Miðvikudagur 25.10.2017 - 23:43 - FB ummæli ()

Kjóstu betra geðheilbrigðiskerfi

Öll þekkjum við geðrænan vanda á eigin skinni eða í okkar nánasta umhverfi. Ómeðhöndlaður geðrænn vandi hefur mikil áhrif á þann sem þjáist, fjölskyldu viðkomandi og samfélagið allt. Lífsgæði skerðast, vinnuframleiðni minnkar, aukin þörf skapast fyrir þjónustu félags- og heilbrigðiskerfis, tekjur tapast vegna glataðra skatta og útgjöld aukast vegna bóta úr almannatryggingarkerfinu. Rannsóknir hafa sýnt að þriðjungur fólks þjáist af þessum vanda á hverju ári og helmingur einhvern tímann á lífsleiðinni. Rannsókn sem ég vann 2011 var í takt við aðrar rannsóknir og sýndi að þriðjungur þeirra sem koma á heilsugæslu koma vegna geðræns vanda. Því er spáð að þunglyndi verði helsta ástæða örorku 2030. Tæplega fjórðungur þeirra sem eru á örorku eru það vegna geðraskana. Ungum karlmönnum á örorku hefur fjölgað síðustu ár og sjálfsvíg er algengasta dánarorsök ungra karlmanna 18-24 ára hér á landi. Í dag er aðgengi að bestu mögulegu meðferð allt of takmarkað og þjónustan sem fólk fær er of lítil, of langt í burtu og kemur of seint.

Við viljum aðgengilegt, skilvirkt og öflugt geðheilbrigðiskerfi

Ég legg áherslu á umbætur í geðheilbrigðiskefinu. Efla þarf forvarnir og fræðslu um geðheilbrigði á öllum sviðum. Tryggja þarf aðgengi almennings að bestu mögulegu meðferð við geðrænum vanda eins og kvíða og þunglyndi í nærumhverfi. Meðferðin þarf að standa til boða og vera niðurgreidd af ríkinu í heilsugæslunni, í skólakerfinu, í öldrunarþjónustu, á sjúkrahúsum, hjá félagsþjónustu og hjá sjálfstætt starfandi sálfræðingum. Huga þarf sérstaklega að því að tryggja þessa þjónustu á landsbyggðinni. Því fyrr sem vandi greinist og því fyrr sem fólk fær viðeigandi aðstoð því minni þjónustu þarf. Ráðast þarf í þjóðarátak gegn sjálfsvígum og vinna gegn ofbeldi og þöggun þess.

Geðheilbrigðismál eru mitt hjartans mál

Ég hef barist fyrir bættu aðgengi að sálfræðiþjónustu og umbótum á geðheilbrigðiskerfinu um árabil. Fjárfesta þarf sérstaklega í geðheilbrigðiskefinu. Sú fjárfesting mun strax skila sér tilbaka. Ég mun leggja áherslu á þessi mál á Alþingi Íslendinga. Til þess að ég geti gert það þarf ég stuðning þinn þann 28. október næstkomandi.

Kristbjörg Þórisdóttir skipar 2. sæti á lista Framsóknarmanna í SV-kjördæmi

(greinin birtist fyrst í Fjarðapóstinum í dag 25.10.2017)

Flokkar: Lífið og tilveran · Stjórnmál og samfélag

Miðvikudagur 25.10.2017 - 00:38 - FB ummæli ()

Málefni fatlaðs fólks

Það verður seint sagt að málefni fatlaðs fólks séu fyrirferðarmikil í þessari kosningabaráttu. Þessi málefni ættu samt sem áður að vera grundvallarmálefni því þau snúast um mannréttindi samborgara okkar. Málefni fatlaðs fólks voru ástæða þess að ég fór fyrst að skipta mér af pólitík fyrir tíu árum síðan. Þá fannst mér of mikil gjá á milli þess sem ég upplifði sem starfsmaður á sambýli fatlaðs fólks og þess sem stjórnmálamenn töluðu um. Svo sat ég ráðstefnur þar sem lausnirnar komu fram en þá voru stjórnmálamennirnir farnir.

Fundur með Átaki

Fundur með Átaki

Ég vil hrósa Átaki, félagi fólks með þroskahömlun sem bauð fulltrúum stjórnmálaflokkanna í kosningasjónvarp í Hannesarholti og streymdu því beint á síðu sinni.

