Laugardagur 7.12.2013 - 20:35 - FB ummæli ()

Okkar Ríkisútvarp

Miðvikudagskvöldið 4. desember var haldinn samstöðu- og hluthafafundur Ríkisútvarpsins í Háskólabíói. Eigendur miðilsins fjölmenntu og fylltu húsið og rúmlega það. Umfjöllunarefni fundarins var niðurskurður ríkisstjórnarinnar og uppsagnir á Ríkisútvarpinu.

Ræðumenn á fundinum voru Guðmundur Andri Thorsson, Melkorka Ólafsdóttir, Hanna G. Sigurðardóttir, Benedikt Erlingsson, Sigríður Ólafsdóttir og Kolbeinn Óttarsson Proppé. Kynnir var Guðrún Pétursdóttir.

Hópur ungra kvenna átti þetta ánægjulega frumkvæði að fundinum, þær Arngunnur Árnadóttir, Júlía Mogensen, Melkorka Ólafsdóttir og Valgerður Þóroddsdóttir. Þær fengu félaga sína til að taka fundinn upp og ég tók að mér að vinna úr upptökunni og klippa hana.

Þar sem flestir eigendur Ríkisútvarpsins komust ekki á fundinn af ýmsum ástæðum er nauðsynlegt að miðla því sem þar fór fram svo allir sjái og heyri.

1. hluti – Guðmundur Andri Thorsson

.

2. hluti – Melkorka Ólafsdóttir

.

3. hluti – Okkar Ríkisútvarp – 1

.

Sjá líka hér:

.

4. hluti – Hanna G. Sigurðardóttir

.

5. hluti – Benedikt Erlingsson

.

6. hluti – Sigríður Ólafsdóttir

.

7. hluti – Kolbeinn Óttarsson Proppé

.

8. hluti – Okkar Ríkisútvarp – 2 og lokaorð

.

Sjá líka hér:

.

Samstöðu- og hluthafafundur Ríkisútvarpsins í Háskólabíói 4. desember 2013 – Fundurinn allur

.

Á undan fundinum flutti stórsveit Samúels Jóns Samúelssonar þetta kunnuglega lag
sem margir kalla sjálfsagt bara „Víðsjárlagið“.

.

Laugardaginn 7. desember komu nokkrir kórar saman í Smáralind til að mótmæla niðurskurði og uppsögnum á Ríkisútvarpinu. Þetta var svokallað „flashmob“, eða óvænt uppákoma (íslensk þýðing óskast). Jan Murtomaa, fyrrverandi tæknimaður hjá Ríkisútvarpinu, var á staðnum og tók þetta myndband af kórsöngnum.

Heyr himnasmiður – Kolbeinn Tumason/Þorkell Sigurbjörnsson

.

Og hér er upptaka af sama „flashmobbi“ af vefsíðu Ríkisútvarpsins sama dag.

.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Laugardagur 12.10.2013 - 01:14 - FB ummæli ()

Í þágu okkar allra

Hvað allir athugi!

Pétur Gunnarsson – Í þágu okkar allra – DV 9.-10. október 2013

Pétur Gunnarsson - Í þágu okkar allra - DV 9.-10. október 2013

Pétur Gunnarsson – Í þágu okkar allra – DV 9.-10. október 2013

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Sunnudagur 15.9.2013 - 17:38 - FB ummæli ()

Valdaránin eru víða

Milton Friedman og Augusto Pinochet

Milton Friedman og Augusto Pinochet

Valdarán getur verið margs konar og þarf ekki endilega að gerast fyrir tilstuðlan hers. Þótt her sé gagnlegur sums staðar, gerist hans varla þörf lengur þegar framið er efnahagslegt og samfélagslegt valdarán.

Þann 11. september sl., á miðvikudaginn, voru 40 ár síðan valdaránið í Chile átti sér stað. Valdarán hersins með aðstoð Bandaríkjamanna og að því er sagan segir – beinlínis að frumkvæði þeirra. Undirrót þess valdaráns hefur síðan orðið alþjóðleg yfirtaka á efnahagskerfi ótal landa, m.a. Íslands.

Talsvert er búið að fjalla um þennan sögulega atburð á Rás 1, einkum í tengslum við bókmenntir og viðtöl við chilenska rithöfundinn Antonio Skármeta sem var hér á landi í tilefni Bókmenntahátíðar. Í Víðsjá eftir hádegið í dag var m.a. samantekt á umfjöllun vikunnar, viðtal við Skármeta og sænskt sendiráðsfólk sem var í Chile á tíma valdaránsins.

Ég hef ekki orðið mikið vör við umræðu eða viðbrögð hér á landi við þessum upprifjunum. Kannski finnst fólki okkur ekki koma þetta við – það sé svo langt síðan; þetta var valdarán hers og hér er enginn her; Chile er jú svo langt í burtu.

En okkur kemur þetta mjög mikið við þótt 40 ár séu liðin frá atburðinum því ástæður og undirrót valdaránsins voru af sama hagfræðilega meiði og efnahagshrunið á Íslandi og víðar um heiminn. Við verðum að þekkja söguna og tengja Ísland við alheiminn, því það sem gerist annars staðar getur svo auðveldlega gerst hér – og hefur vissulega gerst.

Margir muna eftir heimildamyndinni ‘The Shock Doctrine’, eða Hamfarakenningunni sem byggð er á samnefndri bók eftir Naomi Klein. Í inngangsorðum myndarinnar segir Naomi Kline þetta, í þýðingu Bárðar R. Jónssonar:

Að fara í lost hendir ekki bara þegar eitthvað slæmt gerist. Áfallið kemur þegar við missum fótanna, áttum okkur ekki á heiminum. Við höldum áttum og vöku okkar með því að vita af sögu okkar. Svo þegar kreppir að eins og núna er hollt að íhuga söguna. Að íhuga framvindu, ræturnar. Að setja sig í stærra samhengi sögunnar og baráttu mannsins.

Einmitt það sem við þurfum öll að gera – setja okkur í stærra samhengi sögunnar og rifja upp það sem er að gerast og gerst hefur víða um heim.

Þetta Chicago-gengi komst til valda á Íslandi fyrir 20 árum, þ.e. íslenska útgáfan af því. Það endaði með allsherjar efnahagshruni árið 2008. En ekki bara efnahagshruni – mantran hafði verið spiluð svo oft að samfélagið var orðið svo gegnsýrt af eiginhagsmunagæslu, sérgæsku og græðgi að stundum óttast maður að ekki verði aftur snúið. Samfélagsleg ábyrgð og hlutverk okkar allra í að efla og viðhalda grunnþjónustu hafði verið lagt í rúst. Nú var það hver maður fyrir sig, hver er sjálfum sér næstur, skítt með náungann og hin minnstu okkar bræðra og systra mega éta það sem úti frýs. Frumskógarlögmálið allsráðandi. Fyrirtæki og auðmenn flýta sér með auðinn í skattaskjól án þess að leggja neitt til samfélagsins sem þeir og fjölskyldur þeirra þó nýta og nota að vild á kostnað annarra.

Chicago-gengið er aftur komið til valda á Íslandi á bak við nokkur ný andlit – og er nú í óða önn að endurskrifa söguna, bera af sér sakir og ekki hvarflar að þessu fólki að viðurkenna mistök, hvað þá að biðjast afsökunar á þeim. Stefnan hefur heldur ekkert breyst. Áfram skal hlaða undir auðmenn og útvalda og nú er enn og aftur talað um einkavæðingu grunnstoða og afnám eftirlits hvers konar til verndar almenningi. Taka tvö er hafin, þökk sé rúmlega 50% íslenskra kjósenda.

Það er því enn mikilvægara en áður að rifja upp söguna á bak við valdaránið í Chile, vera á varðbergi og spyrna á móti enn frekari áhrifum þessara eyðileggingarafla í íslensku samfélagi.

Ég klippti út kaflann um Chile úr heimildamyndinni ‘The Shock Doctrine’ til að rifja upp öflin á bak við valdaránið árið 1973 og lét upphafsorð Naomi Klein fljóta með. Í næsta kafla myndarinnar á eftir Chile er fjallað um valdaránið í Argentínu og þar segir m.a.:

Lærisveinar Friedmans gegndu lykilstöðum í Brasilíu og voru ráðgjafar yfirvalda í Urugvæ. Svo henti það 24. mars 1976 að herinn steypti stjórn Isabel Peron í Argentínu. […]  Chicago-drengirnir fengu mikilvægar stöður hjá herforingjastjórninni. Þeir gripu tækifærið og lögðu út í umfangsmikla efnahags- og samfélagslega endurskipulagningu. Ári eftir valdaránið hafði kaupmáttur launa rýrnað um 40%, verksmiðjum hafði verið lokað og fátæktin óx hröðum skrefum.

Kunnuglegt stef, ekki satt?

Friedman, Chile og hamfarakenningin – The Shock Doctrine

.

Árið 1982, þegar Pinochet hafði stjórnað Chile með harðri hendi í 9 ár, var kvikmyndin ‘Missing’ frumsýnd. Ég gleymi aldrei hvernig mér leið eftir að horfa á myndina og átta mig á hlutverki Bandaríkjanna í þeim voðaatburðum sem höfðu átt sér stað í Chile. En í myndinni var þó ekkert komið inn á efnahagslega undirrót valdaránsins, ef ég man rétt.

