Mánudagur 23.07.2012 - 03:28 - FB ummæli ()

Keisarans hallir á Fjöllum

Fylgd eftir Guðmund Böðvarsson

Fylgd eftir Guðmund Böðvarsson

Ég hef lengi ætlað að skrifa pistil eða pistla um Grímsstaðamálið og sölu/leigu á landinu til kínverska fyrirtækisins Zhongkun. Nú hef ég sankað að mér svo miklu efni og upplýsingum um málið að varla er til setunnar boðið lengur þótt þetta sé afleitur árstími til að vekja athygli á málinu og spyrja spurninga. Ég tek það fram strax, að rétt eins og í Magma-málinu finnst mér stigsmunur en ekki eðlis að nú sé gjörningurinn kallaður „leiga“ til 2 x 40 ára. Ef samningar ganga eftir verður barn sem fæðist í dag orðið áttrætt þegar „leigusamningurinn“ rennur út. Og margt getur gerst á 80 árum eins og t.d. 20. öldin bar vitni um.

Einnig vil ég taka fram að ég hef ekki nokkra trú á að neitt verði byggt á Grímsstaðalandinu – eða ekkert í líkingu við það sem nefnt hefur verið. Mér þætti reyndar fróðlegt að heyra álit skipulagsstjóra á þeim loftköstulum. Ég held að aðalmál Nubos Huang sé að komast yfir landið enda hefur hann sótt það fast og lét þung orð falla í erlendum fjölmiðlum um Ísland og Íslendinga þegar Ögmundur Jónasson neitaði honum um að kaupa það. Margir hafa sagt hann handbendi kínversku stjórnarinnar og það er ekki ólíklegt, því enginn verður milljarðamæringur í Kína nema með stuðningi hennar. Enda þarf maðurinn að fá samþykki stjórnarinnar fyrir fjárfestingum sínum eins og aðrir Kínverjar.

Mér fannst rétt að byrja á nýjustu upplýsingunum um Nubo Huang og Grímsstaðamálið til að fólk átti sig á hvar málið er statt. Held svo áfram með frekari upplýsingar og upprifjun í pistlum á næstunni eftir því sem tími vinnst til. Minni á pistilinn Allir vildu (kínverska) Drekann kveðið hafa sem ég birti 10. maí. og hefur að geyma miklar upplýsingar. Líklega væri rétt að lesa hann á undan þessum, smella á tengla og horfa á myndbönd. Síðan er hér umfjöllun Kastljóss frá 15. maí og hér er nýjasti Spegilspistill Sigrúnar Davíðsdóttur um Nubo Huang. Einnig er vert að nefna umfjöllun í Vikulokunum síðasta laugardag þar sem málið var til umræðu.

Það er ekki auðvelt að nálgast upplýsingar um þetta mál og eins og fram kemur í Kastljósinu vita ábúendur á Grímsstöðum og eigendur jarðarinnar ekkert frekar en aðrir. Þeir sem um véla eru ekkert að flagga áætlunum sínum þótt um sé að ræða 0,3% af Íslandi og margir tala eins og okkur hinum komi þetta bara ekkert við. Því er ég mjög ósammála. Landið er okkar allra. En lítum á nýjustu fregnir af framvindu málsins.

Í 2. mgr. 3. gr. laga nr. 138/1994 um einkahlutafélög er kveðið á um að a.m.k. einn stofnenda félags skuli hafa heimilisfesti hér á landi nema ráðherra veiti undanþágu þar frá. Þá segir í 2. mgr. 42. gr. að minnst helmingur stjórnarmanna félags skuli vera búsettir hér á landi en ráðherra getur veitt frá því undanþágur. Skilyrðin eiga þó ekki við um þá sem búsettir eru innan EES-svæðisins, ríkisborgara OECD-ríkja og ríkisborgara aðildarríkja stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu eða Færeyinga.

Skemmst er frá að segja að efnahags- og viðskiptaráðherra, Steingrímur J. Sigfússon, veitti félögum Nubo Huangs allar þær undanþágur sem með þurfti. Sérstaklega var tekið tillit til þess að framkvæmdastjóri félaganna er íslenskur – en það mun vera Halldór Jóhannsson sem var í aðalhlutverki hér.

Málið lítur því svona út eftir undanþágur ráðherra:  Tvö kínversk félög fengu íslenskar kennitölur – Toreador Investment Co. og Zhongkun Investment Group.

Toreador Investment Co. og Zhongkun Investment Groupr - myndir úr Rel8

Toreador Investment Co. og Zhongkun Investment Groupr - myndir úr Rel8

Þótt ég hafi gúglað næstum í tvo tíma tókst mér ekki að finna neina starfsemi hjá Toreador Investment Co. (með eða án Beijing fyrir framan). „Toreador“ er reyndar algengt nafn sem þýðir „nautabani“ svo það þarf að vinsa úr. Ég tók á það ráð að bæta nafninu Huang við og fékk þá bara fréttir um stofnun félaganna í Viðskiptablaðinu. Ég lét Google þýða „Toreador Investment“ yfir á kínversku og gúglaði það – og fékk fjölmargar síður með veitinga- og stúlknaauglýsingum. Þá prófaði ég að gúgla Toreador Investment Group og viti menn – þrjár slóðir sem allar vísuðu beint hingað. Á son Nubos, Sichen Huang, sem sagður er framkvæmdastjóri Toreador Investment Group. Nákvæmlega engin starfsemi virðist vera í því félagi þótt það fái undanþágu til að stofna fyrirtæki á Íslandi. Skúffa?

