Fimmtudagur 06.05.2010 - 08:57 - 4 ummæli

Megrunarlausi dagurinn er í dag

blom

Megrunarlausi dagurinn (International No Diet Day) er alþjóðlegur baráttudagur gegn megrun, átröskunum og fordómum vegna holdafars. Árið 1992 stofnaði Mary Evans Young, fyrrum átröskunarsjúklingur, International No Diet Day til þess að vekja athygli á skaðlegum áhrifum útlitsdýrkunar og mismununar í garð þeirra sem falla utan hins viðurkennda ramma um æskilegan líkamsvöxt. Síðan þá hefur skipulögð dagskrá verið haldin víða um heim árlega þann 6. maí til þess að vekja athygli á þjáningum sem hljótast af þráhyggju um grannan vöxt og almennri andúð á fitu. Á þessum degi eru allir hvattir til þess að láta af viðleitni sinni til þess að grennast, þó ekki væri nema í einn dag, og leyfa sér að upplifa fegurð og fjölbreytileika mismunandi líkamsvaxtar og sjá fyrir sér veröld þar sem megrun er ekki til, þar sem hvers kyns líkamsvöxtur getur verið tákn um hreysti og fegurð og mismunun vegna holdarfars þekkist ekki.

Á þessum degi viljum við:

  • fagna margbreytilegum líkamsvexti af öllum stærðum og gerðum
  • minna á rétt ALLRA til heilbrigðis, hamingju og velferðar óháð líkamsvexti
  • lýsa yfir opinberum frídegi frá hugsunum um mat, megrun og líkamsvöxt
  • vekja athygli á lítt þekktum staðreyndum um megrun, heilsu og holdafar
  • minna á hvernig megrun og stöðug krafa um grannan vöxt er samfélagsleg atlaga gegn konum
  • minnast fórnarlamba átraskana og hættulegra megrunaraðferða
  • berjast gegn andúð á líkamsfitu og fordómum vegna vaxtarlags.

Megrunarlausi dagurinn hefur verið haldinn hátíðlegur á Íslandi síðan 2006. Hægt er að lesa um Megrunarlausa daga liðinna ára hér en í ár verður stefnan tekin á Kringluna og Smáralind, þar sem hressir sjálfboðaliðar munu dreifa barmmerkjum og lesefni og bjóða fólki að stíga á sérhannaða Vei! vigt, sem sýnir jákvæð lýsingarorð (töff, frábær, heillandi) í staðinn fyrir tölur. Allir að kíkja!

Flokkar: Samfélagsbarátta

«
»

Ummæli (4)

  • Finnst þessi dagur frábært framtak, vona að sem flestir eigi góðan megrunarlausan dag og bara njóti þess að vera það sjálft 😉

    Langar líka að nota þetta tækifæri og þakka þér fyrir fróðlega pistla í gegnum tíðina.

  • Til hamingju med daginn! Ædislegt framtak og ég gaman ad sjá fólk vakna til umhugsunnar. Vona ad tessi dagur verdi fastur punktur í dagatali fólks hédan í frá:)

  • Góður dagur og gott framtak! Megrunaræðið hefur virkað sem hryðjuverk gegn sjálfstrausti kvenna.

  • Frábært framtak. En sjáið hvernig fólk við þurfum að glíma við daglega. Þessi bloggfærsla var skrifuð í gær og mér finnst hún skammarleg.

    http://www.dv.is/blogg/verold-tobbu/2010/5/6/eg-er-ogedsleg/

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af tveimur og sjö? Svar:

Höfundur

Líkamsvirðing er vettvangur þeirra sem vilja breytt samfélagsviðhorf varðandi útlit, heilsu og holdafar. Við viljum efla heilbrigði í víðum skilningi, vellíðan og virðingu fyrir fjölbreyttum líkamsvexti. likamsvirding@gmail.com