‘Missing’ fjallar um hvarf bandarísks blaðamanns og rithöfundar í Chile og tilraunum eiginkonu hans og föður til að hafa upp á honum. Það er mjög áhrifaríkt hvernig faðirinn, sem trúði á og treysti sínum yfirvöldum, áttar sig smátt og smátt á því, að einmitt þessi sömu yfirvöld í ‘landi frelsis og réttlætis’ báru ótvíræða ábyrgð á ástandinu í Chile og þar með örlögum sonar hans.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Föstudagur 16.8.2013 - 19:53 - FB ummæli ()

Hrunið – að gefnu tilefni

Ný ríkisstjórn er komin til valda. Gamla hrunstjórnin endurholdguð, segja sumir. Aðrir eru hæstánægðir og sjá nú gull handa sér og sínum í hverjum krók og kima og eru búnir að kveikja upp í grillunum. Ekki verður tíundað hér hvað hin nýja ríkisstjórn hefur nú þegar afrekað, enda ekkert af því í þágu almennings. Að minnsta kosti ekki ennþá.

Það sem ég hafði í huga er að minna á hrunið og aðdraganda þess. Í október 2009, þegar eitt ár var liðið frá hruninu, voru fjórir afar fróðlegir þættir á dagskrá Ríkissjónvarpsins. Já, góðir hálsar – á RÚVinu okkar allra, nema hvað?! Eina fjölmiðilsins í almannaeigu og almannaþágu, gleymum því aldrei.

Rifjum nú upp hvern og einn einasta þessara fjögurra þátta, látum hugann reika. Minnumst þess hvað olli hruninu. Hverjir voru þar að verki? Hvar þeir eru núna og hvað að bralla? Hafa þeir axlað ábyrgð? Hefur þeim verið haldið frá ábyrgðarstöðum og almannafé? Og spyrjum okkur sjálf hvort við viljum annað hrun eins og ýmsir spá að verði innan skamms með hina nýju ríkisstjórn við völd. Góða skemmtun.

Hrunið – 1. þáttur – 6. október 2009

.

Hrunið – 2. þáttur – 13. október 2009

.

Hrunið – 3. þáttur – 20. október 2009

.

Hrunið – 4. þáttur – 27. október 2009

.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Fimmtudagur 4.7.2013 - 07:35 - FB ummæli ()

Græðgi og spilling

Þessi grein Guðmundar Andra Thorssonar birtist 9. janúar 2006. Fyrir sjö og hálfu ári. Tveimur árum og átta mánuðum fyrir hrun. Nú, þegar græðgin er komin á flug aftur, ný ríkisstjórn að kollvarpa heilbrigðri skynsemi, skíturinn og ógeðið vellur nýjum skýrslum um pólitíska spillingu, vanhæfi og andverðleika, þá finnst mér rétt að minna á. Rifja upp – ef einhverjir skyldu hafa gleymt hvað varð þess valdandi að nú skulda íslenskir skattborgarar á annað þúsund milljarða eftir óráðsíu gegndarlausrar græðginnar sem grasseraði á Íslandi árum saman. Þeir eru komnir til valda aftur, spillingar-, græðgis- og arðránsflokkarnir. Til hamingju með stjórnina ykkar, þið sem kusuð þá.

Guðmundur Andri Thorsson – Græðgi – Fréttablaðið 9. janúar 2006

Græðgi - Guðmundur Andri Thorsson - Fréttablaðið 9. janúar 2006

Græðgi – Guðmundur Andri Thorsson – Fréttablaðið 9. janúar 2006

 

Ég ætla að minna á fleira – svona í tilefni af skýrslu Rannsóknarnefndarinnar um Íbúðalánasjóð. Orð þeirra Einars Steingrímssonar og Stefáns Jóns Hafstein um andverðleikasamfélagið og rányrkjubúið Ísland. Og ég spyr: Hvenær breytist þetta? Hvenær skilur fólk hvað það er að kjósa yfir sig? Hvenær læra Íslendingar að bera kennsl á spillingu?

Silfur Egils 3. október 2010 og 8. janúar 2012

.

Það er ekki laust við að þetta atriði komi upp í hugann líka. Þetta hljóta jú að vera snillingar fyrst þeir geta blekkt þjóðina svona rosalega!

Áramótaskaupið 31. desember 2011

.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Sunnudagur 19.5.2013 - 21:16 - FB ummæli ()

Svolítil saga af sjálfri mér

Krabbameinsfrumur

Krabbameinsfrumur

Ég er ekki vön að fjalla um mín persónulegu málefni, hvorki á þessum vettvangi né öðrum. En nú ætla ég að gera undantekningu þar á vegna þess að mér finnst málið stærra en svo að það komi mér einni við og mínum nánustu.

Í desember gerðist það, að ég greindist með brjóstakrabbamein. Ég fór í aðgerð í janúar og hóf geislameðferð sem lauk síðasta vetrardag. Geislameðferðin reyndist mér erfið, ég örmagnaðist – sennilega líka vegna spennufalls – auk þess sem ég brann nokkuð illa.

En þetta var nú svosem ekki neitt til að æsa sig yfir eða gera mál út af. Þúsundir kvenna ganga í gegnum það sama og jafnvel verra hér á landi en langflestar ná sér og lifa góðu lífi á eftir, ýmist með eða án brjósta.

Þegar ég var tæplega 32 ára, eða fyrir 25 og hálfu ári, fór ég að vinna við þýðingar fyrir Stöð 2 (nú 365 miðla) sem þá var rétt ársgömul. Þetta var í október 1987. Ég hef gengið í gegnum öll stig þróunar fyrirtækisins, alla stjórnenda- og eigendaflóruna frá upphafi og haldið tryggð við minn vinnustað hvað sem á hefur dunið, þó að ég hafi mestallan tímann unnið sem verktaki heima eins og aðrir þýðendur miðilsins.

Það tók mörg ár að slípa til þýðingadeildina, enda eru sjónvarpsþýðingar engar venjulegar þýðingar. Langan tíma tekur að þjálfast í tækninni sem einkennir skjátexta –  styttingum, tímasetningu, einstiginu milli talmáls og ritmáls sem og því, að koma innihaldi dagsápa, bókmenntaverka, raunveruleikaþátta, fréttaskýringaþátta, heimildamynda, kvikmynda og annars konar efnis yfir í stuttan, hnitmiðaðan texta á skjánum.

Fyrir talsvert meira en áratug var sýnt fram á í tölum að skjátexti myndmiðla er mest lesni textinn á íslenska tungu. Hann er miklu meira lesinn en nokkrar bækur, blöð, tímarit eða annað – og þá voru stöðvarnar ekki eins margar og nú er. Það fylgir því mikil ábyrgð að vera höfundur þess texta. Þá ábyrgð hef ég ævinlega tekið mjög alvarlega og verið stolt af minni vinnu.

Í apríl, þegar ég var á fullu í geislameðferðinni, var stofnuð ný deild hjá 365 miðlum – eða svið eins og það er kallað – Fjarskipta- og tæknisvið. Yfir sviðið þótti hæfa að ráða ungan365_logo mann, Erling Frey Guðmundsson, sem nýverið tókst að setja útrásar-fjarskiptafélagið Industria svo konunglega á hausinn að ekkert fékkst upp í 1,1 milljarðs kröfur í þrotabúið. Af einhverjum ástæðum, sem ég hvorki þekki né skil, var þýðingadeildin sett undir þetta svið.

Erling Freyr beið ekki boðanna og hóf þegar að reka þaulreynda starfsmenn. Það merkilegasta er að honum tókst að fá útkomu úr Excel sem engum hefur tekist hingað til en margir reynt: Að það væri ódýrara að láta fastráðna þýðendur innanhúss þýða allt efni miðilsins í stað verktaka úti í bæ. Einn af fyrrverandi yfirmönnum fyrirtækisins kallaði þetta „bull“ fyrir nokkrum dögum þegar hann frétti af þessu. Enda vita allir sem vilja vita að fastráðnir starfsmenn eru margfalt dýrari en verktakar og allir sem hafa reynt að fá út aðra niðurstöðu hafa horfið frá hugmyndinni.

Erling Freyr hófst því handa við að ráða hóp fólks, sem mér vitanlega hefur aldrei þýtt fyrir sjónvarp, segja upp verksamningum við þaulreynda þýðendur og skera verkefni annarra niður um allt að 70%. Flestir hafa stundað þessar sértæku þýðingar árum og áratugum saman af samviskusemi og metnaði fyrir hönd miðilsins.

Ég var ein af þeim sem var sagt upp.

Þegar ég var sem viðkvæmust eftir erfiða geislameðferð og það andlega álag sem fylgir því að fá krabbamein fékk ég uppsagnarbréf – í tölvupósti. Ég hafði gert mér far um að vinna eins og kraftar leyfðu því ég hef engar sjúkratryggingar, er ekki í stéttarfélagi og get ekki verið tekjulaus. Tölvupóstinn fékk ég 10. maí og ég fæ engin verkefni frá og með 1. júní. Eftir rúmlega 25 ára störf fékk ég 20 daga til að átta mig á að ég væri atvinnulaus. Það eru liðnir 9 dagar og ég er ennþá í losti.

