Mánudagur 16.10.2017 - 17:09 - FB ummæli ()

Bætt geðheilbrigðisþjónusta fyrir börn og unglinga

Nýlegar rannsóknir hafa bent til þess að tilfinningavandi eins og kvíði og þunglyndi hafi aukist verulega hjá börnum og unglingum síðastliðin ár og 10% barna hér á landi taki geðlyf. Ómeðhöndlaður tilfinningavandi getur hamlað eðlilegum tilfinninga- og félagsþroska barna ásamt því að auka líkur á neyslu, brottfalli úr skóla, erfiðleikum í fjölskyldu og öðrum vanda. Ekki er ljóst hver orsök þessarar aukningar er en bent hefur verið á að aukin notkun barna og unglinga á samfélagsmiðlum geti ýtt undir vanlíðan. Einnig hefur verið bent á að samfélagsgerð okkar þar sem fjölskyldan nær ekki að verja nægilega miklum tíma saman geti haft áhrif. Löng bið og takmarkað aðgengi hefur verið að bestu mögulegu meðferð. Í skýrslu Ríkisendurskoðunar frá 2016 var meðal annars bent á að þessi langa bið gangi gegn lögbundnum skyldum ríkisins, stefndi langtímahagsmunum samfélagsins og velferð borgaranna í tvísýnu og um kerfislægan veikleika væri að ræða sem yrði áfram til staðar nema ráðist yrði að rót hans. Ef ekki er tekið markvisst á geðheilsuvanda barna og unglinga aukast líkur á þungbærum og langvarandi afleiðingum svo sem alvarlegum geðrænum vanda á fullorðinsárum og örorku. Meðal annars var hvatt til þess að sett yrðu skýr gæðaviðmið um ásættanlegan biðtíma.

Hvað er til ráða?

Mikilvægt er að bregðast við þessu því við viljum börnum okkar hið besta. Börn og unglingar eru framtíðin og með því að leysa úr vanda þeirra er verið að leysa úr framtíðarvanda. Við framsóknarfólk viljum lengja fæðingarorlof foreldra í tólf mánuði því lengi býr að fyrstu gerð. Við viljum líka stytta vinnuvikuna því þannig aukum við möguleika fjölskyldna á samveru. Við viljum taka þátt í endurskipulagningu þess kerfis sem lýtur að geðheilbrigðisþjónustu við börn og unglinga þar sem meðal annars er aukið aðgengi að gagnreyndri sálfræðiþjónstu.

Aðgerðaáætlun um bætta geðheilbrigðisþjónustu og aðgengi að sálfræðimeðferð

Við framsóknarfólk, undir forystu Karls Garðarsonar þáverandi þingmanns, lögðum fram þingsályktunartillögu í apríl 2014 um aðgerðaáætlun um bætta geðheilbrigðisþjónustu og aðgengi að sálfræðimeðferð fyrir börn, unglinga og fjölskyldur þeirra. Sú tillaga var felld inn í þingsályktunartillögu um stefnu og aðgerðaáætlun í geðheilbrigðismálum til fjögurra ára. Í þeirri tillögu er meðal annars lagt til að allir nemendur 9. bekkjar séu skimaðir fyrir kvíða og þunglyndi og þeim sem þess þurfa verði boðið upp á gagnreynt námskeið sem byggir á aðferðum hugrænnar atferlismeðferðar en það er sú meðferð sem á að vera fyrsta meðferð við kvíða og vægu til miðlungs þunglyndi.

Við viljum halda áfram á þessari braut og biðjum um stuðning ykkar í komandi kosningum.

X-B

Kristbjörg Þórisdóttir, skipar 2. sæti á lista Framsóknarmanna í SV-kjördæmi

Willum Þór Þórsson, skipar 1. sæti á lista Framsóknarmanna í SV-kjördæmi

(greinin birtist á dögunum í Kópavogspóstinum)

Flokkar: Lífið og tilveran · Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Kristbjörg Þórisdóttir
er sálfræðingur með diplóma gráðu í fötlunarfræðum sem hefur mikinn áhuga á heilbrigðum lífsstíl, samfélaginu, umbótum og stjórnmálum
Vertu breytingin sem þú vilt sjá í heiminum (Mahatma Gandhi)

Kristbjörg er varaþingkona Framsóknarflokksins í Suðvesturkjördæmi
RSS straumur: RSS straumur