Föstudagur 27.10.2017 - 16:56 - FB ummæli ()

Fyrstu 1000 dagarnir

Eitt það skemmtilegasta, áhugaverðasta og gagnlegasta sem frambjóðendur gera í kosningabaráttu er að fá að fara í alls kyns heimsóknir til fólks, fyrirtækja og stofnana.

Í gær fór ég til fundar við starfsfólk Miðstöðvar foreldra barna (MFB) og Öyrkjabandalagið.

Miðstöð foreldra og barna var stofnuð 2008. Hvatinn að stofnun MFB var vöntun á úrræðum fyrir foreldra í barneignarferli sem glíma við geðheilsuvanda. Fyrir utan teymi sem starfar á Landspítalanum (FMB) er þetta eina sérhæfða geðheilsuúrræðið fyrir foreldra og börn yngri en eins árs. Miðstöðin er ekki rekin í hagnaðarskyni (non-profit). Rannsóknir sýna að allt að 20% fjölskyldna í barneignarferli þurfa sérhæfða geðheilbrigðisþjónustu. Þjónusta MFB er í boði á landsvísu og er skjólstæðingum að kostnaðarlausu. Samkvæmt stöðluðum árangursmælingum er marktækur munur á líðan foreldra eftir meðferð hjá miðstöðinni. Fjöldi fjölskyldna sem nýtur þjónustu hefur vaxið um 30-40% á milli ára. Á þessu ári stefnir í að miðstöðin sinni 230 fjölskyldum.

1 króna í útgjöld á móti 30 krónum í sparnað

Á fjárlögum síðasta árs fékk MFB 20 milljónir króna en miðað við fjárlög 2018 fær miðstöðin enga fjárveitingu. Það vekur vissulega upp spurningar að jafn mikilvæg þjónusta hafi ekki haldist inni á fjárlögum og þarf að leiðrétta. Samkvæmt rannsókn London School of Economics (LSE) frá 2014 og tölur frá Bretlandi sem eru heimfærðar á Ísland þyrfti að verja 230 milljónum í málaflokkinn hér. Miðað við skýrsluna má áætla að fyrir hvern árgang sem ekki fær viðeigandi mefðerð muni kostnaður íslensks samfélags aukast um 7 milljarða á ári í velferðar- og menntakerfinu. Þar af eru 70% vegna barnsins en 30% vegna móðurinnar. Fyrir hverja 1 krónu sem varið er í málaflokkinn sparast 30 krónur!

Forvarnir hefjast í móðurkviði

Niðurstöður rannsókna eins og ACE rannsóknarinnar (The ACE study) sýna að áföll og streita í æsku auka verulega líkur á áhættuhegðun barna og heilsubrest á fullorðinsárum. Forvarnir hefjast strax í móðurkviði. Ef foreldrar glíma við geðrænan vanda er aukin áhætta á að börn þeirra muni gera það sömuleiðis. Því er ákaflega mikilvægt að veita þessum börnum þjónustu til að draga úr þeirri áhættu. Þannig má koma í veg fyrir að vandi flytjist á milli kynslóða.

Það er áherslumál mitt að tryggja geðheilbrigðisþjónustu fólks fyrir allt æviskeiðið. Þegar litið er til forgangsröðunar þá hljótum við að forgangsraða yngstu skjólstæðingunum fremst því þannig leysum við framtíðarvanda. Hér er vefsvæði þar sem þessar áherslur eru kynntar. Ungabörn geta ekki beðið.

Ég skipa 2. sætið fyrir Framsókn í Suðvesturkjördæmi og mun beita mér fyrir þessum áherslum nái ég kjöri.

 

Flokkar: Lífið og tilveran · Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Kristbjörg Þórisdóttir
er sálfræðingur með diplóma gráðu í fötlunarfræðum sem hefur mikinn áhuga á heilbrigðum lífsstíl, samfélaginu, umbótum og stjórnmálum
Vertu breytingin sem þú vilt sjá í heiminum (Mahatma Gandhi)

Kristbjörg er varaþingkona Framsóknarflokksins í Suðvesturkjördæmi
RSS straumur: RSS straumur