Ég lýsi eftir orði yfir það, að segja upp verksamningi við 57 ára gamlan starfsmann eftir 25 ára starf með 20 daga fyrirvara – með einum tölvupósti. Mér finnst siðleysi ekki ná yfir það.

Réttlætisgyðjan

Réttlætisgyðjan

Þetta leiðir hugann að siðferði og ábyrgð, réttlæti, virðingu fyrir fólki og störfum þess, réttleysi fólks sem vinnur sem sjálfstætt starfandi einstaklingar, yfirgengilegum hroka og tillitsleysi jafnvel vanhæfustu manna sem telja sig ævinlega vita betur en aðrir þrátt fyrir ára- eða áratugalangar sannanir um hið gagnstæða.

Þetta leiðir sömuleiðis hugann að stöðu okkar í heilbrigðiskerfinu og þeirri staðreynd, að það er í raun ekki nema fyrir heilbrigt fólk í fullu starfi og á góðum launum að veikjast. Ég hef þurft að punga út tugþúsundum króna í alls konar rannsóknir í vetur og er svo heppin að nýja lyfjakerfið var að taka gildi svo ég fæ líka að borga krabbameinslyfin sem ég þarf á að halda næstu 5 ár. Atvinnuleysið gat því ekki komið á verri tíma – en apótekin eru nú farin að auglýsa ný kortatímabil í velferðarþjóðfélaginu okkar.

Ennfremur leiðir þetta hugann að því virðingarleysi sem íslensku máli er sýnt. Þarna þykir sjálfsagt að láta óvant fólk sjá um mest lesna texta á íslenska tungu og krefjast ofurmannlegra afkasta fyrir lág laun – en mér skilst að nýju innanhússþýðendurnir eigi að skila hreint ótrúlegum afköstum á hverjum einasta vinnudegi. Það er litið á þá sem vélmenni.

Allir sem fengist hafa við þýðingar vita að sú vinna er ekki vélræn. Hún snýst ekki bara um að vera sem fljótastur að hamra eitthvað á lyklaborðið. Verið er að snúa hugsunum og orðum frá einu menningarsvæði yfir á annað, frá einu tungumáli yfir á annað – og mikilvægast af öllu er að hafa gott vald á því tungumáli sem þýtt er á – móðurmálinu.

Mér er minnisstætt þegar ég las í grein eftir Þorgeir heitinn Þorgeirson að hann hafi stundum farið í langa göngutúra – bara til að velta fyrir sér einu einasta orði og hvernig hann ætti að þýða það og meðhöndla. Veitt eru verðlaun fyrir góðar bókmenntaþýðingar því það er viðurkennt að þýðing milli tungumála er vandmeðfarin kúnst. Fyrir tveimur eða þremur árum var í fyrsta sinn veitt viðurkenning fyrir skjátextaþýðingar. Þótt vandvirkir myndmiðlaþýðendur hafi reyndar ekki tíma fyrir munað eins og Þorgeir, leggja þeir engu að síður metnað í vinnu sína og hafa á sínum snærum ótal sérfræðinga á ýmsum sviðum sem þeir þurfa að leita til þegar þannig stendur á.

Að mörgu er að hyggja í nútímasamfélagi. Menntun landsmanna er sögð hafa aukist en lítið er minnst á þá staðreynd, að prófgráður eru engin trygging fyrir menntun. Hvorki þroska né heilbrigðri skynsemi heldur – hvað þá reynslu. Það versta er, að búið er að taka mennskuna úr samfélaginu. Þá hugsun, að hver einasti einstaklingur er manneskja sem ber að taka tillit til og sem hefur rétt á að lifa, þótt ekki sé nema með svolítilli reisn.

Á tungumáli heilbrigðiskerfisins er ég ekki sjúklingur, hvað þá einstaklingur, heldur „eining“. Í huga vinnuveitenda minna til 25 ára er ég ekki starfsmaður eða manneskja, heldur reitur í Excel.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Miðvikudagur 6.3.2013 - 14:24 - FB ummæli ()

Áminning til alþingismanna

Mig langar að minna alþingismenn á Þingsályktun sem þeir samþykktu allir – já, ALLIR – þann 28. september 2010. Þar var ýmsu lofað og merki nú hver sem er við það sem staðið hefur verið við. En efst á lista, atriði númer eitt í I. kafla er endurskoðun stjórnarskrár.

Þingsályktun um viðbrögð Alþingis við skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis 2010

Þingsályktun um viðbrögð Alþingis við skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis 2010

Þingsályktun um viðbrögð Alþingis við skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis 2010

.

Viðbót:  Hinn landskunni bloggari, grúskari og hagspekingur, Marinó G. Njálsson, leyfði mér að bæta þessum athugasemdum sínum við pistilinn. Hann tók þeirri áskorun að kanna hvað hefði verið efnt af loforðunum í þingsályktuninni. Marinó segir:

Samkvæmt málflutningi formanns Sjálfstæðisflokksins eru þingmenn ekki bundnir af þingsályktunartillögunni sem samþykkt var 28. september 2010, og alls ekki þeir þingmenn sem kjörnir verða 27. apríl nk. Til hvers er Alþingi að samþykkja svona plögg, ef það er gert bara upp á punt? Annars væri áhugavert að skoða hvernig þingheimur hefur fylgt ályktuninni eftir, en í henni er vísað til 10 atriða með númerum sem skal endurskoða, löggjöf um nokkur málefni sem skal undirbúa og síðan átti að stofna sjálfstæða „ríkisstofnun sem fylgist með þjóðhagsþróun og semji þjóðhagsspá“. Eitthvað dvelur þann orminn langa!

Er að skoða breytingar á þeim lögum sem ályktað var að gera ætti breytingu á. Ein ákaflega áhugaverð breyting var gerð á lögum nr. 55/1991 um þingsköp Alþingis. Í síðustu málsgrein 13. greinar segir:

Fastanefndir skal kjósa á þingsetningarfundi Alþingis að afloknum alþingiskosningum og gildir kosningin fyrir allt kjörtímabilið.“ Þetta er mjög áhugavert ákvæði sem gæti breytt valdahlutföllum í nefndum við það eitt að þingmaður færi sig á milli flokka, eins og hefur verið nánast regla frekar en undantekning eftir að núverandi þingmenn voru kjörnir.

Ég dundaði mér við það yfir fótboltanum að skoða lögin sem nefnd eru í skjalinu að eigi að endurskoða. Niðurstaðan er sem hér segir:

l. 33/1944 (stjórnarskráin) – eru óbreytt
l. 55/1991 (þingsköp) – var breytt talsvert
l. 4/1963 (ráðherraábyrgð) – eru óbreytt
l. 3/1963 (um landsdóm) – nánast óbreytt
l. 73/1969 (um stjórnarráð) – ný heildarlög
l. 37/1993 (stjórnsýslulög) – einni grein breytt
l. 50/1996 (upplýsingalög) – smávægileg breyting
l. 70/1996 (skyldur starfsmanna ríkisins) – eru óbreytt
l. 129/1997 (um lífeyrissjóði) – ein breyting um hæfi stjórnarmanna
l. 79/2008 (um endurskoðendur) – engin breyting

Ekki er búið að setja löggjöf um fjármálamarkaðinn.
Ekki er búið að setja löggjöf um reikningshald og bókhald
Ekki hefur verið sett á stofn sjálfstæð ríkisstofnun til að fylgjast með þjóðhagsþróun og semja þjóðhagsspá.

Þannig að af 11 tilgreindum atriðum á listanum er hægt að haka við tvö og segja að þeim sé lokið. Og varðandi þessar þrjár rannsóknir, sem nefndar eru fyrir neðan. Veit ekki til þess að neinni þeirra sé lokið.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Föstudagur 1.3.2013 - 17:20 - FB ummæli ()

Hvað sem það kostar!

Mér finnst alltaf óskaplega gaman þegar ég sé útkomu skoðanakannana um meint fylgi stjórnmálaflokka og -hreyfinga. Þá rembast hinir ýmsu álitsgjafar við að spá í tölurnar og mynda huglægar ríkisstjórnir hægri-vinstri. Fréttastofur tala við „sérfræðingana“, stjórnmálafræðingana, sem velta sér spekingslega upp úr útkomu viðkomandi skoðanakönnunar og orðaflaumurinn er jafnvel ekki í neinu samræmi við svarhlutfall eða úrtak. Hvað þá skekkjumörk. Þetta er skemmtileg íþrótt en nákvæmlega ekkert að marka hana.