 

 

 

 

 

 

 

Mikilvægustu verkefnin sem við stöndum frammi fyrir á komandi kjörtímabili eru að mínu mati þessi:

 1. Lögfesta samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks
 2. Lögfesta Notendastýrða persónulega aðstoð (NPA)

Í þessum málaflokki eins og svo mörgum öðrum er mikilvægt fyrir stjórnmálamenn að minna sig á að við höfum tvö eyru en einn munn. Okkar hlutverk er að hlusta á þá sem best þekkja til á sviðinu og vinna út frá því ásamt niðurstöðum rannsókna. Þarna á ég við notendur, fjölskyldur þeirra, fagfólk, rannsakendur og aðra sem láta sig málin varða. Ekkert um okkur án okkar!

Það er grundvallaratriði að vinna út frá hugmyndafræðinni um sjálfstætt og eðlilegt líf til jafns við aðra og mannréttindi. Við eigum ekki að bjóða öðrum upp á það sem við gætum ekki hugsað okkur sjálf eða vildum ekki fyrir okkar nánasta fólk. Við þurfum líka að efla möguleika fatlaðs fólks á því að eiga sömu sjálfsögðu tækifæri og allir aðrir í samfélaginu. Þar á ég við möguleikann á að eiga sitt eigið heimili, taka þátt í námi eða starfi við hæfi, lifa fjölskyldulífi, sinna tómstundum og öðru sem gefur lífinu gildi. Það eiga allir rétt á því að skapa sér hamingju og nýta sitt tækifæri hér á jörðinni til fulls. Það er hlutverk okkar sem stjórnmálamanna að tryggja það að samfélagslegu kerfin okkar lagi sig að ólíkum þörfum. Undanfarið hefur verið bent á ýmis dæmi um ósveigjanleika kerfisins þar sem þörfum fólks gæti verið mætt betur og á hagkvæmari hátt ef kerfið væri tilbúnara að laga sig að einstaklingsmiðaðri þörf hvers og eins. Einnig er aðgengi ábótavant allt of víða. Vefsíður eru of oft ekki byggðar upp með þarfir fatlaðs fólks í huga og þröskuldar eru víða í eiginlegri og óeiginlegri merkingu. Úr þessu getum við bætt ef viljinn er fyrir hendi.

Ég vil taka þátt í þeirri vinnu í góðu samstarfi við alla hagsmunaaðila og óska því eftir atkvæði þínu til að ég nái kjöri á laugardag.

X-B

Höfundur skipar 2. sæti fyrir Framsókn í Suðvesturkjördæmi.

 

 

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Mánudagur 23.10.2017 - 10:35 - FB ummæli ()

#Églíka

Stór hópur kvenna hefur stigið fram undanfarna daga undir myllumerkinu #MeToo og greint frá áreitni eða kynferðisofbeldi. Þessi bylting varð í kjölfar þess að frægar leikkonur greindu frá kynferðislegri áreitni og ofbeldi af hálfu frægs kvikmyndaframleiðanda. Hér á landi féll ríkisstjórnin í kjölfar þess að faðir forsætisráðherra skrifaði undir meðmæli dæmds kynferðisbrotamanns vegna umsóknar um uppreista æru. Það er ljóst að ofbeldismál hafa sjaldan verið fyrirferðarmeiri í samfélaginu.

Framsókn gegn ofbeldi

Eygló Harðardóttir, þáverandi félagsmálaráðherra, lét sig þessi mál miklu varða. Í hennar tíð var unnin framkvæmdaáætlun gegn ofbeldi, opnuð miðstöð fyrir þolendur ofbeldis (Bjarkarhlíð) og ráðið í nýjar stöður sálfræðinga við stærstu sjúkrahúsin til þess að veita þolendum ofbeldis meðferð. Barnahús var eflt til að sinna fötluðum börnum sem hafa orðið fyrir ofbeldi sem og börnum sem hafa orðið fyrir alvarlegu líkamlegu ofbeldi. Einnig voru settir auknir fjármunir til félagasamtaka sem sinna þessum erfiðu og viðkvæmu verkefnum.

Framúrskarandi verkefni

Nýlega hlaut samstarfsverkefni lögreglunnar og sveitarfélaganna þar sem ráðist var í átak gegn heimilisofbeldi viðurkenningu hjá Efnahags- og framfarastofnun Evrópu (OECD) sem framúrskarandi nýsköpunarverkefni. Mikilvægt er að efla slík verkefni.

