Sunnudagur 13.12.2015 - 14:47 - FB ummæli ()

Þegar stressið stal jólunum

Ég kom seint heim á Þorláksmessukvöld og það sem fyrir augu bar er eitthvað sem ég mun aldrei gleyma og mun hafa áhrif á mig um ókomna tíð. Þarna lá litli frændi minn sofnaður við óskreytt jólatréð.

Ég ætla að segja ykkur aðeins aðdraganda þessa augnabliks sem mun aldrei líða mér úr minni.

Þegar stressið stal jólunum Ég var þessi týpa sem langaði að gera allt fyrir alla og sérstaklega í kringum jól. Ég átti erfitt með að segja nei og var stundum búin að lofa langt upp í allar ermar og skálmar. Ég var á síðustu stundu með allan jólaundirbúning og ætlaði mér allt of mikið. Ég var í krefjandi starfi og hlaðin ýmsum öðrum verkefnum. Þessi Þorláksmessa var því ekki ólík öðrum sem á undan höfðu gengið. Ég var á fullu allan daginn í því að redda hinu og þessu sem var auðvitað alveg nauðsynlegt til þess að jólin gætu komið. Ég eyddi löngum tíma í búðum að versla síðustu hlutina sem auðvitað var upplagt að versla á Þorláksmessu, enginn tími betri til þess. Eitt af því sem mér þótti mikilvægt að ná var gólfmotta sem ég hafði lofað að kíkja á til að setja í forstofuna. Hver þarf ekki svoleiðis til að jólin geti gengið í garð?! Ég man einnig eftir mér fastri í umferðaröngþveiti þennan dag því auðvitað reiknaði ég með að ég kæmist á milli staða á sama hraða og um hábjarta umferðarlausa sumarnótt. Ég leit við hjá vinkonu minni sem var í rólegheitum með jólaboð til að koma pakka til hennar og auðvitað stoppaði ég heillengi þar. Ég hafði nú einu sinni allan tímann í heiminum, þess fullviss að tíminn og jólin biðu eftir mér. Eftir langan og strangan dag skrölti ég heim og þá greip mig skelfing. Eitt af loforðunum sem ég hafði ekki efnt þennan dag var að skreyta jólatréð með litla frænda mínum. Ég hafði svikið loforðið sem var í raun og veru það eina sem skipti máli á Þorláksmessu. Ég ætla ekki að lýsa því hvað fór í gegnum hugann á mér en eins og áður sagði gleymi ég þessu augnabliki seint.

Augnablikið varð mér þó afar dýrmætt því það veitti mér eitt besta lærdómstækifæri sem ég hef fengið í tengslum við jólaundirbúning og jólastress. Því miður þekkjum við flest dæmi um það þegar stressið stelur frá okkur jólaandanum. Kvíði, streita, depurð, pirringur, vonbrigði og aðrar neikvæðar tilfinningar eru því miður fastagestir í aðdraganda jólanna á mörgum heimilum. Ég vona að dæmisagan mín geti hjálpað fleirum en mér að draga úr áhrifum þessara vágesta um hátíðina og bjóða frekar rósemi, gleði, tilhlökkun, ánægju og hamingju í bæinn í staðinn. Við höfum bein áhrif á líðan okkar sem birtist í tilfinningum og líkamlegum einkennum með því að vera meðvituð um hugsanir okkar og hegðun. Hér að neðan eru nokkur ráð sem mig langar að deila með ykkur sem gætu verið gagnleg þeim sem eru í áhættu á að verða jólastressinu að bráð.

  • Jólaundirbúningur krefst skipulags, yfirvegunar og forgangsröðunar. Gerðu lista yfir það sem þig langar að gera fyrir jólin. Merktu fimm atriði með áherslupenna sem skipta þig mestu máli. Strikaðu strax yfir það sem þú veist innst inni að er ekki raunhæft að gera núna og má bíða betri tíma. Ég skal lofa þér því að jólaandinn mætir þó þú náir ekki að skipta um höldur á eldhússkápnum.
  • Þakklæti er móðir allra dyggða. Skrifaðu niður eitt atriði á dag sem þú ert þakklát(ur) fyrir.
    Settu þér og öðrum mörk. Oft ætlum við að gera ótalmargt á þessum fáu dögum og aðrir krefjast eins mikils af tíma okkar.
  • Hlúðu að þér. Reglulegur og nægur svefn, dagleg, létt hreyfing, góð næring og slökun er undirstaða alls annars.
  • Veltu því fyrir þér hvað þú myndir gera ef þetta væri síðasta skiptið sem þú upplifir aðventu og jólahátíð. Hvað skiptir mestu máli?
  • Veltu því fyrir þér hvaða minningar þú átt frá þínum æskujólum sem þér þykja dýrmætastar. Hvað varstu að gera, með hverjum varstu og hvað varstu að hugsa?

Ég er enn týpan sem langar til þess að gera allt fyrir jólin. Hafa allt skrúbbað í hólf og gólf, minnast allra sem skipta mig máli með einhverjum hætti, gefa flottustu gjafirnar, elda besta matinn, baka margar sortir, standa mig fullkomlega í vinnu og ná að gera allt sem setið hefur á hakanum fram að þessu. Ég lærði það hins vegar af biturri reynslu þessa Þorláksmessu að ofurmanneskjan er ekkert annað en teiknimyndapersóna. Það mun alltaf eitthvað láta undan. Það er þitt að velja hvað skiptir mestu máli og sleppa tökunum á því sem er síður mikilvægt rétt fyrir jól. Í mínum huga skiptir það mestu máli að eignast dýrmætar minningar með fólkinu sem stendur manni næst. Til þess að það sé hægt er gott að skipuleggja sig vel og forgangsraða. Að lokum er ágætt að minna sig á að við lok dagsins eru það litlu hlutirnir sem verða stóru minningarnar.

Þessi pistill birtist fyrst inn á vefsíðunni Fagurkerar.is  sem gestafærsla en ég ákvað að deila honum hér líka.

Flokkar: Lífið og tilveran

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Kristbjörg Þórisdóttir
er sálfræðingur með diplóma gráðu í fötlunarfræðum sem hefur mikinn áhuga á heilbrigðum lífsstíl, samfélaginu, umbótum og stjórnmálum
Vertu breytingin sem þú vilt sjá í heiminum (Mahatma Gandhi)

Kristbjörg er varaþingkona Framsóknarflokksins í Suðvesturkjördæmi
RSS straumur: RSS straumur