Ég skrifaði einu sinni pistil um skoðanakannanir sem hét Að kanna hug og móta skoðanir. Velti þar fyrir mér tilgangi skoðanakannana, mikilvægi þess að vita hvernig spurningar eru orðaðar og fleira í þeim dúr. Niðurlag pistilsins hljóðar svona: „Kannski er best að hafa varann á þegar kynntar eru niðurstöður skoðanakannana. Beita gagnrýninni hugsun og spyrja sjálfan sig um tilgang þeirra og hvort verið sé að reyna að móta skoðanir manns. Skoða fjölda í úrtaki, svarhlutfall og reikna sjálfur. Mannleg viðbrögð eru að vilja vera sammála meirihlutanum því fólk heldur að þar með sé það í „sigurliðinu“ hvort sem það er eitthvað sérlega eftirsóknarvert eða ekki. Er ekki meira virði að skoða hug sinn, pæla, tengja, skerpa á sjálfstæðri skoðun, vera heiðarlegur gagnvart sjálfum sér og samviskunni – og varast hugsunarlausa hjarðhegðun?“

Fyrr í dag setti ég fram á Facebook afskaplega óformlega, ólærða og algjörlega óundirbúna pólitíska greiningu á stöðunni eftir að hafa rennt yfir fjölmiðla dagsins. Stjórnmálafræðingum og alvörugefnum álitsgjöfum finnst þetta eflaust barnalegt og óvísindalegt bull og ég væri mjög sátt við það – enda gagnkvæmt.

Ég les að blaðra Bjartrar framtíðar sé sprungin og fylgið hrunið. Það tók hvað… mánuð?

Framsóknarflokkurinn er að toppa núna en þar sem meintir núverandi kjósendur eiga eftir að rifja upp spillingarsögu flokksins, auðsöfnun flokkseigendanna á kostnað almennings og deila í með meðalgreindarvísitölu þingmannanna má reikna með að blaðra Framsóknarflokksins verði sprungin í tætlur 1. apríl. Flokksmenn geta þá stungið höfðinu í steininn, kastað grjóti úr steinhúsi, stjórnað sér með stjórnleysi og gert það saman.

Sjálfstæðisflokkurinn gerði út um fylgið á landsfundinum um síðustu helgi. Aðeins gallhörðustu nýfrjálshyggjumenn, frambjóðendurnir sjálfir og nánasta fjölskylda kýs flokkinn enda segir Styrmir að hann sé ógeðslegur, prinsipplaus og stjórnist af tækifærismennsku og valdabaráttu. Hreinskilinn maður, Styrmir. Á fundum er boðið upp á te.

Fylgi Samfylkingar og Vinstri grænna í kosningunum mun ráðast af meðferð þeirra á stjórnarskrár- og kvótafrumvörpunum. Væntanlega munu ansi margir gullfiskar kenna þeim um að hafa ekki þrifið nógu mikinn skít eftir stjórnartíð Sjálfstæðisflokks og Framsóknar svo hrun hlaust af. Loforðasúpan í stærri málunum sem var svikin reynist þeim fótakefli dauðans.

Þá eru öll nýju framboðin eftir. Þau eiga eftir að kynna stefnumál sín svo enginn veit ennþá hvert kjörfylgi þeirra verður.

En það sem allir flokkar og framboð eiga sameiginlegt er, að eftir stjórnarmyndun verða þeir flokkar sem sitja í stjórn búnir að skafa stefnumálin inn að beini svo ekkert stendur eftir. Þá þurfa þeir ekki að standa við stóru orðin og munu skýla sér á bak við það, að miðla þurfi málum í samsteypustjórnum.

Mér finnst eins og ég hafi upplifað þetta áður – oft.

Þetta var pólitísk analýsa á stöðunni frá ólærðum sérfræðingi í engu – ekki einu sinni stjórnmálafræði. 🙂

Satt best að segja finn ég svolítið til með þeim sem ætla að kjósa Framsóknarflokkinn – eða segjast ætla að gera það. Flokkurinn hefur sjaldan eða aldrei komið betur út úr skoðanakönnunum og maður spyr sig hvaða fólk þetta er sem myndar fylgið. Það er að láta blekkja sig. Svo botna ég ekkert í fólkinu á landsbyggðinni sem ætlar að kjósa flokkinn. Þegar því er mikið niðri fyrir bölvar það „lattelepjandi liðinu í 101“ – en ætlar samt að kjósa lattelepjandi auðmann að sunnan sem leiðtoga lífs síns.

Mér verður líka hugsað til pistils sem ég skrifaði skömmu fyrir kosningarnar 2009 – Arfleifð Sjálfstæðisflokks og Framsóknar. Þótt liðin séu fjögur ár síðan ég skrifaði þetta stend ég ennþá við hvert orð. Það hefur ekkert breyst. Ég hef líka skrifað um framsóknarmann eða tvo, til dæmis þegar mér ofbuðu þöggunartilburðir Gunnars Braga Sveinssonar í pistlinum Sparnaðarhugmyndir framsóknarmanns. Gunnar Bragi er nú efsti maður á lista Framsóknarflokksins í norðvesturkjördæmi. Við getum rétt ímyndað okkur hvað hann myndi gera ef hann yrði menntamálaráðherra.

Mig grunar að meintir kjósendur Framsóknarflokksins sé gott fólk sem vill vel – en sé bara búið að gleyma. Gleyma hverjir eiga flokkinn, hverjir stjórna honum á bak við tjöldin, hverjir reka hann og fyrir hvaða fé. Ég ætla að minna þá aðeins á það því það hefur ekkert breyst.

Kastljós 25. nóvember 2008

.

DV 23. mars 2012

Auðæfi Framsóknar - Forsíða DV 23. mars 2012

Auðæfi Framsóknar - Forsíða DV 23. mars 2012

.

DV 15. febrúar 2013

Svona græddi klíkan - Forsíða DV 15. febrúar 2013

Svona græddi klíkan - Forsíða DV 15. febrúar 2013

´

Ég á óskaplega erfitt með að trúa því að fólk haldi að eitthvað hafi breyst hjá Framsóknarflokknum. Ný andlit eru ekki ávísun á neinar breytingar. Hvað ætli það séu margir úr þessum 40.000 manna hópi sem áttu að fá greitt frá Samvinnutryggingum sem íhuga að kyssa vöndinn og kjósa kvalara sína nú?

En sumir eru ekki sterkari á svellinu en svo að finnast þessi ágæta kona þess virði að kjósa Framsóknarflokkinn. Öðrum finnst svo gaman að hlæja að henni og vilja ekki missa hana af þingi. En sjá þeir hana fyrir sér í ráðherrastól? Maður spyr sig…

Gullkorn Vigdísar Hauksdóttur

.

Það fylgir því ábyrgð að kjósa í lýðræðislegum kosningum. Ábyrgð kjósenda er mikil – mjög mikil. Framsóknarflokkurinn er þekktur fyrir að fórna hverju sem er, gera hvað sem er til að komast til valda. Hvað sem það kostar. Fólk ætti að hafa það í huga þegar það hlustar á skrumið sem vellur nú um stræti og torg, dali og heiðar. Því hverfulli gerast þeir varla.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Laugardagur 16.2.2013 - 02:00 - FB ummæli ()

Þjóð í hlekkjum hugarfarsins

Torfbær

Torfbær

Fyrri hluta árs 1977 sat ég námskeið í nokkra mánuði. Einn af fyrirlesurunum var sagnfræðingur. Ég gleymi því ekki á meðan ég lifi hvernig ég upplifði það, þegar hann tætti í sig goðsögnina um rómantísku sveitasæluna sem manni hafði verið innrætt í skólabókunum frá fyrstu tíð. Hann tók til dæmis baðstofurnar fyrir – myndina sem dregin hafði verið upp í huga manns um notalegt og hlýtt baðstofuloftið þar sem húsbóndinn las úr Íslendingasögunum eða Saltaranum eða Postillunni á meðan annað heimilisfólk stundaði handverk ýmiss konar og hlustaði með andakt á lesturinn. Allir urðu margs vísari og fóru saddir og sælir í hlýtt bólið á skikkanlegum tíma. Sagnfræðingurinn hélt nú ekki!

Lýsingar hans voru af köldum kytrum þar sem fólk hírðist sársvangt og skjálfandi af kulda í öllum spjörum sem það átti; vindurinn gnauðaði um hverja rifu; fýlan af fólkinu, sem hafði ekki þrifið sig lengi, var óbærileg og blandaðist sums staðar fnyknum af kúamykjunni þar sem skepnurnar voru hýstar undir baðstofunni. Þó mátti hafa af skepnunum örlítinn yl. Fólkið reyndi að vinna sért til hita við handverkið, fæstir voru læsir eða skrifandi, tveir og þrír deildu rúmi og aðbúnaður var allur hinn ömurlegasti. Ég hlustaði af athygli.

Síðan eru liðin ansi mörg ár og ég hef lesið ótalmargar bækur með svipuðum lýsingum á lífi almúgans á Íslandi, einkum til sveita, því þéttbýlið myndaðist hér seint. Svo hef ég lesið lýsingar á aðbúnaði hinna efnaminni í þorpum og bæjum – og hann var lítið skárri.

