Miðvikudagur 20.01.2010 - 21:39 - 3 ummæli

Fæðubótarefni

Í DV í dag er umfjöllun um fæðubótarefni sem enginn ætti að láta framhjá sér fara. Þessi bransi hefur vaxið ógnarhratt hér á landi og er nú orðinn svo stór og voldugur að hann hefur efni á því að heilaþvo fólk með auglýsingum, söluræðum dulbúnum sem heilsuupplýsingum og gylliboðum allan sólarhringinn. Maður vonar auðvitað að fólk geri sér grein fyrir því að það sem hljómar of gott til að vera satt, er yfirleitt ekki satt, en miðað við hversu vel þessar vörur seljast er það borin von. DV greinir frá því að um 600 tonn af fæðubótaefnum hafi verið flutt til landsins í fyrra – sem er líklega vanmat ef eitthvað er.

Allir ættu að kynna sér gagnrýna umræðu um þessi efni og almennt allt sem selt er undir því yfirskyni að það hafi undraverð áhrif á líkamann, lagi flestalla kvilla á svipstundu og – rúsínan í pylsuendanum – stuðli að betri línum og bættu útliti. Sérstaklega ættu foreldrar að vera vakandi fyrir neyslu barna sinna á þessum efnum, sem geta komið í ýmsu formi, s.s. drykkjum, töflum og dufti. Það eru þrjú atriði sem helst ber að hafa í huga varðandi fæðubótarefni og benda til þess að þau sé gagnslaus peningasóun – jafnvel heilsuspillandi – frekar en heilsubót:

1. Töframáttur. Varan á að stuðla að gríðarlegri vöðvauppbyggingu, hröðu þyngdartapi og laga allt frá hausverkjum til krabbameins.

2. Reynslusögur. Helsta auglýsingabragðið er að birta ummæli neytenda – sem enginn veit hvort eru sönn eða login – og geta auðvitað engan veginn talist dæmigerð. Engu að síður er þetta mikið notuð og áhrifarík sölutaktík.

3. Heilbrigðisstarfsmenn mæla ekki með vörunni. Að öllu jöfnu fást allt önnur svör hjá heilbrigðisstarfsfólki en söluaðilum og það eitt ætti að vekja tortryggni.

Sem sagt, ef þú ert að velta fyrir þér að kaupa vöru sem á að vera allra meina bót, en engar upplýsingar um áhrif eða árangur fást fyrir utan nokkur meðmæli neytenda, sem að öllum líkindum fá ágætis umbun fyrir, og hrósyrði seljenda og framleiðenda, þá skaltu hugsa þig tvisvar um.

Fullt af fólki hefur lent inni á spítala vegna ofneyslu á „heilsubætandi“ efnum. Mörg þeirra eru alveg stórvarasöm, sérstaklega ef þeirra er neytt í miklu magni. Vandinn er að flest fæðubótarefni eru auglýst með loforðum um stórkostleg áhrif, sem býður ef til vill upp á misnotkun, þar sem fólk keppist við að ná fram þeim áhrifum sem lofað var í auglýsingunni.

Sömuleiðis er gott að benda á að nikótín, kókaín og hass eru allt „náttúruleg“ efni því margir eru farnir að líta svo á að allt sem finnst í ómengaðri náttúrunni hljóti að vera heilsusamlegt en annað sé heilsuspillandi gervidrasl. Svona svart-hvítur hugsunarháttur gerir fólk að gagnrýnislausum neytendum heilsubótaiðnaðarins. Sem er akkúrat það sem bransinn vonast eftir.

Flokkar: Megrun · Útlitskröfur

«
»

Ummæli (3)

  • Jónas Sveinsson

    Góðir punktar, en mér finnst ekki sanngjarnt að spyrða öll fæðubótaefni saman í einn „hættulegan“hóp.

    Tökum próteinduft til dæmis. Það er ekkert nema prótein, einn af fjórum macronutrients (man ekki íslenska orðið) líkamans. Vissulega er hægt að overdósa á próteindufti, en það gildir líka um kjúklingabringur, skyr og egg.

    Ég nota sjálfur próteinduft ásamt próteinríkri fæðu til þess að uppfylla þá próteinþörf sem líkaminn þarf til að byggja upp þá vöðva sem ég æfi í lyftingasalnum. Ég er ekki að þamba sheik í öll mál að drekkja mér í próteinum, heldur bara nota þetta sem aðstoð við að koma í mig nægu próteini (með áherslu á _nægu_).

    Skoðum t.d. aðeins próteinþörfina. Miðað við tvö grömm á kíló, sem er nokkuð temmilega áætlað fyrir einstakling sem er að byggja upp vöðva, þá erum við að tala um ca. 220 grömm á dag. Það er svona sirka eitt kíló af kjúklingabringum, eða 2.5 kíló af skyri, eða 35 egg. Vissulega er vel hægt að innbyrða þetta magn af próteinum í gegnum mat, en ég skammast mín ekkert fyrir að fá mér próteinshake eftir æfingu til að koma byggingarefninu sem fyrst til vöðvanna. Og svo bragðast það líka vel 🙂

    Hydroxycut og hvað allt það kjaftæði heitir, já blessuð vertu. Töflurnar sem eiga að „gefa þér meiri orku“ eða „auka brennslu“, ég gef lítið fyrir það drasl. En það eru ekki allir neytendur fæðubótaefna ginningarfífl sem falla fyrir óraunhæfum gylliboðum. Vildi bara koma því á framfæri.

  • Alma María

    Ég er sammála þér Sigrún og tel að allt of margir láti ginnast af gylliboðum auglýsinganna. Ég veit þó að fyrir þá sem hreyfa sig mjög mikið getur verið þægilegt að grípa í einn próteindrykk í stað stórrar máltíðar. En þá er ég líka að tala um fólk sem hreyfir sig MIKIÐ. Ég hef sjálf notað próteindrykk eftir að ég er búin að hlaupa 20-30km til þess að hjálpa líkamanum að ná inn töpuðum efnum eins fljótt og auðið er.
    Það skiptir líka máli þá að vanda valið á fæðubótarefninu.
    Fyrir manneskju sem er að reyna að létta sig og hreyfir sig létt í líkamsræktarsalnum er alls engin þörf fyrir fæðubótarefnum heldur eingöngu hollum og góðum mat.
    Langar að benda á þessa uppfjöllun í tengslum við umfjöllun um próteinþörf.

    http://www.landlaeknir.is/Pages/649

  • Hver þarf eiginlega 2 grömm af próteini á hvert kg líkamsþyngdar? Mýta sem komin er frá framleiðendum próteindufta.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af sjö og átta? Svar:

Höfundur

Líkamsvirðing er vettvangur þeirra sem vilja breytt samfélagsviðhorf varðandi útlit, heilsu og holdafar. Við viljum efla heilbrigði í víðum skilningi, vellíðan og virðingu fyrir fjölbreyttum líkamsvexti. likamsvirding@gmail.com