Laugardagur 09.01.2010 - 14:02 - 13 ummæli

Skelfilega jólaspikið


Það er ömurleg mynd utan á Fréttablaðinu í dag. Þetta er mynd af uppstækkaðri bumbu þar sem verið er að klípa í magaspikið undir fyrirsögninni: Að losa sig við jólakúluna – einkaþjálfarar gefa góð ráð. Skilaboðin eru skýr: Það er ljótt að vera með magaspik og eitthvað sem þú þarft að losna við. Sorglegt að þetta hafi ratað á forsíðu blaðsins, eins og til þess að tryggja að enginn fari á mis við þessi brýnu skilaboð, ekki einu sinni ólæs börn. Það er einmitt svona sem fitufordómum er viðhaldið í íslensku samfélagi.

Af hverju finna fjölmiðlar sig alltaf knúna til þess að fjalla um líkamann af slíkri vanvirðingu – sérstaklega um þetta leyti? Það er eins og byrjun nýs árs skuli ávallt marka upphafið að sérstöku líkams-haturs tímabili, þar sem fólk sekkur sér í ófullkomnleika holdsins með skömm og sjálfsfyrirlitningu að leiðarljósi, iðrast þessara ímynduðu og uppblásnu synda yfir jólin (sem eiga nota bene að vera hátíð ljóss og friðar) og einsetja sér að gera stranga yfirbót á fyrstu vikum janúarmánaðar. Þetta sorglega ritúal er kaldrifjað markaðsplott megrunar- og líkamsræktargeirans og skammarlegt að fjölmiðlar skuli taka virkan þátt í þessu.

Þessi samanteknu ráð fjölmiðla- og líkamsræktarfólks ala á þeirri ranghugmynd að örfáir dagar af veislumat og konfekti – það er ekki nema ein vika milli jóla og nýárs – hafi dramatísk og langvarandi áhrif á þyngdina. Þetta gerir lítið annað en að viðhalda almennri taugaveiklun í sambandi við mat og þyngd þar sem fólk ímyndar sér að hvers lags undanlátssemi dragi alvarlegan dilk á eftir sér. Ég verð að viðurkenna að ég hef aldrei séð þessa gríðarlegu þyngdaraukningu sem á að eiga sér stað yfir jólin. Ég hef ekki tekið eftir því að fólk mæti áberandi bústnari aftur til leiks eftir hátíðirnar.

Auðvitað getur verið að einhverjir bæti á sig yfir jólin. Það eru kannski helst þeir sem fá bjúg af því að borða mikið unnin og saltaðan mat, þeir sem almennt lifa meinlætalífi og halda þannig þyngd sinni lægri en þeim er eðlislægt (líkamar sem búa við króníska fæðutakmörkun nota tækifærið og hamstra um leið og færi gefs) og síðan þeir sem haldnir eru einhverskonar át-truflunum. Alveg eins og hátíðirnar eru áhættutími fyrir þá sem þjást af alkóhólisma er hætta á því að þeir sem þjást af átröskun „detti í það“ yfir jólin.

En þessir hópar eru ekki meginþorri íslensku þjóðarinnar og það er ekkert sem segir að jólin hafi í för með sér markverða þyngdaraukningu fyrir meirihluta fólks. Ennfremur er ekkert sem segir að aðhald í mataræði eftir áramót séu réttu viðbrögðin fyrir þá sem þyngjast. Almennt ýtir fæðutakmörkun undir ofát og því klárlega ekki réttu viðbrögðin – heldur einmitt það sem heldur vítahringnum gangandi.

Svarið við óhófi felst í jafnvægi. Venjulegu, öfgalausu lífi.