Trílógía Jóns Kalmans

Trílógía Jóns Kalmans

Fyrir tæpum þremur árum skrifaði ég pistil sem ég nefndi Að fortíð skal hyggja. Pistillinn fjallaði um fortíðina, nútíðina og framtíðina. Þegar ég skrifaði þennan pistil hafði ég ekki lesið bækur Jóns Kalmans Stefánssonar, trílógíuna um Strákinn. Ég las þær ekki fyrr en fyrir ári síðan, þá allar þrjár komnar út í kilju. Ég las þær hverja á fætur annarri og fékk því mjög góða heildarmynd. Sögusviðið og -tíminn er umhverfi og tími ömmu minnar, sem ég nefni í pistlinum. Það er ekki lengra síðan en rúmlega 100 ár. Þeir sem hafa lesið bækurnar og pistilinn vita hvað ég meina.

Ég hef margoft velt því fyrir mér hvað hefur mótað íslensku þjóðarsálina. Sumir segja að genin muni. Um það skal ég ekki segja, en okkur virðist ómögulegt að hrista af okkur arf fyrri alda. Undirlægjuháttinn, þjónkunina við og gjörsamlega óverðskuldaða virðinguna fyrir yfirvaldi, gagnrýnisleysið, óttann og undanlátssemina. Íslendingar kyssa vöndinn viðstöðulaust og virðast ekki vilja rífa sig undan óréttlætinu – eða ekki þora. Kannski skilja þeir ekki raunverulega merkingu orðanna frelsi og lýðræði frekar en þegar Jörundur hundadagakonungur vildi veita Íslendingum frelsi frá Dönum árið 1809, eins og Andri Snær Magnason veltir fyrir sér í pistlinum Leitin að réttu orðunum. Þá skildu Íslendingar líklega ekki orðin frelsi og lýðræði. Skilja þeir þau ekki ennþá, 200 árum síðar?

Ég ætla að vitna í pistil sem ég skrifaði 19. júní 2010 sem hét Kúguð þjóð í tilvistarkreppu. Þar sagði ég m.a. þetta:

Við erum mest, best, fallegust, klárust, sérstæðust, ríkust… Ísland er nafli alheimsins sem veröldin snýst um. Auðvitað. En ekki hvað? Okkar ellefuhundruð ára saga miklu merkilegri en mörgþúsund ára saga annarra þjóða. Bókmenntaarfur okkar einstakari en Grikkja eða annarra margfalt meiri og eldri. Vitanlega. Við erum jú Íslendingar. En takið eftir: Við erum kúgaðir Íslendingar – ekki frjálsir…

En þrátt fyrir langþráð fullveldi og seinna sjálfstæði var eitt af einkennum íslenskrar þjóðar ævinlega þessi undarlega sátt við kúgunina. Það var eins og Íslendingar gætu ekki ímyndað sér líf án kúgunar í einhverju formi. Og þeir kölluðu meira að segja kúgunina stundum „frelsi“. Halldór Laxness varði allri ævinni í að benda á þetta í bókum sínum…

En allt kemur fyrir ekki. Þjóðarsálin hefur ekki losnað við að því er virðist inngróna viðurkenningu á endalausri kúgun. Hún kyssir vöndinn ítrekað – ár eftir ár, áratug eftir áratug – í þögulu þakklæti og með furðulega ómengaðri virðingu fyrir kúgara sínum. Þegar Íslendingar lýstu sig sjálfstæða þjóð árið 1944 var það í raun aðeins formbreyting – þeir skiptu um kúgara. Skiptu úr erlendri kúgun yfir í innlenda kúgun. Við vorum þjóð í hlekkjum hugarfarsins og erum enn. Lengra nær sjálfstæðið varla. Við erum kúguð þjóð í tilvistarkreppu að reyna að ná áttum…

Sumum finnst þetta eflaust harkaleg orð en mér er skapi næst að hafa þau enn harkalegri nú, þegar stefnir í að stór hluti þjóðarinnar ætli að kjósa yfir sig sömu kúgarana í vor og hafa þá yfirlýstu stefnu að halda þjóðinni í hlekkjum um ókomin ár. Þetta fólk ætlar að kjósa yfir sig – og okkur hin – aldagamla hlekki hins undirgefna hugarfars liðinna alda, auðmenn og kúgara almennings.

Eða eins og ég sagði í pistlinum sem ég tengdi í hér fyrir ofan, Að fortíð skal hyggja:

„Ég fyrirlít af öllu hjarta hugmyndir þeirra sem tala fjálglega um meint „frelsi“ til allra hluta – en meina í raun frelsi þeirra efnameiri til að græða og níðast á hinum efnaminni. Þeirra sem vilja að frumskógarlögmálið gildi um alla hluti – að hinir „hæfari“ lifi af – sem í raun þýðir að hinir spilltu og gráðugu verða ofan á en hinir heiðarlegu og nægjusömu verða undir.“

Því frelsi elítunnar er ekki frelsi almennings, munið það. Það er frelsi hinnar ríku og valdamiklu til að kúga okkur hin.

Ég upplifði ekki ósvipaða tilfinningu í maí 1993 og ég lýsti hér í upphafi, þegar ég horfði á sjónvarpsþættina Þjóð í hlekkjum hugarfarsins. Ég man að ég sat í sófanum, horfði áhugasöm á alla þættina og kinkaði kolli. Hugsaði: ‘Já, einmitt, svona var þetta’. Ég hafði lesið nóg og kynnt mér svo margt sem passaði við þá lýsingu á lífi Íslendinga fyrr á öldum sem þarna kom fram.

Skemmst er frá að segja að það varð allt vitlaust. Bændur nútímans tóku til sín gagnrýni þáttanna, þótt þeir ættu enga sök á neinu sem um var fjallað, og voru æfir. Sagnfræðingar tókust á um sögutúlkun.  Heitar blaðagreinar voru skrifaðar og sitt sýndist hverjum. Þáttagerðarmaðurinn, Baldur Hermannsson, var níddur í svaðið fyrir að viðhalda ekki hinni rómantísku sýn á fortíðina. Þó hafði hann mest af efninu upp úr ýmiss konar annálum og frásögnum frá fyrri tíð. Setti það svo í búning og sýndi í sjónvarpi. Þvílíkur glæpur!

Ég er búin að hafa þessa þætti í fórum mínum í tæp þrjú ár og finnst tími til kominn að birta þá – með góðfúslegu leyfi Baldurs. Reyndi að vinna þá, vista og hlaða inn í bestu mögulegu gæðum sem ég hef yfir að ráða í heimilstölvunni.

Mig langar að biðja fólk, sem hefur þrek til að horfa á alla þættina, að íhuga stöðu okkar í nútímasamfélagi í samanburði við það samfélag sem þarna er lýst. Vitaskuld hefur ótalmargt breyst á ytra borðinu. En hefur þjóðarsálin breyst og þroskast? Hugsið málið…

Þjóð í hlekkjum hugarfarsins

1. þáttur – Trúin á moldina – 2. maí 1993

.

2. þáttur – Fjósamenn á fiskislóð – 9. maí 1993

.

3. þáttur – Helvíti Húsavíkur-Jóns – 16. maí 1993

.

4. þáttur – Blóðskammarþjóðfélagið – 23. maí 1993

.

Að lokum er hér umræðuþáttur um þættina sem fram fór í Sjónvarpssal 25. maí 1993, eða tveimur dögum eftir sýningu síðasta þáttarins. Ég hafði ekki afrit af honum en hlóð honum niður af YouTube svo gæðin eru ekki söm og í þáttunum sjálfum.

Umræður um þættina „Þjóð í hlekkjum hugarfarsins“ – 25. maí 1993

.

Veltum svo fyrir okkur hvers vegna skáldið Sigfús Daðason orti þetta ógleymanlega ljóð:

Að komast burt

Svo mörgum bræðra vorra varð þetta að dýpstu hvöt lífs þeirra: að komast burt. Að komast burt úr foraðinu, og loftleysinu, og sjálfsánægjunni, hroka smádjöflanna, siðferðisdýrð þrjótanna; burt frá hinni sæluríku fylgispekt og hinu dáða uppburðarleysi og hinni guðdómlegu hræsni; burt frá allsleysi andans og doða lífsins. – Hvað sem það kostaði, einveru, annarlegar kvöldstundir, eld, járn, og sundurhöggna rót: að komast burt.

 

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Miðvikudagur 14.11.2012 - 05:23 - FB ummæli ()

Kínverska glópagullið glepur sýn

Halldór Jóhannsson

Halldór Jóhannsson

Þann 8. október 2012 hélt Halldór Jóhannsson, talsmaður Huangs Nubo og framkvæmdastjóri nýstofnaðra félaga hans, erindi í Háskóla Íslands í boði Konfúsíusarstofnunarinnar Norðurljósa og Viðskiptafræðideildar HÍ. Yfirskrift erindisins var „Tilraun kínversks einkafyrirtækis til að fjárfesta á Íslandi„. Þar var Halldór með gamla glærusýningu sem ég hafði haft í fórum mínum um alllangt skeið svo þar kom mér að minnsta kosti ekkert á óvart.

Við Jón Þórisson höfðum undir höndum samningsdrög GáF ehf. við annað af tveimur félögum Huangs Nubo, Zhongkun Grímsstaði ehf., sem og stofnsamþykktir GáF. Við spurðum Halldór ýmissa spurninga en fátt var um svör. Eiður Guðnason var þarna líka og leiðrétti ýmsar rangfærslur Halldórs. Hér er blaðagrein sem Eiður skrifaði í kjölfarið.