Næstu skref

Áfram þarf að vinna af fullum krafti í þessum málum. Við í Framsókn leggjum áherslu á þessi atriði:

 • Vinna að forvörnum og fræðslu til að fyrirbyggja ofbeldi. Byrja strax í grunnskóla að fræða um viðeigandi hegðun.
 • Skima fyrir ofbeldi og þjálfa starfsfólk í að spyrja út í ofbeldi og tilkynna til barnaverndarnefnda.
 • Veita gerendum viðeigandi meðferð og þjónustu og efla sálfræðiþjónustu innan Fangelsismálastofnunar.
 • Auka mönnun við sálfræðiþjónustu Landspítalans þar sem veitt er sérhæfð meðferð við áfallastreituröskun vegna nýrra og eldri áfalla.
 • Tryggja að þjónustan standi til boða í öllum heilbrigðisumdæmum og veita þolendum styrk sem þurfa að ferðast til að hljóta meðferð.
 • Efla önnur félagasamtök og aðila sem koma að úrræðum fyrir þolendur ofbeldis og niðurgreiða þjónustu sálfræðinga.
 • Veita auknu fjármagni til lögreglu vegna rannsóknar ofbeldismála og efla dómskerfið til að flýta megi málum þar.
 • Lögfesta rétt til neyðarathvarfs fyrir þolendur ofbeldis í nánum samböndum og mansals í takt við nýleg norsk lög.
 • Huga sérstaklega að því að vinna gegn ofbeldi gagnvart fötluðu fólki.

Við viljum vinna að þessum málum á næsta kjörtímabili. Til þess þurfum við þinn stuðning. X-B!

Höfundur er sálfræðingur, skipar 2. sætið fyrir Framsókn í Suðvesturkjördæmi.

(greinin birtist fyrst á Vísi.is 19.10.2017).

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Sunnudagur 22.10.2017 - 22:23 - FB ummæli ()

Ræður þitt atkvæði úrslitum?

Árið 2007 skipaði ég 4. sætið fyrir Framsókn í Suðvesturkjördæmi. Þá munaði 11 atkvæðum á því að við næðum síðari manninum inn í kjördæminu og ég yrði varaþingmaður. Ef við hefðum fengið tólf atkvæði til viðbótar (af 54.584 kjósendum) þá hefðum við náð þessu. Þarna lærði ég að hvert einasta atkvæði skiptir máli! Næstkomandi laugardag eru 69.498 kjósendur á kjörskrá í Suðvesturkjördæmi. Hvert einasta atkvæði skiptir máli! Atkvæðið þitt gæti verið atkvæðið sem kemur mér inn á þing.

Sumir hafa sagt við mig í kosningabaráttunni að þeir myndu vilja kjósa mig sem persónu. Eins og þetta horfir við mér þá er fólk sem greiðir okkur atkvæði að kjósa mig sem persónu því þegar valið er á milli flokka er í raun verið að velja á milli einstaklinga.

Atkvæði greitt Framsókn hvar sem er á landinu getur einnig verið atkvæðið sem kemur mér inn á þing því nái ég ekki kjöri sem kjördæmakjörinn þingmaður þá gæti ég komist inn sem uppbótarþingmaður og þar telja öll atkvæði sem flokkurinn fær á landsvísu.

Hvers vegna ættir þú að kjósa mig? Ég lofa því að komist ég á þing mun ég beina öllum mínum kröftum að því að koma mínum baráttumálum í gegn. Mín helstu baráttumál eru eftirfarandi:

 • Uppbygging geðheilbrigðiskerfisins með áherslu á aðgengi almennings að bestu mögulegu meðferð. Meðal annars niðurgreiða þjónustu sálfræðinga, ráða sálfræðinga inn í alla framhaldsskóla, ljúka við ráðningu sálfræðinga inni á allar heilsugæslustöðvar ásamt því að fjölga fleiri stéttum þar, tryggja geðheilbrigðisþjónustu á landsbyggðinni meðal annars þjónustu sálfræðinga og geðlækna. Einnig þarf að fylgja geðheilbrigðisáætlun þingsins eftir, meðal annars að öll börn á landinu í 9. bekk séu skimuð fyrir þunglyndi og kvíða og boðið bestu mögulegu meðferð. Ráðast þarf sérstaklega í þjóðarátak gegn sjálfsvígum. Ég hef barist fyrir þessum málum síðastliðin tíu ár og náð ákveðnum árangri en komist ég inn á þing get ég haft enn meiri áhrif!
 • Stórátak gegn ofbeldi og samþykkja heildstæða framkvæmdaáætlun gegn ofbeldi í samfélaginu. Þar þarf meðal annars að leggja áherslu á að þolendur hafi aðgang að bestu mögulegu meðferð á þeim tímapunkti sem þeir þurfa þess bæði vegna eldri og nýrri áfalla. Þetta þarf að tryggja í öllum heilbrigðisumdæmum. Einnig þarf að efla lögreglu vegna rannsóknar þessara mála og flýta ferli þeirra í dómskerfinu. Halda áfram nýju verklagi í heimilisofbeldismálum. Efla þarf meðferð fyrir gerendur, auka forvarnir og fræðslu. Lögfesta þarf rétt til neyðarathvarfs fyrir þolendur ofbeldis í nánum samböndum.
 • Betri stjórnarskrá. Styðja áframhaldandi vinnu við þann samfélagssáttmála sem stjórnarskráin er og byggja á tillögum stjórnlagaráðs og vinnu stjórnarskrárnefndar. Þar þarf að leggja sérstaka áherslu á auðlindaákvæðið, meiri möguleika á beinu lýðræði og ekki verði opnað á framsal fullveldis, jafna vægi atkvæða, skýra hlutverk forseta Íslands og persónukjör.
 • Áhersla á forvarnir á öllum sviðum samfélagsins. Meðal annars þarf að tryggja lágt matvöruverð á hollri matvöru og leggja frekar álögur á óhollari matvæli. Skoða hvort hægt sé að veita landsmönnum árlega hreyfistyrk til þess að hvetja til aukinnar hreyfingar af öllu tagi.
 • Efling lögreglunnar sem þarf að geta brugðist við breyttri samfélagsgerð með gríðarlegri fjölgun ferðamanna, sístækkandi hópi sem leitar hér alþjóðlegrar verndar og aukinni ógn m.a. vegna skipulagðrar glæpastarfsemi.
 • Íslendingar þurfa að vera ábyrgir íbúar heimsins. Draga þarf úr notkun á plasti. Skoða þarf svissnesku leiðina við endurvinnslu þar sem gjaldfrjálst er að endurvinna en skattur er lagður á sorppoka óendurvinnanlegs sorps. Hvetja þarf fólk til nýtni, draga úr allri sóun og hvetja til skynsamlegrar nýtingu efnislegra gæða sem tekin eru úr sameiginlegum auðlindum heimsins (til dæmis að endurvinna og henda ekki hlutum sem er í lagi með).

Ég mun leggja áherslu á þessi atriði og mörg önnur á Alþingi.

X-B.

Ég skipa 2. sætið fyrir Framsókn í Suðvesturkjördæmi.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Laugardagur 21.10.2017 - 18:07 - FB ummæli ()

Forvarnir eru svarið

Hér á Íslandi búum við í heilsueflandi samfélagi. Nálægðin við náttúruna skapar umgjörð fyrir hvers konar íþróttaiðkun og útivist hvort sem það er að taka þátt í hlaupahópum, stunda hestamennsku, fara í sundlaugarnar, ganga á fjöll eða annað. Þátttaka í íþróttum og frístundastarfi hefur ótvírætt forvarnargildi.

Rannsóknir benda til að fyrstu 1000 dagarnir í lífi barna hafi áhrif á framtíðarheilbrigði þeirra. Því er mikilvægt að styðja við foreldra ungra barna. Framsókn ætlar að lengja fæðingarorlofið í 12 mánuði og leggja áherslu á styttingu vinnuvikunnar. Auk þess þarf að styðja við foreldra sem eiga við geðrænan vanda að stríða.

Endurskipuleggja þarf geðheilbrigðiskerfið og auka aðgengi að sálfræðimeðferð. Við ætlum að efla heilsugæsluna frekar þannig að þar starfi saman fleiri fagstéttir. Við ætlum einnig að niðurgreiða sálfræðiþjónustu. Ráðast þarf í þjóðarátak gegn sjálfsvígum.

Efla þarf löggæslu til að lögreglan hafi burði til þess að takast á við breyttan veruleika og geti tryggt öryggi okkar sem allra best.

Hvetja þarf til aukinnar hreyfingar með því að veita hreyfistyrk árlega. Einnig þarf að veita stuðning við uppbyggingu íþróttamannvirkja til að viðhalda og bæta enn frekar aðstöðu til íþróttaiðkunar barna og unglinga. Lækka þarf verð á ávöxtum, grænmeti og annarri matvöru sem skilgreind er sem hollustuvara.

Við þekkjum það úr störfum okkar hversu miklu máli forvarnir skipta, hvort sem þær snúa að fjölskyldunni, geðheilbrigðismálum, löggæslu eða hreyfingu og heilbrigðum lífsstíl. Við viljum setja þessi málefni fremst í forgangsröðina. Þess vegna erum við í stjórnmálum.