Ég geri mér litlar vonir um að megrunar- og líkamsræktargeirinn, sem byggir afkomu sína á þeirri hugmynd að líkaminn sé ljótur, óheilbrigður og þarfnist endurbóta, snúi við blaðinu. En það er einlæg von mín að fjölmiðlafólk, sem hefur engra sérstakra hagsmuna að gæta við að upphefja neikvæðan áróður og fordóma um holdafar, sjái að sér fyrr en síðar. Finnst ykkur ekki kominn tími til þess að binda endi á þessa vitleysu? Ég hvet ykkur til að hjálpa fólki að leggja niður vopn í stríðinu við líkama sinn. Auðveldið fólki að ná sáttum í eigin skinni með jákvæðri og fordómalausri umfjöllun um heilsu og holdafar. Og hættið í eitt skipti fyrir öll að halda á lofti neikvæðum staðalmyndum á síðum dagblaðanna.

Flokkar: Fitufordómar · Útlitskröfur

«
»

Ummæli (13)

  • Guðmundur Guðmundsson

    Ég er sammála. Það var dapurlegt að fletta Fréttablaðinu í morgun en ég er hræddur um að þú munir þurfa að bíða lengi eftir því að fjölmiðlafólkið taki sig á.

    Það virðist ekki vera til sá íslenskur blaða- eða fréttamaður sem fjallar um mataræði og holdafar af lágmarksþekkingu og í staðinn fyrir að afla sér hennar éta þeir þvættinginn upp úr sjónhverfingamönnum sem allir sem einn eru að selja eitthvað drasl.

  • Elva Björk

    Flottur pistill Sigrún! Mér fannst ömurlegt að sjá þetta í morgun í Fréttablaðinu.
    Mér finnst svo innilega vera kominn tími til að fjölmiðlar átti sig á því að um leið og þeir reyna að viðurkenna að fólk sé í eðli sínu með ólíkt vaxtalag og að mikilvægt sé að bera virðingu fyrir því, og margt annað en hið granna útlit getur verið fallegt, þá viðhaldast miklir fordómar gagnvart öðru en ákveðnu vaxtalagi með einmitt svona fréttum, þ.e. mikilvægi þess að losna við „hin hræðilegu“ aukakíló !!

  • Heyr, heyr. Ábyrgð fjölmiðlafólks er mikil. Þessi öfga-og hræðslutónn sem fer í gang gagnvart meintum aukakílóum er hvimleiður.

  • Brottfluttur

    Sigrún

    Góð grein.

    Varðandi pælingar þínar með líkamsræktarbransann.

    Finnst þér það líka fordómar að hvetja einhvern til að koma sér í form líkamlega?

    Þetta að vera í formi líkamlega er auðvitað bara að hluta til spurningum um útlit heldur heilsu viðkomandi.

    Ef viðkomandi er of þungur má áætla að hann eigi einnig erfiðara um vik með alla hreyfingu, að hjarta, æða-og lungu viðkomandi fái ekki eðlilega „notkun.

    Einnig hefur leggur of mikil þyngd auknar byrðar á stoðkerfi viðkomandi sem gerir hann aftur líklegri til að þróa með sér krankleika því tengdu.

    Það leiðir eitt af öðru, sem sagt.

    Finnst þér þá umræðan um að vera við góða heilsu, í formi, einnig vera dæmi um fordóma?

  • Sveittur

    Það er löngu orðið ljóst, að ofát og offita er versta heilsufarsvandamál vesturlandabúa. Við þetta bætist svo kyrrseta og vanþjálfun líkamans. Heilbrigðisyfirvöld og heilbrigðisstéttir hafa margsinnis bæði bent á þetta og haldið uppi áróðri fyrir því að fólk borði ekki meira en það þarf og þá fyrst og fremst hollan mat. Nú hafa upp á síðkastið risið upp einstaklingar, sem nota svipaðan áróður og þessi pistilskrifari fyrir því að þetta sé nú kannski ekki svo voðalega hættulegt. Það skyldi nú ekki vera að þessir einstaklingar séu annað tveggja áróðursmenn framleiðenda óhollustunnar, svo sem eins og íslensku bændamafíunnar, ellegar bara nytsamir sakleysingjar, sem trúa áróðri fituframleiðenda og vilja í makræði sínu komast hjá því að taka á sínum málum? Það er augljóst að ekki verður um árangur að ræða í því að lækka meðalþyngd fólks og auka líkamsþjálfun nema með því að fólk sem er of feitt og með BMI yfir 25 verði sjálft að borga fyrir ALLA heilbrigðisþjónustu. Sama eigi reyndar einnig við um reykingafólk og þá sem nota áfengi.

