Fimmtudagur 27.10.2016 - 22:56 - FB ummæli ()

Framsókn ætlar að niðurgreiða þjónustu sálfræðinga

Heilbrigðismálin eru stóra málið fyrir þessar kosningar. Íslenska þjóðin vill heilbrigðiskerfi í fremstu röð og að það sé aðgengilegt öllum. Eitt þeirra atriða sem þarf að efla innan heilbrigðisþjónustunnar er geðheilbrigðisþjónusta. Því miður hefur ákveðin brotalöm verið á þeirri þjónustu lengi þrátt fyrir að margt hafi vissulega verið vel gert og umbætur átt sér stað. Eitt af því sem ráðast þarf í strax til að bæta geðheilbrigðiskerfi landsmanna er að auka aðgengi að þjónustu sálfræðinga.

Þunglyndi og kvíði er heilbrigðisvandi sem allt of margir þjást af í hljóði án þess að fá viðeigandi meðferð. Rannsóknir hafa sýnt að þriðjungur fullorðinna þjáist af að minnsta kosti einni geðröskun á hverju ári og helmingur einhvern tímann á ævinni. Rannsóknir, þar meðtalin rannsókn sem undirrituð vann á heilsugæslustöðvum hafa sýnt að þriðjungur þeirra sem leita sér aðstoðar á heilsugæslu þjáist af tilfinningavanda. Bent hefur verið á það að árið 2030 verði þunglyndi líklega mesti orsakavaldur örorku  í heiminum.

Um árabil hefur þjónusta geðlækna verið niðurgreidd af ríkinu en fólk þurft að greiða fyrir sálfræðiþjónustu úr eigin vasa. Þrátt fyrir að Lög um réttindi sjúklinga kveði á um að veita skuli bestu mögulegu meðferð. Hugræn atferlismeðferð er sú meðferð sem Leiðbeiningar um bestu mögulegu meðferð mæla með við kvíða og þunglyndi.

Framsóknarflokkurinn hefur nú þegar sýnt mikið frumkvæði að því að vinna að bættri geðheilbrigðisþjónustu. Karl Garðarson þingmaður og oddviti Framsóknar í Reykjavíkurkjördæmi norður var fyrsti flutningsmaður þingsályktunartillögu þar sem ályktað var að bæta geðheilbrigðisþjónustu barna, unglinga og fjölskyldna þeirra. Sú tillaga var síðar felld inn í nýja geðheilbrigðisáætlun sem lögð var fram sem stjórnartillaga af heilbrigðisráðherra. Ríkisstjórn Framsóknar og Sjálfstæðisflokks hefur einnig markað þá stefnu að fjölga sálfræðingum á heilsugæslustöðum í anda verkefnis sem unnið hefur verið í Bretlandi og ber nafnið IAPT (Improving Access to Psychological Therapies).

En betur má ef duga skal. Mikið verk er óunnið í því að byggja upp betri geðheilbrigðisþjónustu til framtíðar. Það felur meðal annars í sér að auka aðgengi almennings að sálfræðiþjónustu á heilsugæslustöðvum, í framhaldsskólum, setja hámarksbiðtíma eftir greiningu sálfræðinga og síðast en ekki síst að niðurgreiða þjónustu sálfræðinga þannig að fólk eigi raunverulegt aðgengi að bestu mögulegu meðferð við kvíða, þunglyndi og fleiri geðröskunum.

Á nýafstöðnu flokksþingi ályktuðum við framsóknarfólk um að við viljum niðurgreiða þjónustu sálfræðinga. Við höfum sýnt vilja til verksins og við viljum gjarnan halda áfram að byggja upp öflugri geðheilbrigðisþjónustu í anda þess besta sem gerist erlendis og í takt við það sem almenningur hefur kallað eftir um áraraðir.

Undirrituð skipar 6. sætið á lista Framsóknarflokksins í Suðvesturkjördæmi.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Kristbjörg Þórisdóttir
er sálfræðingur með diplóma gráðu í fötlunarfræðum sem hefur mikinn áhuga á heilbrigðum lífsstíl, samfélaginu, umbótum og stjórnmálum
Vertu breytingin sem þú vilt sjá í heiminum (Mahatma Gandhi)

Kristbjörg er varaþingkona Framsóknarflokksins í Suðvesturkjördæmi
RSS straumur: RSS straumur