Willum Þór Þórsson skipar 1. sæti á lista Framsóknar í Suðvesturkjördæmi

Kristbjörg Þórisdóttir skipar 2. sæti á lista Framsóknar í Suðvesturkjördæm

(Greinin birtist fyrst í Mosfellingi 19.10.2017 en hefur aðeins verið breytt).

Flokkar: Íþróttir · Lífið og tilveran · Lífstíll · Stjórnmál og samfélag

Laugardagur 21.10.2017 - 00:22 - FB ummæli ()

Jafnrétti á Kex hostel

Ég var á fundi í kvöld á Kex hostel um jafnréttismál sem fulltrúi Framsóknar. Fundurinn var bæði góður og skemmtilegur. Í mínum huga snýst jafnrétti um það að taka tillit til þarfa ólíkra einstaklinga í allri stjórnun og stefnumótun og reyna að byggja samfélagið okkar upp þannig að það rúmi allt fólk eins ólíkt og það er.

Jafnrétti er mannréttindamál

Jafnrétti er eitt af grunnstefum samvinnu- og framsóknarstefnunnar. Við nálgumst jafnrétti sem mannréttindamál. Í stefnu okkar kemur fram að það er bannað að mismuna eftir kyni, aldri, fötlun, kynhneigð, kynvitund, trú eða stöðu að öðru leyti. Innan Framsóknar starfar jafnréttisnefnd og jafnréttisfulltrúi sem vinnur að jafnrétti innan flokksins. Sett er jafnréttisáætlun og allar stofnanir flokksins hvattar til að setja sér starfsáætlun í jafnréttismálum. Markmiðið er að ná jafnri þáttöku félagsmanna óháð uppruna, sérkennum, kyni, aldri eða öðru í störfum á vegum flokksins. Flokkurinn setur sér það markmið að hlutur karla eða kvenna í trúnaðar- eða ábyrgðarstöðum innan flokksins sé ekki lakari en 40%.

Framsóknarflokkurinn kom á feðraorlofinu

Framsóknarflokkurinn hefur á síðustu 100 árum staðið framarlega í jafnréttismálum. Nefna má nokkur dæmi. Rannveig Þorsteinsdóttir, fyrsta þingkona framsóknarmanna, var fremst í baráttunni fyrir lítilmagnann, fyrir jafnrétti og kvenfrelsi um miðja síðustu öld. Hún braust til mennta á miðjum aldri og varð fyrst kvenna til að öðlast hæstaréttarlögmannsréttindi. Árið 2000 lagði Páll Pétursson þáverandi félagsmálaráðherra fram lagafrumvarp um breytingu á fæðingarorlofi þar sem feðraorlof kom til sögunnar, sbr. lög frá 2000. Feðraorlofið er eitt brýnasta jafnréttismál samtímans.

Áherslur Framsóknar í jafnréttismálum

Mikilvægt er að hafa jafnréttismálin alltaf í forgrunni. Helstu áhersluatriði á komandi misserum eru að vinna gegn kynbundnu ofbeldi. Þar leggjum við meðal annars áherslu á að bæta meðferð ofbeldismála í dómskerfinu og bæta aðgengi á landsvísu að sálfræðimeðferð vegna nýrra og eldri áfalla. Einnig er mikilvægt að jafna hlutfall kynjanna í valdastöðum þar meðtalið innan stjórnmálanna. Ráðast þarf gegn kynbundnum launamun en meðal ananrs þarf að skoða kynjaskiptingu vinnumarkaðarins í því samhengi. Mikilvægt er að stytta vinnuvikuna og lengja fæðingarorlofið í 12 mánuði.

Breyttur heimur og jafnrétti í sinni víðtækustu mynd

Stuttur pistill getur ekki rúmað öll áhersluatriði í jafnréttismálum. Fleiri atriði eru mjög mikilvæg og má þar nefna til dæmis, lögfesting Notendastýrðrar persónulegrar aðstoðar (NPA), vinna vegna manngerðs aðgengis á öllum sviðum (aðgengi að byggingum, aðgengi að vefsíðum og fleira). Einnig þarf að huga að breyttum áherslum í jafnréttismálum þar sem velta má upp hvort í dag gangi upp að hafa aðeins karla og kvennaklósett því hvar á aðili sem skilgreinir sig hvorki sem karl eða kona að pissa? Það sama á við um búningsklefa í sundlaugum.

 

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Fimmtudagur 19.10.2017 - 00:11 - FB ummæli ()

Konur, áföll og fíkn

Ég sótti góðan fund í kvöld sem fulltrúi Framsóknar um konur, áföll og fíkn. Hann var haldinn á vegum Rótarinnar. Á fundinn mættu fulltrúar allra flokka þar sem gagnleg umræða átti sér stað.