  • Ingólfur Bjarni

    Ég held að það sé heillaráð fyrir þá sem hafa bumbu eins og þá sem sýnd er á myndinni, að losa sig við nokkur aukakíló – hvort sem það er með betra mataræði, hreyfingu eða hvoru tveggja.

    Þó það væri ekki nema fyrir bakið og kransæðarnar.

    Myndin: http://vefblod.visir.is/getFile.php?type=image&file=1_1_366.jpg

  • Dagný Daníelsdóttir

    Herra „Sveittur“, ég á ekki til aukatekid ord yfir ummæli tínu. Tvílíkt hatur. Ég get vart trúid tví ad tér sé alvara. Mér tykir ekki skrítid ad tú skrifir undir dulnefni, ekkert undarlegt vid ad tú TORIR ekki ad standa undir tessum stóru ordum. Og vardandi BMI studul 25, hefur tú séd manneskju med studul 26..27..28..?? Tad hef ég , og tér dytti ekki í hug ad kalla tá manneskju of feita eda veika eda hefta á nokkurn hátt. Mér tykir tú framúrskarandi dæmi um mann med fituhatur, og tad ad fordæma eda mismuna manneskju á grunni holdarfars er ekkert odruvísi en ad mismuna vegna litarháttar eda kyns. Holdarfar er ad mestu leyti lífrædilega og genalega fyrirætlad og vid getum adeins haft minni háttar varanleg áhrif á útlit okkar.

    Tad ad reykja er ekki tad sama og ad vera feitur. Reykingar er val, holdarfar er ekki val. Tó ég búist ekki vid ad tú vidurkennir tá stadreynd, mér heyrist tú vera einn af teim sem enntá lifa í teim misskilningi ad „allir geta verid grannir ef teir bara nenna tví“

  • Dagný Daníelsdóttir

    p.s. nú heldur tú eflaust ad ég sé sjál of feit og tad sé tess vegna sem ég bregst svona vid ummæli tínu… en samkvæmt tinni tillogu tyrfti ég ekki ad borga alla mína heilbrigdistjónustu sjálf tar sem bmi stodull minn er undir 25. En tad breytir engu um tad hversu fordóma- og hatursfull mér tykir tillaga tín.

  • Ég hef alltaf talið að vera í góðu líkamlegu formi, ekki endilega svaka mjó eða einhvert vöðvafjall, væri mín samfélagslega ábyrgð.

    Að vera nokkuð nálægt kjörþyngd og með sterk lungu og gott hjarta yrði til þess að ég þyrfi ekki á aðstoð samfélagsins að halda. Ég þyrfti sjaldan að nýta mér sjúkrahús eða að fara á heilsugæslustöðvar sem samfélagið borgar fyrir.

    Þurfum við ekki aðeins að hugsa út fyrir okkur sjálf, hvernig sem við lítum út, að við berum ábyrgð ekki aðeins á okkur sjálfum heldur öllu samfélaginu.

  • Spurningin er hvort kom á undan eggið eða hænan, eru þessi aukablöð ekki stór tekjulind fyrir fjölmiðlana þess vegna eru þau gefin út, burt séð frá því hvað fjallað er um. Þeim sem kaupa auglýsingu er boðin umfjöllun við hæfi í blaðinu.

