Þriðjudagur 20.07.2010 - 16:36 - 13 ummæli

Um lífsins kraftaverk

Það er sérstök upplifun að vera barnshafandi. Mörgum konum finnst þær sjaldan vera í eins miklum tengslum við líkama sinn og einmitt þá, enda minnir líkaminn stöðugt á sig með endalausum breytingum og örum vexti annarrar manneskju innan í sér. Fyrir flestar konur er þetta ánægjulegt ferli en fyrir alltof margar er það meira eins og myllusteinn um hálsinn: Stöðug áminning um hve líkami þeirra er ómögulegur.

Sú óheillaþróun hefur átt sér stað síðustu árin að ófrískar konur og nýbakaðar mæður eru ekki lengur undanskildar stífum útlits- og fegurðartilskipunum samfélagsins. Í stað þess að meðgangan sé opinbert frí frá kröfum um fullkomið útlit, þá hafa myndast sérstakir fegurðarstaðlar í kringum óléttuna. Þeir eru í raun nákvæmlega eins og hin grönnu fegurðarviðmið, nema hvað bumbu hefur verið skellt framan á konuna. Með öðrum orðum, ef þú ert ólétt þá áttu að fylgja ríkjandi fegurðarstöðlum í einu og öllu, fyrir utan að vera með litla og sæta kúlu í staðinn fyrir rennisléttan maga. Bumban má ekki sjást nema á hlið og þú mátt alls ekki fitna á rassinum, mjöðmunum eða lærunum. Það er  hrikalegt ef það sést aftan frá að þú sért ólétt.

Þessar tilskipanir eru ekki gefnar út í neinum handbókum eða reglugerðum. En þetta er samt eitthvað sem hver og ein barnshafandi kona getur komist að í gegnum dagleg samskipti sín við heiminn. Ef hún er með netta kúlu þá er henni hrósað. Ef hún er með mjög stóra bumbu þá er henni sagt það mörgum sinnum á dag. Ef hún hefur bætt mikið á sig hættir fólk alveg að minnast á útlit hennar (við tölum ekki upphátt um slíkar syndir). Konum er alveg sérstaklega hrósað ef ekki er hægt að sjá „á öðru en bumbunni“ að þær séu með barni og skilaboðin eru að þær skuli vera skvísur fram á síðasta dag. Það er svo merkilegt, að þegar kona er í miðju kafi við að búa til nýjan einstakling – eitthvað sem sumir myndu segja að væri stórkostlegt kraftaverk – þá snýst 90% af þeim áhuga sem beinist að konunni um útlit hennar.  „Vá, þú ert bara alveg að springa!“ „Rosalega ertu nett!“ „Jii, ertu bara með eitt barn??“ „Ertu viss um að það barn þarna inni?!“

Sömu sögu er að segja af hinni nýbökuðu móður, hún er síður en svo undanskilin útlitskröfum samtímans, heldur þvert á móti hellast þær yfir hana af fullum þunga strax eftir fæðingu.  Áfram halda samferðamenn konunnar að taka eftir og koma með athugasemdir um vaxtarlag hennar, þ.e.a.s. ef það þróast í æskilega átt. Þá fá konur að heyra að þær líti rosalega vel út og séu fljótar að „jafna sig“. Stundum er þeim sagt að þær séu æðislegar með svona stór brjóst. En ef konan hefur fitnað á meðgöngunni eða er lengi að „jafna sig“ er ekkert sagt. Að minnsta kosti ekki við hana sjálfa. Konur heyra þessi skilaboð skýrt og greinilega: Þær eiga að vera nettar og grannar og spengilegar og barnseignir breyta þar engu um.

Þegar fjölmiðlar sýna okkur myndir af frægum konum, sem storka öllum lögmálum náttúrunnar með því að líta út eins og óspjallaðir unglingar örfáum vikum eftir að hafa fætt barn, virðist það aðeins vera til að undirstrika að þetta sé vel hægt. Koma svo!

Það er ótrúlega sorglegt staðreynd að mjónudýrkun nútímans skuli ná að eyðileggja upplifun margra kvenna af þessu magnaða tímabili. Fyrir utan hið stórfenglega kraftaverk sem er að eiga sér stað – sem konan nýtur þeirra einstöku forréttinda að fá að fylgjast með og upplifa á sínu eigin skinni – þá er ein yndislegasta manneskja sem hún mun nokkurn tíman þekkja að koma inn í veröldina. Það ætti að vera tilefni fagnaðar og óspilltrar gleði.

Með einlægri von um bjartari tíma fyrir frískar og ófrískar konur.