Framsókn gegn ofbeldi

Eygló Harðardóttir fyrrverandi félagsmálaráðherra vann ötullega að þessum málum. Í hennar tíð var unnin framkvæmdaáætlun gegn ofbeldi, opnuð miðstöð fyrir þolendur ofbeldis (Bjarkarhlíð), ráðið í stöður sálfræðinga á stærstu sjúkrahúsunum til þess að veita áfallamiðaða sálfræðimeðferð, Barnahús var eflt til þess að sinna fötluðum börnum og börnum sem orðið hafa fyrir líkamlegu ofbeldi, settir voru auknir fjármunir í ýmis félagasamtök sem koma að þessum viðkvæmu málum og margt fleira. Þeim sem vinna á sviðinu sem ég hef heyrt í ber saman um að Eygló hafi staðið sig einstaklega vel í þessum málaflokki.

Áherslur Rótarinnar

Samtökin Rótin og talskona þeirra Kristín I. Pálsdóttir hafa unnið hörðum höndum að umbótum. Meðal annars var unnin ítarleg greinargerð um konur og fíkn sem kynnt var heilbrigðisráðherra s.l. sumar. Vinna þessara grasrótarsamtaka er til fyrirmyndar. Þar er meðal annars lögð áhersla á að taka þurfi heildstætt á þessum vanda, veita viðeigandi áfallamiðaða og kynjamiðaða meðferð sem er aðgengileg og sniðin að hverjum og einum. Rannsóknir hafa sýnt að 70-90% þeirra sem þurfa meðferð vegna áfengis- eða vímuefnavanda hafa orðið fyrir kynferðislegu eða líkamlegu ofbeldi og 30-50% þjást af áfallastreituröskun. Til þess að ná rót vandans er lykilatriði að veita meðferð við áfallastreituröskun samhliða fíknimeðferð annars er alltaf verið að höggva bara njólann sem sprettur upp við fyrsta tækifæri aftur.

Áherslur Framsóknar

Við tökum undir margt af því góða sem kemur fram í vinnu Rótarinnar. Við leggjum jafnframt áherslu á:

 • Forvarnir og fræðslu sem hefst strax í grunnskóla.
 • Skimun á áföllum og starfsfólk sé þjálfað upp í að spyrja börn um ofbeldi og tilkynna til barnaverndar þegar þarf.
 • Viðeigandi meðferð fyrir gerendur og eflingu sálfræðiþjónustu Fangelsismálastofnunar.
 • Eflingu á áfallamiðaðri sálfræðimeðferð bæði vegna nýrri og eldri áfalla og þjónustan sé aðgengileg í öllum heilbrigðisumdæmum.
 • Eflingu annarra úrræða og niðurgreiðslu sálfræðiþjónustu.
 • Lögfesta rétt til neyðarathvarfs fyrir þolendur ofbeldis í nánum samböndum og mansals í takt við nýleg norsk lög.
 • Huga sérstaklega að ofbeldi gegn fötluðu fólki.

Ég vil vinna að þessum umbótum. Þær eru mjög þarfar og séu þær vel útfærðar mun fjármagnið sem fer í verkefnið skila sér margfalt tilbaka aftur til samfélagsins.

Til þess þarf ég þinn stuðning.

X-B

Kristbjörg Þórisdóttir skipar 2. sæti á lista Framsóknar í Suðvesturkjördæmi

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Þriðjudagur 17.10.2017 - 23:47 - FB ummæli ()

Viltu plastpoka? Nei, takk!

Ég var spurð að þessu í verslun í dag og gaf þetta svar. Undanfarið hef ég æ oftar afþakkað plastpoka. Fyrir nokkrum árum hefði mér ekki komið það til hugar. Í dag reyni ég að endurvinna allt plast sem ég get á heimili mínu. Það hefði ég heldur ekki gert fyrir nokkrum árum. Umhverfisvitund mín hefur sem betur fer aukist eins og hjá fólki almennt. Eins og staðan er þá er þetta ekki þörf heldur nauðsyn. Við verðum að bregðast við og gera það strax. Okkur ber skylda til þess að vera ábyrg í umhverfismálum sem íbúar þessarar jarðar. Plast er hættulegt lífríkinu og eyðist seint í náttúrunni eins og Hjálmar Ásbjörnsson kemur svo vel inn á í þessari grein.

