svo upptekin/nn að byggja upp skýjaborgir framtíðarinnar að þú missir af núinu verður framtíðin eins og sandur sem rennur úr greipum þér því núið leiðir af sér framtíðina.

Besti tíminn til þess að njóta er í dag á þessu augnabliki. Því betur sem þú ferð með og nýtur þessa augnabliks því betur ferðu með klukkustundina, daginn, vikuna, mánuðinn, árið, áratuginn og líf þitt.

Fangaðu augnablikið og njóttu lífsins.

Flokkar: Lífið og tilveran

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Kristbjörg Þórisdóttir
er sálfræðingur með diplóma gráðu í fötlunarfræðum sem hefur mikinn áhuga á heilbrigðum lífsstíl, samfélaginu, umbótum og stjórnmálum
Vertu breytingin sem þú vilt sjá í heiminum (Mahatma Gandhi)

Kristbjörg er varaþingkona Framsóknarflokksins í Suðvesturkjördæmi
RSS straumur: RSS straumur