Sunnudagur 22.10.2017 - 22:23 - FB ummæli ()

Ræður þitt atkvæði úrslitum?

Árið 2007 skipaði ég 4. sætið fyrir Framsókn í Suðvesturkjördæmi. Þá munaði 11 atkvæðum á því að við næðum síðari manninum inn í kjördæminu og ég yrði varaþingmaður. Ef við hefðum fengið tólf atkvæði til viðbótar (af 54.584 kjósendum) þá hefðum við náð þessu. Þarna lærði ég að hvert einasta atkvæði skiptir máli! Næstkomandi laugardag eru 69.498 kjósendur á kjörskrá í Suðvesturkjördæmi. Hvert einasta atkvæði skiptir máli! Atkvæðið þitt gæti verið atkvæðið sem kemur mér inn á þing.

Sumir hafa sagt við mig í kosningabaráttunni að þeir myndu vilja kjósa mig sem persónu. Eins og þetta horfir við mér þá er fólk sem greiðir okkur atkvæði að kjósa mig sem persónu því þegar valið er á milli flokka er í raun verið að velja á milli einstaklinga.

Atkvæði greitt Framsókn hvar sem er á landinu getur einnig verið atkvæðið sem kemur mér inn á þing því nái ég ekki kjöri sem kjördæmakjörinn þingmaður þá gæti ég komist inn sem uppbótarþingmaður og þar telja öll atkvæði sem flokkurinn fær á landsvísu.

Hvers vegna ættir þú að kjósa mig? Ég lofa því að komist ég á þing mun ég beina öllum mínum kröftum að því að koma mínum baráttumálum í gegn. Mín helstu baráttumál eru eftirfarandi:

  • Uppbygging geðheilbrigðiskerfisins með áherslu á aðgengi almennings að bestu mögulegu meðferð. Meðal annars niðurgreiða þjónustu sálfræðinga, ráða sálfræðinga inn í alla framhaldsskóla, ljúka við ráðningu sálfræðinga inni á allar heilsugæslustöðvar ásamt því að fjölga fleiri stéttum þar, tryggja geðheilbrigðisþjónustu á landsbyggðinni meðal annars þjónustu sálfræðinga og geðlækna. Einnig þarf að fylgja geðheilbrigðisáætlun þingsins eftir, meðal annars að öll börn á landinu í 9. bekk séu skimuð fyrir þunglyndi og kvíða og boðið bestu mögulegu meðferð. Ráðast þarf sérstaklega í þjóðarátak gegn sjálfsvígum. Ég hef barist fyrir þessum málum síðastliðin tíu ár og náð ákveðnum árangri en komist ég inn á þing get ég haft enn meiri áhrif!
  • Stórátak gegn ofbeldi og samþykkja heildstæða framkvæmdaáætlun gegn ofbeldi í samfélaginu. Þar þarf meðal annars að leggja áherslu á að þolendur hafi aðgang að bestu mögulegu meðferð á þeim tímapunkti sem þeir þurfa þess bæði vegna eldri og nýrri áfalla. Þetta þarf að tryggja í öllum heilbrigðisumdæmum. Einnig þarf að efla lögreglu vegna rannsóknar þessara mála og flýta ferli þeirra í dómskerfinu. Halda áfram nýju verklagi í heimilisofbeldismálum. Efla þarf meðferð fyrir gerendur, auka forvarnir og fræðslu. Lögfesta þarf rétt til neyðarathvarfs fyrir þolendur ofbeldis í nánum samböndum.
  • Betri stjórnarskrá. Styðja áframhaldandi vinnu við þann samfélagssáttmála sem stjórnarskráin er og byggja á tillögum stjórnlagaráðs og vinnu stjórnarskrárnefndar. Þar þarf að leggja sérstaka áherslu á auðlindaákvæðið, meiri möguleika á beinu lýðræði og ekki verði opnað á framsal fullveldis, jafna vægi atkvæða, skýra hlutverk forseta Íslands og persónukjör.
  • Áhersla á forvarnir á öllum sviðum samfélagsins. Meðal annars þarf að tryggja lágt matvöruverð á hollri matvöru og leggja frekar álögur á óhollari matvæli. Skoða hvort hægt sé að veita landsmönnum árlega hreyfistyrk til þess að hvetja til aukinnar hreyfingar af öllu tagi.
  • Efling lögreglunnar sem þarf að geta brugðist við breyttri samfélagsgerð með gríðarlegri fjölgun ferðamanna, sístækkandi hópi sem leitar hér alþjóðlegrar verndar og aukinni ógn m.a. vegna skipulagðrar glæpastarfsemi.
  • Íslendingar þurfa að vera ábyrgir íbúar heimsins. Draga þarf úr notkun á plasti. Skoða þarf svissnesku leiðina við endurvinnslu þar sem gjaldfrjálst er að endurvinna en skattur er lagður á sorppoka óendurvinnanlegs sorps. Hvetja þarf fólk til nýtni, draga úr allri sóun og hvetja til skynsamlegrar nýtingu efnislegra gæða sem tekin eru úr sameiginlegum auðlindum heimsins (til dæmis að endurvinna og henda ekki hlutum sem er í lagi með).

Ég mun leggja áherslu á þessi atriði og mörg önnur á Alþingi.

X-B.

Ég skipa 2. sætið fyrir Framsókn í Suðvesturkjördæmi.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Kristbjörg Þórisdóttir
er sálfræðingur með diplóma gráðu í fötlunarfræðum sem hefur mikinn áhuga á heilbrigðum lífsstíl, samfélaginu, umbótum og stjórnmálum
Vertu breytingin sem þú vilt sjá í heiminum (Mahatma Gandhi)

Kristbjörg er varaþingkona Framsóknarflokksins í Suðvesturkjördæmi
RSS straumur: RSS straumur