Framsókn vill stórminnka notkun plasts og auka endurvinnslu

Fyrir komandi kosningar leggjum við framsóknarfólk áherslu á að stórminnka notkun plasts og aukna endurvinnslu. Við viljum hvetja fólk til að nota umhverfisvænar umbúðir, til dæmis taupoka þegar farið er í matvöruverslanir. Draga þarf úr notkun á öllum plastumbúðum, plastpokum, einnota plástáhöldum og auka kröfur um endurvinnslu á plasti.

Svissneska leiðin

Svisslendingar eru fyrirmyndarþjóð að mörgu leyti. Þeir hafa komið á fót skynsamlegum lausnum í húsnæðismálum sem við Framsóknarmenn höfum kynnt til að aðstoða ungt fólk við að eignast húsnæði. Þeir eru líka með sniðugar lausnir í umhverfismálum. Þar sem ég þekki til í Sviss virkar kerfið þannig að fólk endurvinnur allt sem er hægt að endurvinna og því er skilað í grenndargáma íbúanum að kostnaðarlausu. Óendurvinnanlegt rusl er eingöngu fjarlægt í ákveðnum sorppokum sem viðkomandi þarf að greiða fyrir. Hvatinn er því réttur í kerfinu, því meira sem þú endurvinnur því færri sorppoka þarftu og því meira sparar þú. Sniðugt, ekki satt?

Við viljum draga úr notkun á plasti og finna nýjar og sniðugar leiðir til að auka endurvinnslu.

Getum við ekki öll verið sammála um það?

Ég vil leiða slíkar breytingar og þess vegna býð ég mig fram í komandi Alþingiskosningum.

X-B

Kristbjörg Þórisdóttir skipar 2. sæti fyrir Framsókn í Suðvesturkjördæmi.

 

Flokkar: Bloggar · Dægurmál · Lífið og tilveran · Lífstíll · Stjórnmál og samfélag

Mánudagur 16.10.2017 - 17:09 - FB ummæli ()

Bætt geðheilbrigðisþjónusta fyrir börn og unglinga

Nýlegar rannsóknir hafa bent til þess að tilfinningavandi eins og kvíði og þunglyndi hafi aukist verulega hjá börnum og unglingum síðastliðin ár og 10% barna hér á landi taki geðlyf. Ómeðhöndlaður tilfinningavandi getur hamlað eðlilegum tilfinninga- og félagsþroska barna ásamt því að auka líkur á neyslu, brottfalli úr skóla, erfiðleikum í fjölskyldu og öðrum vanda. Ekki er ljóst hver orsök þessarar aukningar er en bent hefur verið á að aukin notkun barna og unglinga á samfélagsmiðlum geti ýtt undir vanlíðan. Einnig hefur verið bent á að samfélagsgerð okkar þar sem fjölskyldan nær ekki að verja nægilega miklum tíma saman geti haft áhrif. Löng bið og takmarkað aðgengi hefur verið að bestu mögulegu meðferð. Í skýrslu Ríkisendurskoðunar frá 2016 var meðal annars bent á að þessi langa bið gangi gegn lögbundnum skyldum ríkisins, stefndi langtímahagsmunum samfélagsins og velferð borgaranna í tvísýnu og um kerfislægan veikleika væri að ræða sem yrði áfram til staðar nema ráðist yrði að rót hans. Ef ekki er tekið markvisst á geðheilsuvanda barna og unglinga aukast líkur á þungbærum og langvarandi afleiðingum svo sem alvarlegum geðrænum vanda á fullorðinsárum og örorku. Meðal annars var hvatt til þess að sett yrðu skýr gæðaviðmið um ásættanlegan biðtíma.

Hvað er til ráða?

Mikilvægt er að bregðast við þessu því við viljum börnum okkar hið besta. Börn og unglingar eru framtíðin og með því að leysa úr vanda þeirra er verið að leysa úr framtíðarvanda. Við framsóknarfólk viljum lengja fæðingarorlof foreldra í tólf mánuði því lengi býr að fyrstu gerð. Við viljum líka stytta vinnuvikuna því þannig aukum við möguleika fjölskyldna á samveru. Við viljum taka þátt í endurskipulagningu þess kerfis sem lýtur að geðheilbrigðisþjónustu við börn og unglinga þar sem meðal annars er aukið aðgengi að gagnreyndri sálfræðiþjónstu.