Flokkar: Líkamsmynd · Útlitskröfur

«
»

Ummæli (13)

  • Gódur og tharfur pistill!
    Ég hef líka verid ad velta fyrir mér tessu med tegar fólk segir “ já hún er náttúrulega ekki búin ad losna vid ‘the baby weight’.. “ Eins og tau kíló sem bættust vid líkama konunnar á medgongunni séu einhvers konar hluti af barninu og hefdu átt ad losna frá líkama hennar med barninu tegar tad fæddist.

    Hvers vegna er ekki vidurkennt ad líkami tinn getur breyst til frambúdar vid medgongu og barnsburd? Tetta er svolítid eins og ad ætlast til ad kona verdi kyntroska en ætlast til tess ad líkami hennar sé enn eins og líkami ókyntroksa unglings. Tad er ekkert edlilegra en ad líkamin manns breytist bædi vid kyntroska og vid tad ad eignast barn. Audvitad er tó munur á hve stórum breytingum líkamar okkar taka.

    Vid eldumst og troskumst vid tad ad gaga í gengum ýmsa hluti (s.s. tad ad eignst barn) og flest erum vid stolt af tví ad vera ordin eldri og vitrari og fongum teim troska. Fæstir óska sér tess ad vera andlega á sma troksastigi og teir voru fyrir 10 árum. Hvers vegna getum vid ekki fagnad troska líkama okkar og verid takklát fyrir tad sem hann hefur gefid okkur, eins og t.d. eitt lítid kraftaverk.

  • Ösp Árnadóttir

    Mjög góður pistill og frábært að sért að vekja athygli á þessu. Ég er innilega sammála því að umræður og gagnrýni á holdarfar nýbakaðra mæðra er að verða hálfgert norm. Umræða um pressuna sem þetta umtal skapar er því þörf.

  • Harpa Kristjánsdóttir

    Mér er það enn minnistætt þegar ég átti dóttur mína fyrir 3 og 1/2 ári síðan að ein ljósmóðirin tók það upp hjá sjálfri sér (algjörlega óumbeðið) að reikna fyrir mig BMI stuðulinn minn og kom svo til mín og tjáði mér að ég væri of þung, allt of þung miðað við tölurnar á skýrslunni minni. Ég hafði jú tekið eftir því tekið eftir því að ég væri feit, engar nýjar fréttir en kannski akkurat þarna fannst mér ég ekki þurfa á þessum fyrirlestri að halda, átti fullt í fangi með nýjan einstakling. Hfði ekki beðið um þennan útreikning og þess síður vildi ég feitukonu fyrirlesturinn, enda fór ég bara að grenja…………..

  • Kristín Gunnarsdóttir

    Mjög góður pistill!!

  • Thetta er finn pistill, takk fyrir hann, eg hafdi ekki spad mikid i thessu adur. Eg hef adallega upplifad thessa bylgju af celeb moms sem jakvaeda, satt ad segja, eg held a.m.k. ad morgum konum hafi fundist thad ad eignast born jafngilda thvi ad segja bless vid allt sem gaeti kallast gellulegt og ad madur thyrfti bara ad saetta sig vid ad restina af lifinu vaeri madur frekar puko.

  • Takk fyrir góðan pistil, ég þurfti ákkurat að fá að heyra þetta. Þessi mjónudýrkun er alveg að fara með mína meðgöngu.

  • Innilegar þakkir fyrir góðan pistil.

  • Góður pistill og þarfur í nútíma önnum og rugli. Allir eiga að vera eins? Mín dóttir er að verða sjö ára en mér tekst ekki að losna við kílóin – er ekki nógu dugleg í að ganga úti og fara í ræktina (þoli hana ekki, eftir margra ára sjúkraþjálfun) … og þau sitja, og sitja og sitja… þetta kemur bara engum við! … Við eigum ekki að taka þátt í þessu rugli.

  • Þetta er frábær pistill hjá þér, svo sannur og réttur:)

  • Takk Sigrún fyrir þarfan pistil og vel valin orð

    Eg er nú að enda mína fjórðu meðgöngu og hef sterkar skoðanir á þessu öllu. Fólk (konur) sest í dómarasæti og þykist vera útlært í að meta meðgöngulengd, æskilega kúlustærð og fjölda fóstra.

