Fimmtudagur 05.02.2015 - 23:53 - FB ummæli ()

Ferðaþjónusta fatlaðs fólks

Ferðaþjónusta fatlaðs fólks og eðlilegt líf

Mikil umræða hefur skapast í samfélaginu um ferðaþjónustu fatlaðs fólks. Þjónustan er lykill margra að virkri þátttöku í samfélaginu. Mér þótti það alltaf stórmerkilegt þegar ég var mest að velta þessum málum fyrir mér í pólitíkinni á sama tíma og ég starfaði einnig að málefnum fatlaðs fólks hvað fólk var oft illa upplýst um þennan málaflokk og þarfirnar. Dæmi um það var að 12 ferðir til einkaerinda (sem var sá fjöldi sem var í boði hér í Mosfellsbæ á þeim tíma) ættu að geta uppfyllt skilyrði laganna um „eðlilegt líf til jafns við aðra“. Það þýddi að 6 sinnum í mánuði gat einstaklingur sem nýtti sér þjónustuna farið af heimili sínu í annað erindi en til skóla/vinnu eða læknis. Þannig að ef viðkomandi ætlaði að versla inn einu sinni í viku þá voru 8 ferðir búnar og tvö skipti eftir til þess að gera eitthvað annað. Einnig flokkaðist það undir eðlilegt líf að þurfa að panta ferðina sína fyrir kl. 16 daginn á undan og skipuleggja t.d. laugardagsdjammið fyrir kl. 16 á föstudegi eða að yfirgefa tónleikana þegar þeir stóðu hæst og drífa sig upp í sérmerkta bílinn með merki fatlaðra á hliðinni. Viljinn var fyrir hendi hjá flestum stjórnmálamönnum og embættismönnum en mikil vanþekking. Sumir áttuðu sig t.d. ekki á þessu með 12 ferðirnar hvað það var fjarri eðlilegu lífi og töldu slíkt bera vott um vel ásættanlega þjónustu. Það sem er líka alvarlegt varðandi lög um málefni fatlaðs fólks er að það er hreinlega alls ekki alltaf farið eftir þeim og engin refsiákvæði fyrir að gera það ekki.

Sem betur fer hefur orðið breyting á ferðaþjónustunni og mikill vilji til þess að bæta þjónustuna í takt við markmið laganna. Markmið hafa verið sett um að þjónustan sé sveigjanlegri og meiri þannig að fólk geti m.a. pantað ferð með stuttum fyrirvara og farið fleiri ferðir. Við þessar breytingar og yfirfærslu hefur þjónustan lent í stórkostlegum hrakförum svo ekki sé meira sagt.

Nýtt tækifæri

Í þeim ömurleika sem margir hafa þurft að lenda í felast tækifæri til þess að gera þjónustuna loksins virkilega góða. Það eru nokkur atriði sem ég velti fyrir mér í þessu samhengi og litast þau m.a. af reynslu minni af því að starfa í þessum málaflokki til nokkuð margra ára.

Það er mikilvægt að skilgreina mjög nákvæmlega þarfir þjónustunotendanna, skipuleggja þjónustuna í samræmi við það og horfa ætíð til þess möguleika hvort viðkomandi gæti mögulega nýtt hefðbundnari samgöngur t.d. strætisvagna eða leigubíla.

Ákveðinn hluti af þjónustunni getur kannski verið mjög sambærileg þjónustu strætó, ópersónuleg og rútíneruð. Ferðir sem viðkomandi pantar út af alls kyns erindum og þeir sem þurfa stuðning séu þá með stuðningsaðila með sér í þeim tilvikum.