    Ég bara spyr, hefur lífræði mannsins eða orðið einhver gena stökkbreyting hjá mannkyninu sl. 30 ár? Er það ástæða þess að ofþyngd og offita hefur aukist eins og raun bera vitni á vesturlöndum? Þeir sem fara að afmarka sig við einhverjar fáar ástæður fyrir breyttu holdarfari eru komnir á villigötur, vandamálið er mun flóknara en það að hægt sé að segja að það sé að mestu líffræðilegt eða genalegt. En því verður ekki hægt að neita að offita hefur áhrif á lífsgæði fólks til lengri tíma. Ofþyngd þarf ekkert endilega að skipta svo miklu máli sérstaklega ef lífsvenjur eru í lagi. Þ.e.a.s hreyfing, nægur svefn og eðlilegt mataræði sé til staðar.

  • Mín skoðun

    Dagný Daníelsdóttir skrifar „Reykingar er val, holdarfar er ekki val“.

    Ég er því ekki sammála, það á kannski við í einhverjum tilvikum en í flestum tilfellum velur fólk það sem það borðar og í hve miklu magni og sama á við um hreyfinguna, fólk velur hvort það liggur áfram í sófanum eða fer og hreyfir sig.

    Vona að ég verði ekki stimplaður hatursmaður fyrir þessa skoðun mína. 🙂

  • Dagný Daníelsdóttir

    Tegar ég segi ad holdarfar sé ekki val meina ég ad tad er ekki ollum edlislegt ad vera med bmi studul 18- 25. Madur getur verid vid hesta heilsu tó studull mann sé mun hærri. Bmi studull gefur, ad mínu mati, afar villandi hugmynd um líkamlega heilsu fólk. Tar er til ad mynda ekki reiknad inn blódfita, blódtrýstingur, hve oft manneskjan nælir sér í pestir, stress level og svo mætti lengi telja. Tví midur festast margir tví ad líta á BMI studull sem „sannleikann um heilsuna“. Ég get sagt af eigin reynslu ad tegar bmi studull minn lá milli 20-22 hef ég aldrei verid vid verri heilsu tó svo ad samkvæmt studlinum ætti líkamlegt ásigkomulag mitt ad vera í toppi.
    Ég ætla mér ekki ad reyna ad stimpla alla sem tykri offita vandamál sem hatursmenn, langt tví frá. En tad er stór munur á tví ad vilja fólki betra líf og heilsu med gódu matarædi og hreyfingu, og tví ad útskúfa og refsa fólki sem ekki passar inn í ákvednar stalmyndir. Mér tykri tad frekar ógedfelt og ég tala nú ekki um villimannslegt. Leidin til ad hjálpa fólki sem ekki lifir gódu lífi vegna offitu er ekki ad vekja hjá tví skomm og nidurlæginu heldur ad kenna tví ad elska líkama sinn og vilja fara vel med hann. Og ad vid, samfélagid, sættum okkur vid ad tad er til feitt fólk! Feitt fólk sem lifir frábæru lifi, vid góda heilsu, sem bordar hollan mat og hreyfir sig reglulega. Sumir eru bara feitir af náttúrunnar hendi. Tad er komid árid 2010, komin tími til ad vid áttum okkur á fjolbreytileika manna. Tad eru allir búnir ad hoppa á vagninn vardandi kyn, litarhátt og kynhneigd. Nú er komin tími til ad vid vidurkennum hodarfar fólks og hættum ad mismuna á grunni tess.

  • Frábærir pistlar hjá þér Sigrún og mjög þörf umræða sem þú hefur komið af stað. Talandi um neikvæða umfjöllun fjölmiðla þá kíkti ég á visi.is og sá vinstra megin undir Ísland í dag – ‘staðið við áramótaheitin í ræktinni’. Þar eru tekin hallærisleg viðtöl við fólk sem hefur rifið sig upp fyrir allar aldir og hamast á brennslutækjum til að bæta fyrir ‘syndir’ hátíðanna. Ég fékk aulahroll að horfa á þessa umfjöllun…

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af tveimur og sex? Svar:

Höfundur

Líkamsvirðing er vettvangur þeirra sem vilja breytt samfélagsviðhorf varðandi útlit, heilsu og holdafar. Við viljum efla heilbrigði í víðum skilningi, vellíðan og virðingu fyrir fjölbreyttum líkamsvexti. likamsvirding@gmail.com