Þriðjudagur 04.11.2014 - 00:19 - FB ummæli ()

Hverju mótmælir þú?

Í dag hélt fjöldi fólks á Austurvöll að mótmæla. Samkvæmt fréttaflutningi af viðburðinum virðist fólk hafa mætt í mjög fjölbreytilegum tilgangi. Sumir mótmæltu slökum kjörum, aðrir mótmæltu framkomu tiltekinna kjörinna fulltrúa, margir stöðunni í heilbrigðis- eða menntamálum og svona mætti telja áfram. Ég mætti ekki þrátt fyrir að hafa oft mætt á mótmæli.

Mótmæli

Ég hef minni trú en áður á að slíkt hjálpi okkur og tel tunnuslátt skila takmörkuðum árangri. Ég hef upplifað það að hugsjónafólk hefur komið saman og unnið mikið að umbótum á samfélaginu sem aldrei náðu í gegn. Mín upplifun var að reiðin og getuleysi til samstöðu hafi skolað burt góðu lausnunum. Ég myndi vilja sjá nýja nálgun. Í fyrsta lagi myndi ég vilja að við snérum þessu alveg á hvolf og myndum byrja á því að mæla með því sem er verið að gera vel og fólk er almennt ánægt með alveg óháð því hver það er sem er að gera eitthvað sem ánægja er með (stjórn, stjórnarandstaða, aðrir). Að því loknu myndi ég vilja sjá fólk forgangsraða allri þeirri hugarorku sem það býr yfir (og það er ekkert smáræði hjá jafn magnaðri þjóð) í það að vinna sameiginlega að raunhæfum lausnum á þeim krefjandi verkefnum sem við stöndum frammi fyrir og reyna að koma þeim í farveg.

Enginn getur allt en allir geta eitthvað. Ef við vinnum saman þá getum við í fyrsta skipti almennilega farið að vinda hruninu ofan af okkur. Við erum enn í sárum og sundurtætt á sumum sviðum og þurfum sameiginlega að græða sárin. Við þurfum líka að vita hvert við ætlum, hvað er í lagi og hvað ekki. Er það t.d. eðlilegt ef rétt er að launahækkanir séu komnar á fleygiferð á ný í bönkunum? Hvernig getum við haldið áfram inn í bjartari framtíð í stað þess að spóla í hjólförum hrunsins?

Hefur þú lesandi góður t.d. vel útfærða lausn á þeim vanda sem heilbrigðisráðherra stendur frammi fyrir með stöðu lækna og heilbrigðisþjónustunnar í landinu? Hvað myndir þú gera ef þú færir í hans skó á morgun? Ef þú hefur góða hugmynd, hvernig getur þú komið henni í farveg? Ert þú tilbúin/nn að láta eitthvað eftir af þínum kjörum til þess að hækka laun lækna? Getum við komist að einhverri þjóðarsátt um hvernig við getum stutt við grunnstoðirnar okkar undir því mikla álagi sem þær eru undir og í þeim þrönga stakki sem okkur er sniðinn núna? Getum við náð ákveðinni framþróun og nýjum gæðum í því öngstræti sem við erum í og þurfum að hugsa upp á nýtt? Hvernig getum við náð markmiðinu að á Íslandi geti allir haft það gott?

Ég fagna aukinni lýðræðisvitund almennings og tel að við eigum mikið inni á því sviði sem getur bætt samfélag okkar og hvernig því er stjórnað. Því má ekki gleyma að við fólkið höfum valdið, alltaf. Handhafar þess fara með það á milli kosninga og eru fulltrúar okkar. Það þýðir líka að við berum ábyrgð á okkar persónulegu og samfélagslegu velferð, alltaf. Það þýðir ekki að benda bara á ríkisstjórnina eða einhvern annan og telja ábyrgan fyrir öllu sem ómögulegt er því reynslan hefur kennt okkur að óánægjan sprettur upp aftur og aftur þó skipt sé um stjórnir. Það hlýtur því að vera eitthvað í kerfinu en ekki einstaka flokkum eða manneskjum sem þarf að lagfæra. Óánægjan byrjar einnig og endar hjá okkur sjálfum og við berum ábyrgð á því hvernig við hugsum, hvað við gerum og hvernig okkur líður. Viljum við breytingar þurfum við að leita allra leiða að raunhæfum leiðum í stað þess að benda á aðra. Ég held að það sé mjög mikilvægt að við drögum fram allt það jákvæða sem við getum því það er samfélagi okkar ekki til framdráttar að ala sífellt á vonleysi, svartsýni og neikvæðni en vissulega að vera raunsæ.

Þannig að spurningin sem ég velti fyrir mér er þessi. Hverju mótmælir þú en ekki síður og enn frekar hverju meðmælir þú og hvað leggur þú til?

Flokkar: Lífið og tilveran · Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Kristbjörg Þórisdóttir
er sálfræðingur með diplóma gráðu í fötlunarfræðum sem hefur mikinn áhuga á heilbrigðum lífsstíl, samfélaginu, umbótum og stjórnmálum
Vertu breytingin sem þú vilt sjá í heiminum (Mahatma Gandhi)

Kristbjörg er varaþingkona Framsóknarflokksins í Suðvesturkjördæmi
RSS straumur: RSS straumur