    Spurningin sem þú vitnar í hvort það sé ekki bara eitt þarna inni fékk ég síðast í morgun í sundi af bláókunnugri ungri stúlku, sem sagði fyrst, rosaleg kúla!! er ekki alveg komið að þessu og svo ertu viss um að það sé bara eitt þarna inni? Það eru margar vikur síðan fólk í kringum mig virtist vera orðið óþolinmótt um að það væri að koma að þessu hjá mér. Mér er þetta óskiljanlegt og ég hef látið þessar athugsemdir trufla mig.

    Ég hef reynt að skilja þetta og hef gefið mér þá útskýringu að þetta sé fáfræði… allir eru mismunandi og ólíkir, við þroskumst mörg hver á svipaðan hátt en svo margt skilur okkur líka að. Meðgöngulengd er að meðaltali 40 vikur og við það skal miða en við erum alltof föst í þeim hugunarhætti líka, 2 vikum fyrir eða eftir þennan meðaltalstíma er líka eðlilegt og er fyrsta dæmi þess sem ber á milli einstaklinga, stærð, lengd, þroski í öllum myndum, holdafar, útlit og áhugamál…þetta er fjölbreyttur skali þar sem, sem betur fer, eru ólíkir einstaklingar á ferð.

    Fólk má alveg láta það eiga sig að gefa sín eigin comment á óléttubumbur kunnugra eða ókunnugra og þess í stað að spyrja opinna spurninga á borð við, ,,hvað ertu gengin langt?“ hvenær áttu von á þér?“ Og svo fer mikið í taugarnar á mér að fólk spyr beint ,,er þetta strákur eða stelpa?“ í stað þess að spyrja ,,fékkstu að vita kynið“? Ég hitti líka eina konu í sundi og hún lét sér nægja að segja ,,mikið ertu falleg enda konur sjaldnast fallegri en í þessu ástandi“ Mér þótti vænt um slíkt comment, önnur kona í Bónus gat ekki orða bundist og henni fannst hún þurfa að segja mér hvað ég væri rík með bumbuna langt út í loft ásamt því að vera með þrjú börnin mín með mér auk innkaupapokanna.

    En meðgöngu minni fer bráðum að ljúka og barneignum sömuleiðis, ég er reynslunni ríkari og skilningur minn á stórum bumbum eða voða nettum er meiri. Það getur ekki heldur verið gott að vera alltaf minntur á að maður sé með svo netta kúlu, það getur líka valdið áhyggjum um að barnið sé ekki að þroskast eðlilega. Mér finnst að maður eigi að láta það vera að finna að stórum, meðalstórum og smáum kúlum í hvívetna. Hver kona er eins og hún er og hún er best meðvituð um það sjálf hvernig hún lítur út. Skemmtilegra er að fá spurningar á borð við, hvernig líður þér, hvað ertu gengin langt, hvernig gengur.

    Ertu ekki þreytt? er líka spurning sem ég fæ að heyra oft…enn og aftur er fólk búið að ákveða hvernig mér á að líða. Ein sagði við mig um daginn, ég sé hvað þú ert þreytt og ég var alls ekki svo þreytt það augnablikið, bara ótilhöfð og ólétt.

    Góðar stundir

  • Álfheiður

    AMEN!

  • Ólafía

    Góður pistill!

    Ég var líka að velta fyrir mér þessari BMI þráhyggju hjúkrunarfræðinga/ljósmæðra. Að meta heilsu manneskju út frá BMI er eins og að meta það hvort að mjólk sé súr með lokuð augun og klemmu á nefinu!
    Það fyrsta sem ljósmóðirin í mæðraeftirlitinu gerði þegar ég mætti í fyrsta tékk var að vikta mig og reikna út BMI…þessi töfratala sagði henni að ég væri „í ofþyngd“ og þá hóf hún varfænislega fyrirlestur um heilsusamlegt mataræði og mikilvægi hreyfingar…(eins gott að tala varfærnislega við konuna sem er of feit því hún veit ekki betur!)…Hún sleppti því hins vegar alveg að spyrja mig um hvað ég borðaði eða hvort að ég hreyfði mig reglulega….það hefði kannski verið athyglisvert fyrir hana að vita að ég gæti hlaupið 10 km án vandræða og að mataræði mitt samanstæði aðallega af grænmeti, mögru kjöti, fiski og grófu brauði…einmitt því sem hún var að ráðleggja mér svona varfærnislega…

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af sjö og sjö? Svar:

Höfundur

Líkamsvirðing er vettvangur þeirra sem vilja breytt samfélagsviðhorf varðandi útlit, heilsu og holdafar. Við viljum efla heilbrigði í víðum skilningi, vellíðan og virðingu fyrir fjölbreyttum líkamsvexti. likamsvirding@gmail.com