Mánudagur 27.10.2014 - 21:11 - FB ummæli ()

Hamingjusama hóran

Ég er nýkomin heim úr ferð til Amsterdam. Þar sem ég hef lengi haft sterkar skoðanir á klámiðnaðinum, vændi og annarri misbeitingu á líkömum fólks tók ég meðvitaða ákvörðun um það að fara í Rauða hverfið til þess að finna á eigin skinni hvernig ég myndi upplifa þennan furðulega afkima mannlegrar tilveru. Ég get ekki lýst í smáatriðum því sem ég upplifði en ég ætla að reyna og get sagt að skoðun mín styrktist í sessi og ég verð ekki söm á eftir.

Það sem ég sá þarna voru alls konar líkamar kvenna og eins klæðskiptings til sölu á bakvið gler upplýstir í rauðu ljósi. Konurnar stóðu eins og gínur í fatabúð íklæddar engu nema mjög efnislitlum kynæsandi nærfötum og reyndu að mynda augnsamband við karlmenn sem gengu framhjá. Sumar sneru sér við og sýndu rassinn en aðrar hristu brjóstin. Reglulega fór einhver inn til þeirra. Þær voru mjög misjafnlega á sig komnar og sumar mjög ungar. Sumar báru sýnileg merki dapurlegs hlutskiptis síns. Hin ósýnilegu ör var ekki eins auðvelt að sjá.

Ég fór ásamt fleira fólki einnig á kynlífssýningu. Sýningin samanstóð af fimm atriðum. Í tveimur þeirra fóru fram samfarir og aðrar kynlífsathafnir konu og karls en í hinum þremur var kona á sviðinu að framkvæma ýmis atriði sem m.a. fóru þannig fram að þær fengu karlmann af áhorfendabekknum upp á svið til að taka þátt í atriði. Atriðin voru vélræn og í mínum huga var ekkert erótískt við þau. Eitt atriðið stóð sérstaklega upp úr minni ógeðfelldu upplifun. Fyrst kom kona í þröngum topp og pilsi og skömmu seinna kom maður klæddur eins og sjómaður. Það sást strax að eitthvað mikið var að konunni. Andlit hennar var alveg svipbrigðalaust, augun voru líflaus og hún virkaði dáin í eigin líkama. Lifandi dáin. Atriðið gekk út á ógeðslegar misbeitingar hans á konunni þar sem hann tróð m.a. öllum fingrum beggja handa upp í kynfæri hennar og lét hana snúast hringinn í kringum sig eins og hund í miðjum munnmökum. Þess á milli flengdi hann hana og sýndi þeim konum sem voru að horfa á einnig viðbjóðslega hegðun með því að reka út úr sér tunguna og fleira. Ég hef ýmislegt séð í lífinu og þekki það úr sálfræðinni og mínu starfi hvernig hugur fólks getur aftengt sig líkamanum í yfirþyrmandi áfallaaðstæðum (hugrof eða dissociation) þar sem það á enga undankomuleið t.d. við nauðgun. Kannski var það skýringin eða að hún hafi verið undir áhrifum mjög sterkra eiturlyfja (t.d. heróíns). Það sem ég og fleiri upplifði var að hún var eins og hún væri ekki á lífi og engan veginn þarna að eigin vilja. Ég hef hugsað mikið um þessa konu og þessa reynslu síðustu daga og á aldrei eftir að gleyma líflausum augum hennar. Sagt er að augun séu spegill sálarinnar. Í þessu tilfelli virtist konan svo illa farin að þegar maður reyndi að horfa í augu hennar speglaðist svo mikil eymd, þjáning og sársauki að það var ekkert eftir. Augun voru eins og svarthol. Afleiðing alls þess versta sem fyrirfinnst í ómannlegu samfélagi. Mannleg hörmung í sinni verstu mynd. Þegar við komum út af sýningunni var komið langt yfir miðnætti og þá voru nánast bara karlmenn eftir í hverfinu og þeir voru af öllum gerðum feitir, ljótir, venjulegir, fjölskyldufeður og myndarlegir menn í jakkafötum en flestir voru þeir á aldursbilinu 30-60.