Fastar ferðir

Hinn hluti þjónustunnar eru fastar ferðir. Farsæld fastra ferða þjónustunotenda með flóknar þarfir byggir að miklu leyti á mjög góðri skipulagningu, persónulegum tengslum og trausti. Þetta segi ég af reynslu þar sem ég var svo lánsöm að starfa fyrir fatlað fólk i tæplega 10 ár, lengst af í búsetu sem þurfti mjög þéttan stuðning í sínu daglega lífi. Þetta voru einstaklingar m.a. með þroskahömlun, einhverfu og geðsjúkdóma. Fyrir þennan hóp þarf að bjóða upp á þjónustu sem byggir á því að helst sami bílstjóri sæki þau á hverjum degi. Bílstjóri sem þekkir viðkomandi og er fær um að veita þann sveigjanleika sem þarf í samvinnu við viðkomandi og þjónustunotandinn getur treyst. Í þessum bílum ætti einnig í mörgum tilfellum að vera stuðningsaðili um borð sem getur veitt aðstoð þegar á þarf að halda og tryggt þjónustunotendum sem jafnvel geta ekki tjáð sig ákveðið öryggi. Fyrir hluta af þessum hópi þýðir ekki að bjóða upp á þá stífni að ef þú ert ekki sestur og tilbúinn löngu áður en ferðin kemur þá missir þú af henni. Stundum hefur manni fundist kröfurnar sem settar eru á fólk sem nýtir þjónustuna alveg óraunhæfar t.d. um hraða á að koma sér um borð og orðið vitni að því að bíll hafi mætt á undan áætlun en farið síðan þar sem viðkomandi stóð ekki tilbúinn í tröppunum.  Þessi pressa hentar líka kvíðnu fólki mjög illa sem þarf oft alúð til að ná að koma sér í bílinn.

Stebbi bílstjóri

Ég sá það vel á sínum tíma hvernig einstaka bílstjóri eins og Stebbi bílstjóri sem margir þekkja var órjúfanlegur hlekkur í lífi margra aðila að því að láta daginn ganga vel og farsællega upp. Fyrir þennan hóp nægir ekki að horfa bara á tölur eða hausa án andlits. Það þarf að skipuleggja þjónustuna á miklu persónulegri nótum. Til þess að svo megi verða þarf m.a. að tryggja mjög hæfa einstaklinga til starfans sem hafa mikla reynslu og þjálfun. Það þarf fullt af „Stebbum bílstjórum“ til þess að þjónustan gangi vel og smurt fyrir sig. Menn eins og Stebbi þekkja öll þessi smáatriði sem þarf að hafa í huga fyrir hvern einstakling persónulega til að hlutirnir gangi upp. Þessi persónulega þekking hefur orðið til á mörgum árum. Þeir þekkja líka stuðningsnet viðkomandi, aðstandendur, starfsfólk og aðra þegar á þarf að halda.

Þetta minnir auðvitað á þá mikilvægu staðreynd að í allri þjónustu er það mannauðurinn sem skiptir öllu máli. Miklu frekar en kerfin! Hann þarf að vera í lagi og vera stöðugur. Þetta eru kerfi fyrir fólk sem er haldið uppi af fólki. Fólk fyrir fólk.

Ekki bjóða öðrum það sem maður vill ekki fyrir sig eða sína

Ég hvet þá aðila sem sitja í neyðarstjórninni að taka nokkra rúnta sjálfir í bílunum til þess að geta betur sett sig í spor þeirra sem nota þjónustuna. Maður skyldi aldrei bjóða einhverjum öðrum það sem maður getur ekki hugsað sér eða sínum. Ég hef mikla trú á Stefáni Eiríkssyni og því fólki sem nú hefur brett upp ermar í málinu og vona að þessi sorgarsaga fái fljótt betri endi. Samborgarar okkar sem þurfa á ferðaþjónustu fatlaðra að halda í sínu daglega lífi eiga það skilið.

 

Flokkar: Lífið og tilveran · Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Kristbjörg Þórisdóttir
er sálfræðingur með diplóma gráðu í fötlunarfræðum sem hefur mikinn áhuga á heilbrigðum lífsstíl, samfélaginu, umbótum og stjórnmálum
Vertu breytingin sem þú vilt sjá í heiminum (Mahatma Gandhi)

Kristbjörg er varaþingkona Framsóknarflokksins í Suðvesturkjördæmi
RSS straumur: RSS straumur