Seinna sama dag fórum við Jón ásamt Guðmundi Vilhjálmssyni, framkvæmdastjóra og vélstjóra á Húsavík, á fund ráðherranefndarinnar sem á að fjalla um Grímsstaðamálið og skera úr um það. Mættir voru tveir ráðherrar, Steingrímur J. og Ögmundur, en Katrín Júl og Svandís komust ekki. Auk ráherranna tveggja sat við borðið her aðstoðarmanna, skrifstofustjóra ráðuneyta og ráðuneytisstjóra.

Guðmundur las yfir nefndinni og veitti viðstöddum ómetanlegar upplýsingar um starfsemi Halldórs Jóhannssonar. Hann færði rök fyrir því af hverju Halldóri ætti ekki að vera treyst fyrir neinni starfsemi þar sem hagsmunir almennings og peningar koma við sögu. Í ljósi orða Guðmundar og þeirra gagna sem hann lagði fram er óverjandi ákvörðun að heimila undanþágu frá búsetuskilyrðum til handa Zhongkun Europe ehf., en eins og stendur í minnisblaði Efnahags- og viðskiptaráðuneytis dags. 12. júní 2012 þar sem undanþágan er réttlætt: „…en þess var sérstaklega getið að við afgreiðslu málsins hefði verið tekið tillit til þess að framkvæmdastjóri félagsins er íslenskur.

Bergur Elías Ágústsson, stjórnarformaður GáF ehf.

Bergur Elías Ágústsson, stjórnarformaður GáF ehf.

Eftir Guðmundar þátt Vilhjálmssonar gerðum við Jón nefndinni grein fyrir vitneskju okkar um Huang Nubo, GáF og Grímsstaðamálið. Við bentum á að ekkert kemur í veg fyrir að GáF ehf. verði selt daginn eftir undirritun samninga. Það væri t.d. hægt að selja félagið móðurfyrirtæki Z-Grímsstaða, Z-Europe ehf., og þá hefðu Halldór Jóhannsson og Huang Nubo öll spilin á hendi. Við bentum nefndinni líka á ótal stórhættuleg atriði í samningsdrögum GáF og Zhongkun Grímsstaða, enda eru samningsdrögin eins og gatasigti.

Ég minni á orð Noru Szikorovu, fræðimanns frá háskólanum í Bratislava, sem sagði í fréttaviðtali nýverið: „Kínverjar hafa annan skilning á viðskiptaháttum en Vesturlandabúar… Af þeim sökum skapast oft menningarlegur misskilningur… Ef þið setjið strangar reglur, eins og Kínverjar eru vanir, ættuð þið ekki að lenda í neinum vandræðum… en ef þið leyfið þeim að ráða ferðinni ganga þeir á lagið og gera allt sem þá lystir, meðan þeir mega.“ Þegar við Jón bentum á þennan menningarlega mun og vitnuðum líka í ummæli Sigrúnar Davíðsdóttur í einum af Spegilspistlum sínum, sakaði aðstoðarmaður Katrínar okkur um rasisma. Hann hafði nú ekki meiri skilning á málefninu en svo. Í lok fundarins tilkynntum við að við myndum gera opinber öll gögn sem við lögðum fram í anda gagnsæis.

Það er því óhætt að segja að ráðherranefndin hafi fengið gríðarlega miklar upplýsingar og haug af gögnum sem við skildum eftir. Ekki möguleiki að nefndarmenn geti borið fyrir sig eftirá að þeir hafi ekki vitað um hlutina.

Þegar hér er komið sögu ætla ég að rifja upp og benda á það sem áður hefur komið fram. Ég bendi á fyrri pistla mína um Kínagullið, GáF ehf., Huang Nubo, Grímsstaðamálið og landsöluna:  Allir vildu (kínverska) Drekann kveðið hafa, Keisarans hallir á Fjöllum og Fjallabaksleið með kínverskan kompás. Í þessum pistlum eru myndbönd, hljóðskrár, blaðagreinar og alls konar vísanir í slóðir sem geta hjálpað áhugasömum að fá heildarmynd af þessu máli. Ég ítreka það sem ég sagði í Keisarans höllum á Fjöllum að mér finnst stigsmunur en ekki eðlis á leigu og sölu í þessu tilfelli, sem og að ég hef ekki nokkra trú á að neitt verði byggt eða gert á Grímsstaðalandinu, eða ekkert í líkingu við loftkastalana sem kynntir hafa verið.

Eins og margir muna var Silfurviðtal við Juan Pablo Cardenal, spænskan rannsóknarblaðamann, í september. Juan Pablo hafði, ásamt félaga sínum, skrifað bók um fjárfestingar Kínverja í þróunarlöndunum. Þeir félagar ferðuðust til 25 landa í tvö ár og kom bók þeirra út á spænsku í nóvember 2011. Hún er væntanleg í enskri útgáfu í janúar 2013 með titlinum China’s Silent Army. Bókina er hægt að panta nú þegar á Amazon. Nú eru þeir félagar að safna efni í samskonar bók – en í þetta sinn um fjárfestingar Kínverja á Vesturlöndum, t.d. Kanada, Bandaríkjunum, Ástralíu og Evrópu. Þeir ætla að helga einn kafla Grænlandi, Íslandi og Noregi og tilefni heimsóknar Juans Pablo var að afla sér upplýsinga um m.a. Grímsstaðamálið og áætlanir um stórfelldar framkvæmdir á Langanesi eins og stórskipahöfn í Finnafirði og alþjóðaflugvöll norðan við Þórshöfn.

Huang Nubo og Íslandskortið

Huang Nubo og Íslandskortið

Framkvæmdirnar tengjast Grímsstaðamálinu og Huang Nubo órjúfanlegum böndum þar sem hönnuður og hvatamaður aðalskipulagsins er jú áðurnefndur Halldór Jóhannsson. Hann harðneitar öllum tengslum en í því sambandi má benda á mynd sem tekin var á blaðamannafundi Huangs Nubo í Peking haustið 2011 þegar til stóð að hann keypti Grímsstaðalandið. Á þessari merkilegu mynd er kort af Íslandi á bak við Huang Nubo. Takið eftir því, að Finnafjörður er merktur inn á kortið – það hef ég aldrei séð á svona yfirlitskorti. Smellið á myndina til að skoða kortið.

Í júlí birti ég grein eftir Þröst Jóhannsson, viðskiptafræðing sem búsettur er í Hong Kong, sem varð til þess að upp fyrir mér rann ljós. Þröstur þekkir til vinnubragða Kínverja og kínverskra banka. Hann skrifaði aðra grein sem birtist í Morgunblaðinu í október – Huang Nubo og sjósund. Í þessum greinum flettir Þröstur ofan af fjármálaklækjum og mögulegum fyrirætlunum Huangs Nubo – því hvers vegna ættu þær að vera öðruvísi en annarra kínverskra auðmanna eins og hann sýndi svo glögglega í sambandi við jarðarblettinn sem hann keypti í Tennessee og sagt er frá hér?

Í seinni greininni segir Þröstur m.a. þetta: „Undirstöður fasteignafyrirtækja í Kína eru land. Þegar búið er að eignast afnotarétt af landi er hægt að selja íbúðirnar sem þar á að byggja eingöngu út frá teikningum, sem kallað er að selja „off-plan“. Í Kína er slíkum viðskiptum ekki háttað eins og annars staðar, því fasteignafyrirtækin fá greidd 100% af verðinu fyrir íbúðina innan 2-3 vikna eftir að samningur hefur verið undirritaður, þótt langt sé í afhendingu.“ Huang Nubo getur semsagt farið með samningana í bankann, framselt þá, kippt með sér teikningunum af öllum húsunum og veðsett þær líka.

Huang Nubo og Hafnarfjörður - Þröstur Jóhannsson - Morgunblaðið 4. janúar 2012

Huang Nubo og Hafnarfjörður - Þröstur Jóhannsson - Morgunblaðið 4. janúar 2012

Áður en lengra er haldið er rétt að birta samningsdrögin og stofnsamþykktir GáF ehf. sem allir þurfa að skoða vandlega. Um er að ræða þrjá samninga:  1. Kaupsamning milli GáF og eigenda Grímsstaðajarðarinnar; 2. Samning um leiguafnot (3 km2); 3. Afnotasamning (300 km2). Eins og sjá má eru Leiguafnotasamningurinn og Afnotasamningurinn nær samhljóða. Báðir eru samningarnir ótímabundnir, framseljanlegir og leigan greidd fyrirfram í 60 ár. Síðan á að endursemja um framhaldið en enginn veit hvað þá hefur gerst, hvert eignarhaldið verður og hvort GáF ehf. verður yfir höfuð til. Engin tímamörk á framhaldinu eru tilgreind.

