Laugardagur 07.11.2009 - 20:12 - 2 ummæli

Meiri hræðsluáróður

Í gær sagði RÚV frá nýrri skýrslu Krabbameinsstofnunar Bandaríkjanna sem þótti sýna að offita væri krabbameinsvaldandi.  Hafa þessar niðurstöður að vonum farið eins og eldur í sinu um veröldina, eins og aðrir heimsendaspádómar varðandi offitu. En hvað er hér á ferðinni?

Við höfum lengi vitað að offita tengist ýmsum heilsufarsvanda. Það sem við vitum ekki er hvort fitan valdi þessum vanda eða hvort orsakaþættirnir séu aðrir, eins og slæmt mataræði, hreyfingarleysi, streita, þyngdarsveiflur o.s.frv.  Sama vandamálið um tölfræðileg tengsl og orsakir. En jafnvel þótt það eigi eftir að koma í ljós að offita sé hinn raunverulegi orsakavaldur, þá breytir það ekki þeirri staðreynd að við höfum engar leiðir til að breyta feitu fólki í grannt fólk. Eftir þrotlausar tilraunir í heila öld erum við engu nær um hvernig við náum fram varanlegu þyngdartapi. Flestir sem grennast þyngjast aftur. Þannig er það bara. Og þyngdarsveiflur eru sjálfar tengdar við heilsuleysi og sjúkdóma. Svo hvað eigum við að gera?

Niðurstaðan er alltaf sú sama. Við einbeitum okkur að því að lifa heilbrigðu og ánægjulegu lífi, miðað við þær forsendur sem við höfum. Meira getum við ekki gert. Við höfum enga beina stjórn á líkamsþyngd okkar og þess vegna gerir hræðsluáróður, eins og að „offita valdi krabbameini“ lítið gagn. Við getum ekki bara ákveðið að hætta að vera feit þótt okkur sé sagt að það sé hættulegt. Þrátt fyrir að við hreyfum okkur og borðum hollan mat, þá verða sum okkar samt áfram feit.

Það er akkúrat þetta sem gerir offitu ólíka öðrum heilsufarsmálum, þar sem fræðsla getur skipt máli. Ef við heyrum af því að líkurnar á því að lifa af bílslys séu betri ef öryggisbelti eru notuð, þá er auðvelt fyrir okkur að bregðast við. Þessar upplýsingar gera það að verkum að við nennum að setja á okkur beltið, verknaður sem tekur um 3 sekúndur og kostar ekki neitt. Svipaða sögu má segja um notkun sólarvarna. Okkur er sagt að útfjólubláir geilsar sólarinnar séu skaðlegir fyrir húðina og því þurfi að verja hana með klæðnaði eða sólarvörn. Þessu er auðvelt að verða við. Kostar kannski smá, en miðað við hættuna á því að fá krabbamein virðist það lítil fórn. Reykingar eru öllu erfiðari. Það er mjög erfitt að hætta að reykja, en ekki ómögulegt. Reykingar eru hegðun og þess vegna eitthvað sem við getum haft stjórn á. Um leið og við erum búin að drepa í síðustu sígarettunni þá erum við hætt að reykja. Við þurfum ekki að tékka á því seinna hvort það hafi tekist. Ef við erum hætt, þá erum við hætt.

Holdafar er aftur á móti ekki hegðun. Holdafar er útkoma margra samverkandi þátta og við höfum ekki stjórn á öllum þeirra. Það þýðir að við getum gert allt rétt (borðað fjölbreyttan mat, hreyft okkur reglulega, sofið vel, minnkað streitu o.s.frv.) en samt ekki verið í „réttri“ þyngd. Þetta er ástæðan fyrir því að hræðsluáróður gagnast ekki. Við getum ekkert gert við þessar upplýsingar.

Það að vera stöðugt æpandi um skaðsemi offitu er svipað og að vera sífellt að núa karlmönnum því um nasir að lífslíkur þeirra séu minni en kvenna. Að þeir eigi frekar á hættu að fá ýmsa lífsstílstengda og arfgenga sjúkdóma, auk þess sem líkur á að meiðast og deyja í slysum séu meiri. Hvað myndi það gagnast ungum drengjum að alast upp við slíkan áróður? Það eina sem nokkur manneskja getur gert er að lifa heilbrigðu lífi í þeim líkama sem henni var gefinn. Hvort sem sá líkami er karlkyns eða kvenkyns, lágvaxinn eða hávaxinn, feitur eða grannur.

Flokkar: Heilsa óháð holdafari · Samband þyngdar og heilsu · Stríðið gegn fitu · Þyngdarstjórnun

«
»

Ummæli (2)

  • Guðjón H. Sigurðsson

    gaui (ekki litli)
    Nákvæmlega það sama sem ég hugsaði þegar ég las þessa grein. – Takk fyrir góða greiningu!
    -ghs

  • Eruð þið kannski aðeins að fara fram úr ykkur?

    Offita er það líkamsástánd þegar umframlíkamsfita hefur safnast upp í slíkum mæli að það getur haft skaðleg áhrif á heilsu viðkomandi.

    Venjulegt feitt fólk, hvers holdarfar hefur ekki skaðleg áhrif á heilsu þess, er þegar af þeirri ástæðu ekki offeitt.

    Maður verður ekki feitur eingöngu vegna slæmra lífstílsákvarðana, en offeitur verður maður heldur ekki ef maður lifir sæmilega heilbrigðu lífi.

    Það lífmynstur sem veldur offitu eykur líkurnar á sumum tegundum krabbameina, mjög mikið m.a.s. þegar kemur að leghálskrabbameini í konum of krabbameini í lifur hjá körlum.

    Það er rétt að offita sem slík veldur ekki endilega krabbameini, ekki frekar en það eykur líkurnar á bílslysum að nota ekki bílbelti.
    ‘Offeitir í meiri hættu …’ hefði þess vegna verið betri fyrirsögn.

    En áróðurinn fyrir því að fólk forðist að verða offitu að bráð á rétt á sér.

    Fólk gerir sér grein fyrir því að það er munur á feitu fólki og offitusjúklingum, rétt eins og mjóu fólki og átröskunarsjúklingum.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af átta og tveimur? Svar:

Höfundur

Líkamsvirðing er vettvangur þeirra sem vilja breytt samfélagsviðhorf varðandi útlit, heilsu og holdafar. Við viljum efla heilbrigði í víðum skilningi, vellíðan og virðingu fyrir fjölbreyttum líkamsvexti. likamsvirding@gmail.com