Föstudagur 26.02.2010 - 21:11 - 12 ummæli

Offituherferð Obama

obama diet

Í kringum síðustu mánaðarmót ýtti forsetafrú Bandaríkjanna, Michelle Obama, úr vör herferð sinni gegn offitu barna. Lengi hefur tíðkast að eiginkonur forseta Bandaríkjanna sinni hugðarefnum sínum opinberlega með þessum hætti til þess að halda jákvæðri ímynd Hvíta hússins á lofti. Hver man t.d. ekki eftir Just Say No herferð Nancy Reagan? Í slíkar framkvæmdir fara iðulega miklir fjármunir og virðist ekki skipta öllu hvort baráttan sé líkleg til árangurs eða ekki, því hún er ekki síður hugsuð sem PR brella en samfélagsbetrun. Að minnsta kosti er óhætt að segja að Just Say No herferðin hafi mistekist. Vonandi verður herferð núverandi frúar Hvíta hússins, Let’s Move, ekki þekkt fyrir svipaða einfeldni og skilningsskort gagnvart þeim vanda sem hún á að leysa.

Það er vel þekkt strategía hjá þeim sem vilja ráða að hamra á ábyrgð einstaklinga þegar þeir eiga í höggi við illviðráðanleg samfélagsvandamál sem tengjast fátækt,  stéttaskiptingu og annarri ömurð. Það er hins vegar ekki hægt að horfa framhjá því að möguleikar fólks til þess að stýra eigin lífi eru æði misjafnir og þeir sem dvelja neðst í þjóðfélagsstiganum hafa oft lítið val um hvernig þeir „kjósa að lifa“. Það verður því spennandi að sjá hvort þeim 150 milljörðum dollara, sem verja á í offituherferð Hvíta hússins, verði varið á uppbyggilegan hátt til þess að brúa bilið milli ríkra og fátækra og skapa öllum skilyrði til heilbrigðara lífs óháð efnahag, eða hvort þessum peningum verður að mestu varið í ímyndarherferðir forsetahjónanna, hatursherferðir gegn feitu fólki og peningagjafir til megrunar- og líkamsræktariðnaðarins.

Við fyrstu sýn virðist Let’s Move áætlunin sett fram á skynsamlegum nótum. Markmiðin fjalla um að auka aðgengi að næringarríkum mat á viðráðanlegu verði, bæta hollustu skólamáltíða og auka hreyfingu meðal barna. Ekkert nema gott um það að segja. En það er sorglegt að þessar breytingar þurfi að byggja á fordómafullum (og fullkomnlega óraunhæfum) fyrirheitum um að „útrýma offitu“ meðal barna á einni kynslóð. Fjölbreytileiki í líkamsvexti er eðlileg staðreynd og okkur mun aldrei takast að koma í veg fyrir hann. Jafnvel þótt allir í heiminum lifðu heilbrigðu lífi yrðu sumir áfram feitir og aðrir mjóir, þótt líklega yrði minna um mestu öfgarnar. Það er einstaklega ógeðfellt, ef maður hugsar út í það, að ætla að útrýma þessum breytileika og ber vott um bæði umburðarleysi og mannfyrirlitningu. Það sem við ættum að gera í staðinn er að skapa öllum tækifæri til þess að lifa heilbrigðu lífi og taka burt hindranir á borð við tímaleysi, fjárskort, skömm vegna líkamsvaxtar, fitufordóma og annað sem kemur í veg fyrir að fólk  hugsi vel um líkama sinn. Það mun að sjálfsögðu ekki útrýma feitu fólki, en það mun gera okkur öll—grönn og feit—heilbrigðari og hamingjusamari.

Ekki er hægt að segja að herferð Obama fari sérstaklega vel af stað. Eitt af því fyrsta sem birtist í fjölmiðlum var viðtalvið forsetafrúna þar sem hún segir frá því að dætur þeirra hjóna hafi verið farnar að fitna en henni hafi sem betur fer tekist að grípa í taumana. Barak Obama hafði áður lýst því yfir opinberlega að yngri dóttir þeirra væri orðin ansi þybbin… Hefur þetta kallað á hörð viðbrögð átröskunar- og mannréttindasamtaka ytra sem gagnrýna áherslur hjónanna. Meðal annars birtist þetta bréf frá móður átröskunarsjúklings sem stofnaði foreldrasamtökin F.E.A.S.T., þar sem hún reynir að vísa frú Obama áleiðis til betri vegar. Baráttusamtök feitra í Bandaríkjunum, NAAFA, hafa einnig sent frá sér yfirlýsingu sem lesa má hér.

Ég verð að viðurkenna að framganga Obama hjónanna vekur engar sérstakar vonir um að hér fari fólk sem hafi skýran skilning á þeim vanda sem þau ætla að leysa. Fólk sem talar opinberlega um holdafar dætra sinna á neikvæðan hátt án þess að velta fyrir sér áhrifum þess á ungar stúlkur hefur að öllum líkindum takmarkaðan skilning á hugtökum eins og líkamsmynd eða líkamsvirðingu. Ekki virðist heldur mikill skilningur á því að stúlkur bæta oft á sig upp úr 8-10 ára aldri þegar líkami þeirra fer að undirbúa sig fyrir kynþroska. Það er slæmt að stúlkum sé kennt að líta á þessar eðlilegu breytingar neikvæðum augum og gefur eflaust tóninn fyrir því að konur líti á sín kvenlegu líkamssvæði (brjóst, maga, rass og læri) sem „vandamálasvæði“. Það er sorgleg staðreynd að ævilangt haturssamband margra kenna við líkama sinn hefst oft í kringum kynþroska.