Allar byggingar (samtals áætlaðir 20.000 m2) og önnur mannvirki (golfvöllurinn, flugbrautin og hestabúgarðurinn?) eru veðsetjanlegar og gera skal sjálfstæða lóðarleigusamninga fyrir hverja lóð. Það verður því stór samninga- og teikningabunki sem Huang Nubo fer með brosandi í bankann (kannski kínverska bankann í Noregi) og veðsetur upp í rjáfur eins og blettinn í Tennessee – í ljósi þess sem Þröstur Jóhannsson segir í grein sinni sem ég tengi í hér að ofan.

Ekki er minnst á Jökulsá og Dettifoss heldur er Zhongkun veittur réttur „…til hagnýtingar á því grunnvatni, straumvatni eða stöðuvatni sem á landinu finnst …

Ekkert í stofnsamþykktum GáF ehf. kemur í veg fyrir að félagið sé selt eins og ég nefndi hér fyrir ofan. Samningana verður að skoða með það í huga, því ótalmargt í þeim veltur á afstöðu og heimildum GáF. Höfum einnig í huga að sveitarfélögin sem standa að GáF hafa enga fjárhagslega burði til að standa gegn því peningaveldi sem Huang Nubo hefur á bak við sig. Ekki heldur í skipulagsmálum svo hætt er við því að hann fái því framgengt sem honum sýnist og kemur sér best fyrir hann.

Við þá sem benda á lög og reglur hef ég þetta að segja: Við vitum öll að hjá yfirvöldum landsins, sveitarstjórnum, stjórnsýslu og hagsmunaaðilum eru lög og reglur bara upp á punt. Ef hentar eru þau brotin, sveigð fram og til baka, sniðgengin – eða þeim er einfaldlega breytt til að þjóna auðvaldi og hagsmunaaðilum. Viðurlög eru engin, eftirlit ekkert. Þetta hefur sannað sig svo oft að ég furða mig alltaf á þegar fólk segir að lagaramminn eða regluverkið sé svo gott að ekkert slæmt geti gerst. Enda var þáverandi iðnaðarráðherra fyrst til að heita Huang Nubo liðsinni við að sniðganga lögin eftir að honum var neitað um að kaupa jörðina – samkvæmt lögum. Og þáverandi efnahags- og viðskiptaráðherra skrifaði hjartnæmt minnisblað með rökstuðningi eins af hrunverjunum til að liðka fyrir kaupunum – þótt þau væru ólögleg. Mér er ekki kunnugt um hvort þetta forystufólk Samfylkingarinnar hefur skipt um skoðun á landsölumálum. Forseti Íslands styður auðvitað vini sína, Kínverjana, og hjálpar þeim að kaupa Ísland. Nema hvað!

Í gærkvöldi var fjallað um GáF og Grímsstaði í Kastljósi og rætt við Berg Elías Ágústsson, sveitarstjóra Norðurþings og stjórnarformann GáF ehf. Eins og fram hefur komið verður GáF eigandi jarðarinnar og Norðurþing hefur með skipulagsmálin að gera. Vald Bergs Elíasar er því gríðarlegt – á meðan hann situr í embætti sveitarstjóra og stjórnarformanns. Í máli hans kom ótalmargt fram sem stenst engan veginn nánari skoðun. Horfum og hlustum á viðtalið við Berg.

Kastljós 13. nóvember 2012

.

Jæja… eigum við að líta nánar á málið?

Bergur Elías talar um „fórnarkostnað“ upp á 2-3 milljónir EF leyfi fæst ekki til samninga. GáF hefur þegar fengið reikninga upp á 3,3 milljónir. Einn fyrir ráðgjöf (Atvinnuþróunarfélag Eyjafjarðar – Þorvaldur Lúðvík) upp á 2,5 milljónir og reikning fyrir lögfræðiaðstoð upp á 800.000. Reikningur fyrir ráðgjöf Atvinnuþróunarfélags Þingeyinga á eftir að berast og eflaust fleira. GáF hefur engar tekjur. Hver á að borga? Sveitarfélögin sem standa að GáF (það minnsta er með 350 íbúa alls)?

Bergur Elías viðurkennir að engir peningar renni til sveitarfélaganna í GáF – kaupverðið rennur beint frá Huang Nubo í einkavasa eigendanna. En hann segir að sveitarfélögin muni eignast landið að leigutíma loknum. Nei, Bergur, samningarnir eru ótímabundnir og endurnýjanlegir í ótilgreindan tíma eftir 60 ár. Engin trygging er fyrir því að Ísland muni nokkurn tíma eignast þetta landsvæði aftur og enginn veit í hvers höndum það verður eftir 60 ár þar sem samningarnir eru framseljanlegir frá undirritun.

Sveitarstjórinn segir að arður sveitarfélaganna af samningnum sé að örva hagvöxt á svæðinu og vonandi styrkja búsetuskilyrði á Norðausturlandi. Sveitarstjórinn fylgist mjög illa með því sem vitað er um fjárfestingar Kínverja á erlendri grundu. Kínverjar keyptu nýverið kolanámu í Kanada og auglýstu eftir starfsfólki eins og kanadísk lög gera ráð fyrir. Eitt skilyrðið var að umsækjendur þyrftu að kunna mandarín. Þeir flytja nefnilega inn allt vinnuafl, alls staðar í heiminum, efni til mannvirkjagerðar og tæki til að reisa mannvirkin. Í besta falli fellur til aukavinna fyrir tollafgreiðslumenn. Í samningsdrögunum segir: „Zhongkun Grímsstaðir ehf. mun leggja sig fram við að ráða innlent vinnuafl til starfa við þá uppbyggingu og rekstur sem það mun standa fyrir á Grímsstöðum á Fjöllum eins mikið og innlent vinnuafl er til staðar.“ Ætli þeir auglýsi eftir Íslendingum sem kunna mandarín? Og Össur Skarp er að semja við Kínverja. Þeir sækja fast… „…aukið svigrúm varðandi áritanir, dvalarleyfi og atvinnuleyfi…“ Þeir eru ekki að djóka, Bergur.

Allir muna eftir yfirlýsingum sveitarstjórnarmanna, talsmanns Huangs Nubo og ráðgjafans Þorvaldar Lúðvíks um að Huang myndi bara nota 1% af landinu og afgangurinn yrði fólkvangur. Málið er nú aldeilis ekki svo skorið og klippt. Í samningsdrögum segir: „Aðilar eru sammála um að kanna möguleika á að lýsa landið að hluta eða að fullu fólkvang…“ Þetta er orðað svona á öðrum stað: „Samningsaðilar munu skoða, í samstarfi við aðra eigendur jarðarinnar og skipulags- og umhverfisyfirvöld, möguleikana á að skilgreina opin svæði jarðarinnar að hluta eða fullu sem fólkvang…“ Afskaplega ótraustvekjandi, svo ekki sé meira sagt, og ekki afgerandi á nokkurn hátt.

Bergur segir að ákvæði um samþykki GáF um auðlindanýtingu og sölu á mögulegum auðlindum sem finnast í jörðu sé einmitt sett til að girða fyrir að farið yrði í meiri nýtingu auðlinda en með þarf til rekstrarins. Lítum á það sem gefið er veiðileyfi á í samningunum: Vatn í jörðu, grunnvatn, straumvatn, stöðuvötn, berg, grjót, möl, leir, sandur, vikur, gjall, mold, mór, surtarbrandur, jarðhiti, villtir fuglar og spendýr og veiði í ám og vötnum. Ef við lítum til þess að enginn veit hvernig eignarhaldi á GáF verður háttað er fyrirvarinn um leyfi félagsins nákvæmlega einskis virði og trygging fyrir skynsamlegri auðlindanýtingu engin. Bergur segir að skipulags- og umhverfisyfirvöld yrðu líka að gefa leyfi og þá spyr ég: Hvernig hafa þau staðið sig í hagsmunagæslu fyrir almenning í landinu? Er þeim treystandi inn í óvissa framtíð? Svari því hver fyrir sig.

Af hverju er ekki tryggt í samningunum að GáF skuli alltaf vera í samfélagslegri eigu? Bergur viðurkennir að það sé ekkert sem banni að GáF skipti um hendur. Ef einhver sér sér hag í að kaupa GáF – þá verður það selt. Sannið til.

Nýju fötin keisarans - Pétur Snæbjörnsson - DV 12. september 2011

Nýju fötin keisarans - Pétur Snæbjörnsson - DV 12. september 2011

Í sambandi við uppbyggingu á öllum innviðum þess samfélags sem þarna er áætlað að rísi og kostnaðinn við það nefnir Bergur Elías að á móti komi gatnagerðargjöld og fasteignagjöld „og svo koll af kolli“ (hvað sem það nú er). Hér er grein eftir Pétur Snæbjörnsson þar sem hann nefnir t.d. starfsmannahús, skóla, leikskóla, heilsugæslu og ég bæti við vegum, sorphirðu, rafmagni (svæðið er ótengt landsnetinu), klóaki, verslun og öllu því sem eitt samfélag þarf á að halda. Væntanlega innheimtast nú fasteignagjöld ekki fyrr en eitthvað hefur risið og ég hef ekki grænan grun um hvað Bergur á við með „koll af kolli“ sem á að gefa tekjur. Ekki er ljóst hvort sveitarfélagið Norðurþing borgar brúsann – þangað til einhverjar tekjur koma, ef þær koma – eða hvort sveitarfélögin sem standa að GáF þurfa að gera það.

