Fimmtudagur 10.05.2012 - 00:21 - FB ummæli ()

Allir vildu (kínverska) Drekann kveðið hafa

Íslendingar eru ginnkeyptir fyrir ýmiss konar gullæði og virðast ekkert hafa lært af hruninu. Sumir sjá ekki sólina fyrir dollaramerkinu (veljið mynt) í augunum og eru tilbúnir til að selja framtíð barnanna sinna fyrir skammtímagróða. Hvað sem er, hvenær sem er, hvað sem það kostar ef ÞEIR geta grætt á því. Núna.

Og nú ætla menn að verða olíufurstar og græða feitt á mögulegri olíuvinnslu sem kannski verður einhvern tíma á Drekasvæðinu. Mögulega.

Landinn var með innslag um Svartagullið 11. mars 2012

En mig langaði að benda á svolitla tengingu sem ég tel afar mikilvæga því hún tengir gullæðið og olíudraumana við norðurslóðasiglingarnar í von um hlýnun jarðar og áhuga Kínverja á norðausturhorni Íslands. Lítum á nokkrar fréttir frá í mars og júní 2011:

Fréttir Stöðvar 2 – 10. og 16. mars og 1. júní 2011

Stórir draumar á Langanesi og gjörsamlega óraunhæfir myndu sumir segja. En umrædd aðalskipulagstillaga Langanesbyggðar er hengd við pistilinn neðst ef einhver hefur áhuga á að skoða hana.

Maður er nefndur Halldór Jóhannsson, búsettur á Akureyri. Hann var m.a. kærður fyrir miðaklúður vegna HM árið 1995, og var hluthafi í frægri lakkrísverksmiðju sem sett var á fót í Kína 1992 (hvernig endaði það ævintýri?). Halldór rak síðast ráðgjafaþjónustuna Teikn á lofti sem – viti menn! – gerði einmitt  aðalskipulagið fyrir Langanesbyggð sem um var fjallað í fréttunum hér að ofan með stórskipahöfn, alþjóðaflugvelli og margföldun íbúafjölda. Teikn á lofti varð gjaldþrota í ágúst sl.

Halldór Jóhannsson kemur víðar við. Hann er skráður fyrir léninu www.drekiarea.is þar sem norðausturhornið kynnir sig og mögulega þjónustu sína. Allir sjá í hvað nafnið vísar – Drekasvæðið. Þarna er meira að segja 16 síðna bæklingur sem gerir ráð fyrir að aðalskipulagið verði samþykkt með stórskipahöfn, flugvelli og öllum pakkanum. Þótt gefin séu upp nöfn tveggja sveitarstjóra á síðunni er á baksíðu bæklingsins tilgreint hvern á að hafa samband við ef áhugi er fyrir hendi – engan annan en Halldór Jóhannsson.

En Halldór er stórtækari en þetta. Hann er einnig skráður fyrir lénunum www.arcticportal.org og www.arcticportal.is.  Íslenskt heiti fyrirbærisins er Norðurslóðagáttin ehf. og þar kemur Halldór Jóhannsson vitanlega við sögu. Eins og sjá má hér er hann einn stjórnarmanna ásamt m.a. Ragnari Baldurssyni, starfsmanni sendiráðs Íslands í Kína. Ragnar er þarna titlaður „Arctic Explorer“ – líklega eftir ferðina á Norðurpólinn með… já, „Íslandsvininum“ Huang Nubo. Takið eftir hönnuði síðunnar neðst –  Teikn Design. Halldór aftur? Ýmsir aðilar kosta síðuna, m.a. Utanríkisráðuneytið og Iðnaðarráðuneytið, svo þetta ævintýri Halldórs er alltént kostað af almenningi í þetta sinn. Fróðlegt væri að vita hve háar upphæðir af skattfé okkar hafa farið í þetta verkefni Halldórs Jóhannssonar. Utanríkisráðherra er svo hrifinn af framtaki Halldórs að fyrir utan fjárstuðninginn gaf hann  sér tíma til að skrifa Fréttablaðsgrein í mars 2011 til að mæra vefsíðuna. Fróðlegt væri að vita meira um tengsl Össurar og Halldórs.

Þegar hér er komið sögu ættu lesendur að vera farnir að átta sig á hver þessi Halldór Jóhannsson er – einmitt, aðstoðarmaður og talsmaður Huangs Nubo á Íslandi. Rifjum upp nokkrar fréttir um Grímsstaðamálið þegar það kom fyrst upp í ágúst í fyrra.

Fréttir Stöðvar 2 og RÚV 25. til 29. ágúst 2011

Fréttir Stöðvar 2 og RÚV 30. og 31. ágúst og 2. og 3. september

Ögmundur Jónasson í Kastljósi 31. ágúst 2011

Svo var það hrunhagfræðingurinn og æðarfuglinn á RÚV 9. nóvember 2011

Miðað við málflutning ráðherranna og framgöngu þeirra við að finna ráð til að láta Huang Nubo fá Grímsstaði og ívilnanir að auki er engin furða þótt fólk velti því fyrir sér hvort tengsl séu milli Samfylkingarinnar, svartagullsdrauma, Norðurslóðaáforma og Huangs Nubo. Eða eru þetta bara einhverjir einstaklingar sem vilja gera sig og vini sína ríka – NÚNA? Sama hvað það kostar?

Að lokum set ég hér inn skjáskot af vefsíðu Langanesbyggðar þar sem boðið var til þorrablóts á Þórshöfn í vetur. Hvort sem þetta er meint sem grín eða fúlasta alvara þá virðast a.m.k. sveitarstjórnarmenn farnir að læra kínversku og bjóða fólk velkomið á því flókna tungumáli – með dreka og tilheyrandi.

Þorrablót í Langansebyggð 2012 - Kínverska

Þorrablót í Langansebyggð 2012 - Kínverska

 

Aðalskipulagstillögur Langanesbyggðar – Teikn á lofti – Halldór Jóhannsson:

Greinargerð aðalskipulags og umhverfisskýrsla
Dreifbýlisuppdráttur
Þéttbýlisuppdráttur Þórshöfn
Þéttbýlisuppdráttur Bakkafjörður

Viðbót:

Aukafundur sveitarstjórnar Langanesbyggðar 2. maí 2012 

Og haldið þið ekki að Halldór Jóhannsson, ráðgjafi, hafi setið fundinn! Giskum svo á fyrir hverja skipulagið er hugsað.

Flokkar: Bloggar · Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af þremur og sex? Svar:

Höfundur



Eldri færslur

Dagatal

maí 2012
S M Þ M F F L
« apr   jún »
 12345
6789101112
13141516171819
20212223242526
2728293031