Aðgerðaáætlun um bætta geðheilbrigðisþjónustu og aðgengi að sálfræðimeðferð

Við framsóknarfólk, undir forystu Karls Garðarsonar þáverandi þingmanns, lögðum fram þingsályktunartillögu í apríl 2014 um aðgerðaáætlun um bætta geðheilbrigðisþjónustu og aðgengi að sálfræðimeðferð fyrir börn, unglinga og fjölskyldur þeirra. Sú tillaga var felld inn í þingsályktunartillögu um stefnu og aðgerðaáætlun í geðheilbrigðismálum til fjögurra ára. Í þeirri tillögu er meðal annars lagt til að allir nemendur 9. bekkjar séu skimaðir fyrir kvíða og þunglyndi og þeim sem þess þurfa verði boðið upp á gagnreynt námskeið sem byggir á aðferðum hugrænnar atferlismeðferðar en það er sú meðferð sem á að vera fyrsta meðferð við kvíða og vægu til miðlungs þunglyndi.

Við viljum halda áfram á þessari braut og biðjum um stuðning ykkar í komandi kosningum.

X-B

Kristbjörg Þórisdóttir, skipar 2. sæti á lista Framsóknarmanna í SV-kjördæmi

Willum Þór Þórsson, skipar 1. sæti á lista Framsóknarmanna í SV-kjördæmi

(greinin birtist á dögunum í Kópavogspóstinum)

Flokkar: Lífið og tilveran · Stjórnmál og samfélag

Laugardagur 14.10.2017 - 20:46 - FB ummæli ()

Kjóstu með geðheilbrigði

Góð geðheilsa er gulli betri. Geðrænn vandi er algengur en oft falinn vandi í samfélaginu. Rannsóknir hafa sýnt að þriðjungur fólks þjáist af geðröskun á ári hverju, helmingur einhvern tímann á ævinni og einn af hverjum þremur sem kemur á heilsugæsluna kemur vegna geðræns vanda. Því er spáð að þunglyndi verði helsta ástæða örorku 2030. Tæplega fjórðungur þeirra sem eru á örorku eru það vegna geðraskana. Ungum karlmönnum á örorku hefur fjölgað síðustu ár og sjálfsvíg er algengasta dánarorsök ungra karlmanna 18-24 ára hér á landi. Ógreindur og ómeðhöndlaður geðrænn vandi veldur alvarlegum afleiðingum fyrir þann sem þjáist, fjölskyldu viðkomandi og samfélagið allt. Lífsgæði glatast, skerðing verður á vinnuframleiðni, aukin þörf á þjónustu félags- og heilbrigðisþjónustu og tap vegna glataðra tekna og hærri útgjalda úr almannatryggingakerfinu. Í dag er aðgengi að bestu mögulegu meðferð allt of takmarkað og þjónustan sem fólk fær er of lítil, of langt í burtu og kemur of seint.

Við viljum umbætur í geðheilbrigðiskerfinu. Við ætlum að efla forvarnir og auka aðgengi að bestu mögulegu meðferð sem er hugræn atferlismeðferð samkvæmt leiðbeiningum. Við viljum endurskipulagningu á geðheilbrigðiskerfinu þar sem fólk getur fengið viðeigandi meðferð og þjónustu vegna geðræns vanda í nærumhverfi sínu um allt land hvort sem er í heilsugæslunni, skólum, öldrunarheimilum, hjá félagsþjónustu, sjálfstætt starfandi fagaðilum eða á sjúkrahúsum. Því fyrr sem vandi greinist og því fyrr sem fólk fær viðeigandi aðstoð því minni þjónustu þarf. Ráðast þarf í þjóðarátak gegn sjálfsvígum og vinna þarf gegn ofbeldi og þöggun þess.

Ég get lofað því að þessi mál eru mitt hjartans mál. Ég hef barist fyrir bættu aðgengi að sálfræðiþjónustu og umbótum á geðheilbrigðiskerfinu um árabil. Ákveðnar aðgerðir til umbóta eru þegar hafnar en betur má ef duga skal. Fjárfesta þarf sérstaklega í geðheilbrigðiskefinu. Sú fjárfesting mun strax skila sér tilbaka. Ég mun leggja áherslu á þessi mál á Alþingi Íslendinga. Til þess að ég geti gert það þarf ég stuðning þinn þann 28. október næstkomandi.

X-B

Kristbjörg Þórisdóttir, skipar 2. sæti á lista Framsóknarmanna í SV-kjördæmi

(greinin birtist fyrst í Garðapóstinum 12. október 2017).

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Höfundur

Kristbjörg Þórisdóttir
er sálfræðingur með diplóma gráðu í fötlunarfræðum sem hefur mikinn áhuga á heilbrigðum lífsstíl, samfélaginu, umbótum og stjórnmálum
Vertu breytingin sem þú vilt sjá í heiminum (Mahatma Gandhi)

Kristbjörg er varaþingkona Framsóknarflokksins í Suðvesturkjördæmi
RSS straumur: RSS straumur