Helgi nefndi kínverska fíaskóið í Kalmar í Svíþjóð. Það er rosaleg saga sem gerð var um heimildamynd sem heitir Chinatown. Hann nefndi líka misheppnaðar áætlanir um ferðaþjónustu í upplöndunum í Svíþjóð. Bergur Elías hafði ekki kynnt sér þessar sögur ítarlega – en segir þó að vítin séu til að varast þau. Ef Bergur hefur ekki kynnt sér vítin, hvernig getur hann þá varast þau? Bergur segir jafnframt að þeir séu með mjög skilyrt ákvæði í þeim samningum sem þeir skrifi undir, það sé bara þannig. Staðreyndin er sú, hvort sem mönnum líkar það betur eða verr, að Kínverjar líta samninga ekki sömu augum og Vesturlandabúar. Það geta allir staðfest sem verið hafa í viðskiptum við Kínverja og Juan Pablo Cardenal sagði mér ýmis dæmi um það. Hann bjó í Kína í 7 ár og hefur nú búið í Hong Kong í tvö ár. Það kemur fram í heimildamyndinni Chinatown. Hvort það er birtingarmynd menningarmunarins eins og Nora Szikorova sagði í fréttaviðtalinu þar sem þeir „…ganga á lagið og gera allt sem þá lystir, meðan þeir mega…“ eða eitthvað annað skal ósagt látið.

„Það er nú bara þannig að við höfum aflað upplýsinga eins og okkur hefur verið unnt um starfsemina. Það hefur einnig verið gert af hálfu stoðstofnana sem skoða erlendar fjárfestingar. Síðan er það þannig að okkar varnir byggjast náttúrlega í þeim samningum sem eru gerðir við fjárfestinn.“ Segir Bergur Elías. Miðað við þær upplýsingar sem ég hef aflað mér virðist Bergur Elías nú ekki vita mikið um Huang Nubo og starfsemi hans. Ef Bergur treystir Ívilnunarnefndinni sem Katrín Júlíusdóttir, þá iðnaðarráðherra, virkjaði til að komast í kringum lögin held ég að hann ætti að lesa og hlusta á pistil Sigrúnar Davíðsdóttur frá 24. júlí í sumar – Óburðugt mat á viðskiptatilburðum Huangs Nubo. Hann gæti fengið alvarlega bakþanka. Ég hef skýrslu og gögn Ívilnunarnefndar undir höndum en skjalið er því miður of stórt til að ég geti hlaðið því hér inn.

Varnir í samningunum eru engar. Þar er allt galopið og hriplekt. Ekki þarf að spyrja að leikslokum þegar sveitarfélögin hafa hleypt Huang Nubo inn með allt sitt fjármagn – og hver ræður þegar þar er komið sögu? Að trúa því að veikburða sveitarstjórnir hafi þar eitthvert ákvörðunarvald er í besta falli barnaleg einfeldni. Þú fyrirgefur, Bergur…

Minnst er á meinta starfsemi Zhongkun og Huangs Nubo annars staðar en í Kína. Sýnt var úr kynningarmyndbandi Zhongkun Group sem sett var á YouTube í september 2011. Ég sé ekki betur en að Ísland sé fléttað inn á mínútu 0:15 með íslenska hestinum og fjalllendi og hér er klippan úr myndbandinu þar sem bletturinn í Tennessee, sem sagt er frá hér, er kynntur sem búgarður með kúrekum og tilheyrandi. Þetta passar við ummæli í fréttum haustið 2011 þegar Huang Nubo var kynntur fyrir Íslendingum – ég tók stikkprufur og þetta er útkoman. Ég minni líka á þessi ummæli á heimasíðu Zhongkun Travel og ég sagði frá í sumar.  Allt blekkingar. Það er reyndar rangt sem Helgi segir að þetta hafi komið í ljós við eftirgrennslan og umfjöllun Spegilsins – það var ég sem kafaði ofan í þessi mál og sagði frá þeim í Fjallabaksleið með kínverskan kompás.

Bergur sagðist ekki hafa kynnt sér starfsemi Huangs Nubo á Vesturlöndum – enda er hún engin. Hann skoðaði hins vegar verkefni hans í Kína til að skilja hugmyndir hans um ferðaþjónustu á Grímsstöðum. Ekki tíundaði Bergur fleira um skilning sinn á „hugmyndafræði“ Huangs Nubo en „…þú ert með á tiltölulega afskekktum stað í friði og ró… glæsilegt hótel með góðri þjónustu og út frá því þá eru farnar svona dagsferðir.“ Þetta er auðvitað byltingarkennd „hugmyndafræði“ í ferðaþjónustu, eða hvað? Og Bergur… Grímsstaðir á Fjöllum eru 380 m yfir sjávarmáli, ekki 300. Það munar um minna á Íslandi, einkum þegar golfvellir eru annars vegar.

Mér þótti huggun harmi gegn að heyra Berg Elías segja að ekki væri hægt að krefjast endurgreiðslu á því sem þegar hefði verið greitt. Það er nefnilega klausa í kaupsamningnum sem var eitthvað að vefjast fyrir mér. Það er 5. málsgrein 2. greinar kaupsamningsins sem hljóðar svona: „Sá hluti kaupverðs sem kann að hafa verið greiddur, komi til riftunar samnings þessa, skal skiptast jafnt á milli kaupanda og seljanda þannig að kaupandi fái 50% upphæðarinnar og seljendur saman 50%.“ Málsgreinina túlkaði Þröstur Jóhannsson á þennan hátt – en tók jafnframt fram að skilningur hans væri mögulega rangur: „Í 2. gr. kaupsamnings kemur fram að ef samningi er rift eigi  Nubo að fá 50% af greiðslunni til baka. Þannig að ef Nubo getur ekki borgað seinni hlutann (hann getur komið með alls konar afsakanir fyrir að gera það ekki) og þar í framhaldi er samningi rift, þá hefur Nubo rétt á að fá endurgreiðslu helmings þessara 2,5 miljóna af fyrstu greiðslu. Hverjar eru líkur á því að seljendur rifti eftir 18-24 mánuði og neyðist þar af leiðandi til að endurgreiða Nubo 50%? Eru ekki líkur á að seljendur neyðist til að endursemja við hann?“ Hvernig túlkar Bergur þessa málsgrein?

Huang Nubo og sjósund - Þröstur Jóhannsson - Morgunblaðið 2. október 2012

Huang Nubo og sjósund - Þröstur Jóhannsson - Morgunblaðið 2. október 2012

Fram kemur í þessu myndbandi að Grímsstaðajörðin hafi verið til sölu um árabil fyrir 11 eða 12 milljónir. Af hverju bauð Huang Nubo 1.000 milljónir í jörðina? Hann keypti blettinn í Tennesse fyrir 110% hærra verð en hann hafði selst fyrir árið áður – og fékk því miklu hærri veðsetningu fyrir vikið. Sjáið þið ekki tengslin og tilganginn?

Bergur segir að þetta sé með nákvæmlega sama hætti og hjá öllum öðrum. Hann hefur greinilega ekki lesið greinar Þrastar Jóhannssonar. Miðað við það sem Þröstur hefur sagt um vinnubrögð og veðsetningar í kínverskum bönkum á leigusamningum um land og veðsetningu teikninga af húsum – þá er það bara alls ekki eins og hjá öllum öðrum, Bergur. Alls ekki með „hefðbundnum“ hætti. Og finnst fólki það ekkert nöturleg tilfinning að 0,3% af Íslandi sé veðsett í kínverskum bönkum? Kenndi Hrunið okkur ekkert?

Bergur Elías segist vilja skýr svör frá stjórnvöldum. Ég fer fram á skýr svör frá Bergi Elíasi.

Bergur segir að Huang Nubo hafi oft og tíðum ekki botnað upp eða niður í því hvað er að gerast og hvers vegna. Ég hef aldrei botnað upp eða niður í mótsagnakenndum yfirlýsingum Huangs Nubo um fyrirætlanir sínar, meint umsvif sín í heiminum og allra síst botna ég í þessari frétt frá kínversku ríkisfréttastofunni.

Ég hef fregnað að ráðherranefndin, sem hefur með málið að gera, fundi í dag. Það væri óskandi að hún tæki nú loks af skarið. Nefndin hefur nægar upplýsingar til að taka upplýsta ákvörðun.

 ——————————————————————

Þetta er orðinn langur og strangur pistill. Ég hef örugglega gleymt að nefna ótalmargt. Það getur verið mjög óþægilegt að vita of mikið um hlutina. Ég vil ítreka, að gefnu tilefni, það sem ég hef svo margoft sagt: Ég er ekki blaðamaður, hvað þá rannsóknarblaðamaður. Ég er bloggari með allt of mikla réttlætiskennd og yfirþyrmandi ást á landinu mínu. Takið viljann fyrir verkið.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Höfundur



Eldri færslur

Dagatal

mars 2024
S M Þ M F F L
« des    
 12
3456789
10111213141516
17181920212223
24252627282930
31