Föstudagur 10.10.2014 - 21:56 - FB ummæli ()

Alþjóða geðheilbrigðisdagurinn

Í dag er Alþjóða geðheilbrigðisdagurinn og vil ég óska okkur öllum til hamingju með hann. Markmiðið með deginum er að vekja athygli á geðheilbrigðismálum, fræða almenning um geðrækt og geðsjúkdóma og sporna gegn fordómum.

Ég tel að við getum gert margt betur til þess að byggja upp gott geðheilbrigðiskerfi. Við þurfum að leggja mikla áherslu á að tryggja öllum börnum sem best atlæti frá fyrsta degi því lengi býr að fyrstu gerð. Foreldrar sem eru að glíma við veikindi eins og þunglyndi þurfa sérstakan stuðning því fái þeir hann ekki er hætta á að barn fái ekki nauðsynlega örvun og glími sjálft við erfiðleika síðar meir. Ég tel að FMB teymið (Foreldrar-Meðganga-Barn) á Landspítalanum sé að vinna frábært starf til að hjálpa foreldrum og börnum sem eru í áhættu á að þróa með sér vanda. Við getum staðið okkur miklu betur í því að efla geðheilbrigðisþjónustuna þannig að börn á öllum aldri (leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla) fái strax viðeigandi þjónustu. Það er óásættanlegt að þau þurfi að bíða mánuðum, jafnvel árum saman áður en viðeigandi þjónusta fæst. Ár í lífi barns er sennilega eins og áratugur hjá okkur sem erum fullorðin. Svo mikið gerist hjá hverju barni á ári í þroska og því lengur sem barn er án þjónustu því alvarlegri verður vandinn. Við þurfum líka að efla okkur í að skima, finna þau sem eru í vanda og veita strax viðeigandi þjónustu. Þjónustan þarf að vera byggð upp með þrepaskiptum hætti þannig að sem minnst inngrip sé veitt sem fyrst og sem næst umhverfi barnsins. Að sama skapi þarf að stórefla aðgengi fullorðinna að bestu mögulegu meðferð. Hver einstaklingur sem við missum vegna veikinda er einum einstaklingi of mikið. Alvarlegasta afleiðing ómeðhöndlaðs geðræns vanda er sjálfsvíg. Aðrar alvarlegar afleiðingar eru tapaðir vinnudagar, glatað skattfé og kostnaður vegna bóta og heilbrigðis- og velferðarþjónustu. Ekki er hægt að mæla í krónum þann sársauka sem fólk og aðstandendur glíma við í tengslum við alvarlegan geðrænan vanda og afleiðingar hans. Við eigum að fylgja leiðbeiningum um bestu mögulegu meðferð og setja okkur það markmið að draga úr geðlyfjanotkun okkar niður að meðaltali OECD landanna innan næstu 15 ára. Núna vermum við toppsætið í geðlyfjanotkun sem er ekkert til að státa sig af. Það gerum við með því að auka aðgengi að sálfræðimeðferð eins og leiðbeiningar mæla með ásamt öðrum umbótum á geðheilbrigðiskerfinu og samfélaginu öllu. Hér er verk að vinna en jákvæð teikn eru á lofti. 

Hin hliðin snýr að því sem við hvert og eitt okkar getum gert til að bæta eigin geðheilbrigði og hvernig við getum stuðlað að geðheilbrigðu samfélagi. Geðheilbrigði er rétt eins og líkamlegt heilbrigði eitthvað sem þarf að vinna að. Það kemur ekkert endilega að sjálfu sér þó við séum misvel í stakk búin. Heilbrigði okkar bæði andlegt og líkamlegt byggir á því að við hlúum að nokkrum mismunandi þáttum í einu og finnum jafnvægi, rétt eins og hjól í úravirki. Þessir þættir eru m.a.: Svefn, hreyfing, næring, félagsleg tengsl og hugsanir. Við þurfum að skoða hvernig við hugsum og hvaða áhrif það hefur á líðan okkar og hvort hugsanaskekkjur séu að valda okkur vanlíðan. Við þurfum að skoða hvernig við bregðumst við í ákveðnum aðstæðum og hvort það sé hjálplegt. Einnig þurfum við að hlúa að lykilþáttum eins og að sofa nóg og reglulega, hreyfa okkur reglulega, næra okkur vel og síðast en ekki síst vera í góðum tengslum við annað fólk. Þessir þættir eiga alltaf við. Hvert og eitt okkar er svo sérfræðingur í sér og veit hvernig best er að ná jafnvægi og njóta þess sem lífið hefur upp á að bjóða. Hver einasti einstaklingur er mikilvægur, einstakur og dýrmætur fyrir samfélagið allt.

balance-elephant

 

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Kristbjörg Þórisdóttir
er sálfræðingur með diplóma gráðu í fötlunarfræðum sem hefur mikinn áhuga á heilbrigðum lífsstíl, samfélaginu, umbótum og stjórnmálum
Vertu breytingin sem þú vilt sjá í heiminum (Mahatma Gandhi)

Kristbjörg er varaþingkona Framsóknarflokksins í Suðvesturkjördæmi
RSS straumur: RSS straumur