Þriðjudagur 11.05.2010 - 12:29 - 3 ummæli

Hugleiðingar um þyngd

crying scale

Í síðustu viku fóru sjálfboðaliðar á vegum Megrunarlausa dagsins á stúfana og buðu fólki að stíga á vigt sem sýndi jákvæð lýsingarorð í staðinn fyrir kílóatölur. Hugmyndin var að rjúfa þann neikvæða vítahring þar sem fólk notar vigtina sem allsherjar dómara og leyfir henni að ráða því hvort það sé ánægt með sjálft sig og lífið eða ekki. Ef vigtin sýnir ásættanlega tölu er allt gott og við erum töff, sæt og skemmtileg. En ef talan er ekki sú sem vonast var eftir er allt ómögulegt, við erum ljót og ömurleg og dagurinn ónýtur. Þetta er afar neikvætt mynstur sem margir eru fastir í og þess vegna vildum við benda á þá einföldu staðreynd að mannkostir eru ekki mældir í kílóum. Við höfum öll góða kosti til að bera óháð holdafari. Flestir sem við hittum voru mjög ánægðir með þetta framtak og voru sammála okkur um að það mætti vera minni áhersla á líkamsvöxt og þyngd í samfélaginu.

Það var afar lærdómsríkt að standa á fjölförnum stöðum og bjóða ókunnugu fólki að stíga á vigtina. Sumir voru forvitnir og voru strax til í tuskið. En margir tóku á sig stóran sveig um leið og þeir sáu okkur—og vigtina—til að verða ekki á vegi okkar. Sumir  reyndu að labba eins hratt og þeir gátu framhjá okkur og kölluðu til baka: „Ekki séns!“ þegar við buðum þeim á vigtina, áður en okkur tókst að útskýra að hér væri engin venjuleg vigt á ferð. Þessi reynsla kenndi okkur að fólk, og þá sérstaklega konur, er dauðhrætt við vigtina. Við hittum unglingsstúlkur sem voru lengi að mana hvor aðra upp í að stíga á vigtina, jafnvel þótt þær væru búnar að grandskoða hana og sjá að það voru engar tölur á skífunni, heldur bara orð eins og: „frábær“, „meiriháttar“ og „hrífandi“. Sumir voru vissir um að það væri eitthvað plat á bak við þetta—að við værum með leynilegan lista þar sem mætti sjá að „meiriháttar“ þýddi í raun 65 kg. og „töff“ 79 kg. Mjög margir voru tortryggnir og það sem flestir virtust búast við var að opinber niðurlæging fylgdi því að stíga á vigtina.

Það er ótrúlegt að þetta litla tæki geti haft niðurlægjandi og niðurrífandi áhrif. Fólk er hræddara við vigtina en flestar aðrar líkamlegar mælingar, jafnvel þótt þær hafi mun meiri heilsufarslega þýðingu. Ég efast t.d. um að fólk sé jafn hrætt við mælingar á blóðþrýstingi, blóðfitu eða beinþéttni. Enda kemur það alltaf betur og betur í ljós að vanlíðan okkar, þráhyggja, ótti og skömm í sambandi við þyngd snýst miklu frekar um sjálfsmynd og félagslega stöðu en heilsufar. Þyngd hefur félagslega merkingu sem mælingar á blóðþrýstingi og beinþéttni hafa ekki.

Markmið okkar sem berjumst fyrir líkamsvirðingu er að þyngd verði hlutlaust fyrirbæri sem hafi ekki dýpri félagslega merkingu heldur en skóstærð. Það getur verið athyglisvert þegar fullorðin manneskja notar skó númer  35 eða 47 og kannski segir einhver „Vá! Rosalega ertu með stóra (eða litla) fætur“. En það hefur engin sérstök áhrif á viðmælandann, sem bara ypptir öxlum og kinkar kolli. Þetta skiptir engu máli. Og svo er bara farið að tala um eitthvað annað.

Flokkar: Fjölbreytileiki · Líkamsvirðing · Útlitskröfur

«
»

Ummæli (3)

  • Danton-María

    Sigrún,

    Ég hef aðeins verið hrædd við vigtina þegar ég hef verið í afneitun gagnvart aukakílóunum. Þegar ég hef stigið á vigtina og skoðað hana sem hlutlaust tæki til að veita mér upplýsingar um þyngd mína, er vítahringurinn rofinn.

    Þetta ágæta tæki er hjálpartæki – það hjálpar mér að halda heilsufarinu í horfinu og myndi stíga á vigt hvar og hvenær sem er. Ég játa það hins vegar hiklaust að þegar ég hef þurft að losa mig við kíló, hef ég forðast vigtina sem heitan eldinn.

  • Harpa Kristjánsdóttir

    Shit, hvað vigtin hefur í gegnum tíðina sagt mér mikið um sjálfa mig!!!!!!
    Góð tala, ég er frábær, vond tala, ég er aumingi. Á slæmum stöðum í lífinu fór ég á hana kvölds og morgna. Ég hef auðvitað reynt ýmislegt til að létta mig í gegnum tíðina og það mest niðurlægjandi sem ég prófaði var að fara í eitthvað „átak“ hjá Báru, sem fólst í því að við vorum vigtaðar í hvert sinn sem við komum í tíma, allar tölur kallaðar upp og ef vigtin fór niður (um einhver grömm yfirleitt) var klappað, en við fengum ljóta svipinn ef hún fór upp. Eftirá að hyggja skil ég ekki af hverju ég lét fara svona með mig (og borgaði fúlgur fjár). ég hef svoldið verið að lesa og stúdera bækur frá http://www.geneenroth.com og það hefur hjálpað mér heilmikið í kringum þessa vigtarhræðslu mína. Þarf oft að minna mig á að vigt er bara vigt, hvorki meira né minna. Hún hefur ekkert með að gera hvernig mér líður, þetta er jú bara dauður hlutur. En ég skil þá sem hafa ekki viljað stíga á hana hjá ykkur, ekki séns í helvíti að ég hefði látið plata mig nálægt þessum hlut í margmenni

  • Hjördís

    Enda kemur þyngd þín engum við nema þér sjálfri.

    Annars vil ég þakka fyrir frábæra og þarfa síðu.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af sjö og sex? Svar:

Höfundur

Líkamsvirðing er vettvangur þeirra sem vilja breytt samfélagsviðhorf varðandi útlit, heilsu og holdafar. Við viljum efla heilbrigði í víðum skilningi, vellíðan og virðingu fyrir fjölbreyttum líkamsvexti. likamsvirding@gmail.com