Næsta skref í félagastofnuninni er að stofna móðurfélagið Zhongkun Europe ehf. (kt. 530612-1390) sem bendir til áætlana um frekara strandhögg í Evrópu með heimahöfn á Íslandi. Í stjórn Zhongkun Europe eru þrír kínverjar með íslenskar kennitölur – Nubo Huang sjálfur, fyrrnefndur Sichen Huang, sonur Nubos og aðstoðarforstjóri Zhongkun Investment Group, Hong Xu að nafni. Ég veit ekki til þess að þau tvö síðarnefndu hafi nokkurn tíma komið til Íslands – en það getur verið rangt. Ef til vill eru þau miklir Íslandsvinir, kennitölur fengu þau án fyrirstöðu og þau þurftu ekki að sitja á biðstofu Útlendingastofnunar.

Zhongkun Europe ehf - kt. 530612-1390 - Mynd úr Rel8

Zhongkun Europe ehf - kt. 530612-1390 - Mynd úr Rel8

Því næst stofnar Zhongkun Europe ehf. dótturfélagið Zhongkun Grímsstaði ehf. (kt. 590612-0490). Það er félagið sem mun „leigja“ Grímsstaðajörðina af GáF ehf., félagi sem sex sveitarfélög stofnuðu til að skuldsetja sig upp í rjáfur. Ætlunin er nefnilega að fá lánaðan tæpan milljarð hjá Nubo Huang til að borga einkaaðila fyrir jörðina. Sveitarfélögin verða sem sagt skulbundin Nubo Huang fjárhagslega, líka það sveitarfélag sem hefur skipulagsvald á svæðinu. Skynsamlegt og traustvekjandi, ekki satt?

Zhongkun Grímsstaðir ehf. - kt. 590612-0490 - Mynd úr Rel8

Zhongkun Grímsstaðir ehf. - kt. 590612-0490 - Mynd úr Rel8

Eins og sjá má eru sömu aðilar í stjórn beggja kínversku félaganna, þau Nubo Huang (kt. 030656-2379), Sichen Huang (kt. 300487-4249) og Hong Xu (kt. 030671-3179). Ég reyndi að fletta þeim upp í þjóðskrá en ekkert kom upp. Ég hringdi þá í þjóðskrá og var sagt að útlendingar sem ekki væru með heimilisfesti á Íslandi og fengju kennitölur í fjárfestingarskyni eða af öðrum ástæðum færu á svokallaða „utangarðsskrá“. Sú skrá er lokuð og ef maður vill fá upplýsingar úr henni þarf að sækja um þær og rökstyðja umsóknina. Svarið verður svo já eða nei eftir atvikum. Á Íslandi er jú svo opið og gegnsætt þjóðfélag.

Nubo Huang, Sichen Huang og Hong Ku - Myndir úr Rel8

Nubo Huang, Sichen Huang og Hong Ku - Myndir úr Rel8

Svona lítur þessi angi málsins út eins og ég kemst næst: Einkahlutafélagið GáF ehf. í eigu sex sveitarfélaga fær 1.000 milljónir (eða þar um bil) lánaðar hjá Nubo Huang. Ég hef ekki upplýsingar um hvernig eignarhlutur skiptist niður á sveitarfélögin sex. GáF ehf. kaupir jörðina Grímsstaði á Fjöllum af þeim eigendum sem vilja selja. Kaupverðið fer semsagt í einkavasa – ekki í ríkiskassann eins og margir virðast halda. Fjármunir þessir verða álitnir „fyrirfram greidd leiga“, væntanlega fyrir fyrstu 40 árin. Ef svo er reiknast leigan u.þ.b. 25 milljónir á ári ef miðað er við milljarðinn.

Allt á þetta eftir að fara í gegnum allar mögulegar hendur í stjórnsýslunni. Fátt hefur staðist af því sem Huang hefur sagt eins og rakið var í pistli Sigrúnar Davíðsdóttur í síðustu viku. Lítið sem ekkert er í raun vitað um Nubo Huang eins og Magnús Sveinn Helgason nefndi í Vikulokunum. Það eru því fá kurl komin til grafar enn og flýtirinn við að koma jörðinni í hendur þessa huldumanns er með öllu óskiljanlegur. Ef fyrirhuguð kaup/leiga verða leyfð af íslenskum yfirvöldum og skrifað undir bindandi samninga er hætt við að margir nagi sig í handabökin innan mjög skamms.

Til umhugsunar: Í haust var gerður bindandi kaupsamningur við eigendur Grímsstaðalandsins með fyrirvara um samþykki sem fékkst ekki. Samningurinn er hér. Á sama tíma skrifaði Nubo Huang ráðherra bréf – eða „Memorandum of understanding“ – í hverju ég fæ ekki betur séð en hann tíundi það sem hann vill að ríkið geri (við skattborgarar) gegn því að hann kaupi jörðina. Hann hyggst halda alls konar dýr á jörð sem var friðuð fyrir sauðbeit fyrir 20 árum vegna þess hve viðkvæmt landið er á þessum slóðum. Hann á allan rétt en við eigum að leggja vegi, halda við flugbraut og fleira. Mun hann gera sömu kröfur til „leigusalanna“, þ.e. sveitarfélaganna sex? Þetta er magnað plagg – eða hvað finnst ykkur?

Memorandum of understanding – Grímsstaðir haustið 2011

Minnisblað til ráðherra - Memorandum of understanding

Minnisblað til ráðherra - Memorandum of understanding

Fleiri pistlar um málið með ógrynni upplýsinga eru í bígerð. Þeir sem búa yfir upplýsingum mega gjarnan senda mér línu á larahanna@simnet.is

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af fimm og einum? Svar:

Höfundur



Eldri færslur

Dagatal

júlí 2012
S M Þ M F F L
« jún   ágú »
1234567
891011121314
15161718192021
22232425262728
293031