Það er von mín að þessi vandræðagangur í upphafi Let’s Move herferðarinnar séu aðeins byrjendamistök en ekki ávísun á það sem koma skal. Það má ekki gleyma því að góð heilsa snýst um meira en bara mataræði og hreyfingu. Ekki er síður mikilvægt að líða vel í sjálfum sér og búa í umhverfi þar sem mannvirðing og umburðalyndi ríkja—því það er engin heilsa án geðheilsu.

Flokkar: Stríðið gegn fitu

«
»

Ummæli (12)

  • Það er hrein unun að lesa þína pistla. Segir mér líka hvað það er mikilvægt að það fagfólk fjalli um þessi mál svo stóra myndin gleymist ekki.

  • Þetta er sláandi ! Góður og þarfur pistill – eins og allir þínir pistlar.

  • Offita er það líkamsástánd þegar umframlíkamsfita hefur safnast upp í slíkum mæli að það getur haft skaðleg áhrif á heilsu viðkomandi.

    Baráttan gegn offitu er ekki barátta gegn feitu fólki.

  • Flottur pistill!

    En tekur þú eftir því að á myndinni þá er barnið sem er með mest utan á sér haft nánast í felum!

  • Flottur pistill … Það er ekki nóg með að barnið sem hefur mest utan á sér er haft í felum, heldur er hann ekki innan faðms móðir sinnar…
    Ég er með átröskun og veit fyrir víst að þessi herferð mun hella ólíu á eld þeirra stúlkna sem eru 7-11 ára og eru með örfá aukakíló.. að kalla þær feitar eða of þungar yfir höfuð er mjög hættulegur stimpill..

  • Bara ef fleiri foreldrar bæru hag barna sinna jafnvel fyrir brjósti og Mr. & Mrs. Obama.

  • Hei Jóhanna og eftir atvikum Sigrún Þöll.

    Þessi á vinstri hönd Mrs. Obama er ekki Obama Jr.

  • Danton-María

    Er ekki of mikið lesið í myndina af fjölskyldunni?

    Ég get ekki séð að verið sé að tala um feitt fólk af neikvæðni, aðeins bregðast við miklum heilsufarsvanda sem er offita. Það er ágætt að Obama-hjónin tóku til í eigin ranni áður en þau fóru í gang með átakið.

    Eitt er að vera með nokkur aukakíló en offita á meðal barna í Bandaríkjunum er því miður staðreynd sem þarf að bregðast við.

  • Baráttan gegn offitu virðist oft vera mjög einfeldingsleg, sérstaklega í BNA.

    Oft er eins og menn álíti að hor og heilsa fari saman.

    Að því horaðra sem fólk er þeim mun hraustara, að þótt hin svokallaða kjörþyngd sé eftirsóknarverð þá sé jafnvel enn betra að vera innan kjörþyngdar.

    Ég held t.d. að það sé allt í lagi að fólk (stórt fólk) sé allt að 10 kíló yfir kjörþyngd ef það á annað borð er hraust, hreyfir sig mikið og borðar vel (þ.e. borðar hollan mat). Ef menn leggja áherslu á þetta tvennt, hreyfa sig og borða vel, þá hopar offitan.

    En ég held að frú Obama sé ákveðinn vandi á höndum. Ef bandaríkjamenn myndu nú hætta að drekka þessi lifandis býsn af sykruðum gosdrykkjum (og éta tilbúið ruslfæði í annað hvert mál og sælgæti í magnpakkningum) þá myndi offituvandamálið nánast leysast af sjálfu sér. En forsetahjónin geta í rauninni ekki beitt sér gegn t.d. sykruðu gosdrykkjunum, þá myndi hreinlega allt fara á annan endann. Þau yrðu sennilega sökuð um landráð. Þannig að Michelle greyið þarf að klæða boðskapinn í mörg lög af bómull til að stuða örugglega ekki gosdrykkjaframleiðendur og aðra ‘big business’ hagsmuni.

  • Danton-María

    Nokkuð til í þessu, Anna.

    Annars efast ég um að verið sé að hvetja fólk til að vera horað. Það er á engan hátt gott að vera of horaður eins og það er ekki gott að vera of feitur, heilsunnar vegna.

  • Flottur og góður pistill Jóhanna, eins og venjulega.

    Það má nefnilega ekki gleyma að börnin gera ekki eins og við segjum heldur eins og við gerum 😉

    Maður lærir það sjálfur þegar maður eignast börn og finnur það á eigin skinni :Þ

    Manni þarf nefnilega líka að þykja væntum sig þó maður sé með aukakíló eður ei til að geta tekist á við vandan – það gleymist oft! Og finnst mér sum komment hér vart svara verð!

    Góðar stundir

  • It’s black’s move.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af fjórum og fjórum? Svar:

Höfundur

Líkamsvirðing er vettvangur þeirra sem vilja breytt samfélagsviðhorf varðandi útlit, heilsu og holdafar. Við viljum efla heilbrigði í víðum skilningi, vellíðan og virðingu fyrir fjölbreyttum líkamsvexti. likamsvirding@gmail.com