Ég er að lýsa minni reynslu, ekki því hvernig ég held að þessi starfsemi sé alls staðar eða allir upplifi hana. Ég veit ekkert um það og veit að ég mun ekki breyta þessum heimi ofbeldis og misbeitingar með einum pistli en dropinn holar steininn. Ég geri mér líka grein fyrir því að með því að borga inn á þessa sýningu þá er ég sjálf þátttakandi í því að viðhalda þessari viðbjóðslegu starfsemi. Það er ákvörðun sem ég var og er meðvituð um en nú veit ég meira um við hvað er að etja.

Það er margt sem ég sit eftir með eftir þessa reynslu. Þakklæti til þeirra sem hafa barist gegn þessum iðnaði m.a. hér heima og hvöt til þess að læra meira um og beita mér gegn þessum hryllingi svo lengi sem ég lifi að því marki sem mér er í mannlegu valdi fært. Í þeim hóp sem ég var í barst í tal að opna þyrfti ráðgjafarmiðstöð í miðju hverfinu. Fyrst tók ég þetta ekki alvarlega en þegar ég fór að hugsa það þá kom upp í hugann, hvers vegna ekki? Fólk sem er í þeim sporum að selja aðgang að líkama sínum þarf aðstoð en ekki síður þeir sem taka þá ákvörðun að kaupa sér aðgang og misbjóða líkama og sál annarrar manneskju og greiða fyrir það. Ég veit ekki hvort einhver slík miðstöð sé þarna í kring?

Líkami okkar er sú gjöf sem við fengum við fæðingu og hver einasti líkami er jafn verðmætur. Það á ekki að vera hægt að selja aðgang að líkama sínum heldur einungis að njóta þess sem hann hefur upp á að bjóða einn eða með öðrum með fullu samþykki beggja aðila og gagnkvæmri ást og trausti. Við þurfum að leggja áherslu á þetta í uppeldi barnanna okkar að líkaminn sé eitthvað sem maður einn á og enginn geti komið nálægt nema með fullu samþykki okkar og gagnkvæmni.

Ég velti því líka fyrir mér þegar ég keyrði heim af flugvellinum hversu lánsöm ég sjálf væri. Ég gæti eins og þessi kona hafa fæðst í ömurlegar aðstæður sem hefðu endað á slíkri bjargbrún að ég væri uppi á sviði, dáin sál í líkama sem væri verið að misbeita fyrir framan fullt af ókunnugu fólki sem borgaði sig inn til að sjá það. Þessar aðstæður eiga ekki að geta skapast í siðuðu samfélagi. Hvað hefur einstaklingur gengið í gegnum sem er kominn á þennan stað? Manneskja sem er búin að missa tengsl við eðlileg mörk gagnvart sjálfri sér og líkama sínum. Hver er saga slíkrar konu? Hvernig er tilvera hennar? Hversu margar þeirra voru fórnarlömb mansals? Vissulega eru einhverjar jákvæðar hliðar við að umbera þennan iðnað en mjög margar neikvæðar og m.a hreinlega sú að væri þetta ekki í boði þá færi ekki forvitið fólk eins og ég á slíka sýningu og tæki þannig þátt í að viðhalda þessu ofbeldi.

Það á enginn að þurfa að lifa sínu einstaka lífi svona og sameiginlega berum við ábyrgð á því að reyna að styðja við hvert annað sem fæddumst á þessari jörð við að fá tækifæri til að njóta þess sem við eigum sem er líkami okkar og líf.

Ég hef því miður ekki töfralausnina en mikið vildi ég óska þess að ég hefði hana.

Hamingjusama hóran er ekki til, var það aldrei og verður aldrei en konan sem hefur verið rænd sál sinni með líflaus augun stendur í gluggum Rauða hverfisins, á götunni eða í heimahúsi böðuð í rauðu ljósi eða er misbeitt á meðan einhver getur eða vill borga fyrir það.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Kristbjörg Þórisdóttir
er sálfræðingur með diplóma gráðu í fötlunarfræðum sem hefur mikinn áhuga á heilbrigðum lífsstíl, samfélaginu, umbótum og stjórnmálum
Vertu breytingin sem þú vilt sjá í heiminum (Mahatma Gandhi)

Kristbjörg er varaþingkona Framsóknarflokksins í Suðvesturkjördæmi
RSS straumur: RSS straumur