Fimmtudagur 30.11.2017 - 23:51 - FB ummæli ()

Kosningaloforð og stjórnarsáttmáli

Ég óska nýrri ríkisstjórn Framsóknar, Sjálfstæðisflokks og Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs undir forsæti Katrínar Jakobsdóttur velfarnaðar. Ég hef lengi séð Katrínu Jakobsdóttur fyrir mér sem forsætisráðherra og gleðst yfir að upplifa það raungerast. Ég bind vonir við að hér sé komin fram ríkisstjórn sem geti setið næstu árin og unnið markvisst að uppbyggingu sterkara samfélags sem skapar okkur öllum betri lífsgæði. Ég get ekki sagt að ég sé fullkomlega sátt við allt sem er í sáttmálanum eða allt ráðherraliðið en ég er mjög sátt við heildarniðurstöðuna. Mér hefði þótt fara vel á því að konur hefðu verið í meirihluta ráðherraliðsins þar sem þeim fækkaði verulega á þingi. Það hefði verið gott mótvægi því við viljum auðvitað að löggjafar- og framkvæmdavaldið endurspegli samsetningu þjóðarinnar. Ég er sérstaklega ánægð með nokkur atriði í sáttmálanum sem ég hef persónulega barist fyrir og má þar nefna til dæmis:

  • Geðheilbrigðisáætlun til 2020 verður hrint í framkvæmd og hún fjármögnuð.
  • Ríkisstjórnin hyggst setja fram aðgerðaáætlun um úrbætur í meðferð kynferðisbrota.
  • Öflug löggæsla er ein af forsendum þess að öryggi borgaranna sé tryggt. Drög að nýrri löggæsluáætlun fyrir Ísland liggja fyrir þar sem tekið er á öryggisstigi, þjónustustigi, mannaflaþörf og fjárveitingum. Ljúka þarf gerð þessarar áætlunar og vinna í samræmi við hana.
  • Styrkja sérstaklega stöðu þeirra sem höllum fæti standa. Gerð verður úttekt á kjörum tekjulægstu hópanna í íslensku samfélagi, tillögur til úrbóta settar fram og þeim fylgt eftir. Sérstaklega þarf að huga að stöðu barna sem búa við fátækt en þau eru einn af viðkvæmustu hópum samfélagsins.
  • Lenging fæðingarorlofs og hækkun orlofsgreiðslna í fæðingarorlofi.
  • Frítekjumark atvinnutekna aldraðra verður hækkað í hundrað þúsund krónur um næstu áramót
  • Ljúka þarf lögfestingu notendastýrðrar persónulegrar aðstoðar (NPA) og breytingu á lögum um málefni fatlaðs fólks. Sáttmáli Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks verður innleiddur.
  • Ríkisstjórnin vill halda áfram heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar í þverpólitísku samstarfi með aðkomu þjóðarinnar og nýta meðal annars til þess aðferðir almenningssamráðs.
  • …yfirfara reglur um hagsmunaskráningu bæði ráðherra og þingmanna með hliðsjón af ábendingum og alþjóðlegum viðmiðum.
  • Ráðist verður í langtímaátak gegn einnota plasti með sérstakri áherslu á fyrirbyggjandi aðgerðir og hreinsun plasts úr umhverfi lands og stranda.

Hér að neðan má sjá nokkur af mínum helstu baráttumálum sem ég kynnti fyrir kosningar:

  • Uppbygging geðheilbrigðiskerfisins með áherslu á aðgengi almennings að bestu mögulegu meðferð. Meðal annars þjóðarátak gegn sjálfsvígum.
  • Stórátak gegn ofbeldi og samþykkja heildstæða framkvæmdaáætlun gegn ofbeldi í samfélaginu.
  • Lenging fæðingarorlofs og stytting vinnuvikunnar.
  • Lögfesting NPA.
  • Betri stjórnarskrá.
  • Áhersla á forvarnir á öllum sviðum samfélagsins.
  • Efling lögreglunnar.
  • Draga úr notkun á plasti.

Ég er bara nokkuð sátt með að flest af því sem ég barðist fyrir er í einhverjum mæli í nýjum stjórnarsáttmála. Ég hefði viljað sjá kveðið fastar að orði varðandi ákveðin mál eins og t.d. afnám verðtryggingar en tel þó betra að lofa minna og efna meira og tel sums staðar sé farið of varlega eins og varðandi breytingar á heilbrigðiskerfinu þar sem sagt er að það eigi að: „skoða þá þætti sem eru ekki hluti af því, t.d. ferða- og uppihaldskostnað, tannlækningar og sálfræðiþjónustu“.

Ég get sagt út frá minni þekkingu að það þarf ekkert að skoða sálfræðiþjónustuna lengur því það er búið að gera það í áratugi, skrifa um það ótal greinar, halda um það óteljandi ræður og öll rök mæla með því að bjóða almenningi upp á bestu mögulegu meðferð við geðrænum vanda. Samkvæmt klínískum leiðbeiningum á að bjóða fólki sálfræðimeðferð áður en hugað er að lyfjameðferð. Almenningur hefur lengi kallað eftir þessu, þetta er hluti af uppbyggingu geðheilbrigðiskerfisins og nú er tími framkvæmda. Ég mun að sjálfsögðu berjast fyrir þessu áfram eins og ég hef gert síðastliðin 10 ár og get lofað því að ég hætti ekki fyrr en þetta mál siglir í höfn. Að mínu mati á það að gerast á þessu kjörtímabili.

Nú hafa mörg kosningaloforðin skilað sér inn í stjórnarsáttmála. Næsta skref er að aðgerðabinda öll þau verkefni sem hann inniheldur, útfæra þau og leggja þau fram sem verkefnalista. Reglulega ætti að gera stöðumat á þessum verkefnum, kynna fyrir kjósendum og sjá hvernig stjórnarsáttmálinn raungerist sem umbætur á íslensku samfélagi. Þannig stýrum við þjóðarskútunni á farsælan og árangursríkan hátt næstu fjögur árin í samstarfi um sterkara samfélag.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Kristbjörg Þórisdóttir
er sálfræðingur með diplóma gráðu í fötlunarfræðum sem hefur mikinn áhuga á heilbrigðum lífsstíl, samfélaginu, umbótum og stjórnmálum
Vertu breytingin sem þú vilt sjá í heiminum (Mahatma Gandhi)

Kristbjörg er varaþingkona Framsóknarflokksins í Suðvesturkjördæmi
RSS straumur: RSS straumur