Föstudagur 17.12.2010 - 00:05 - 6 ummæli

100 ára stríðið

Það er áhugavert að kynna sér sögu stríðsins við fitu sem nú hefur staðið yfir í meira en heila öld.  Hvaðan kemur sú hugmynd að fita sé rót alls ills en dyggðin fólgin í grönnum vexti? Um nákvæma tímasetningu má alltaf deila og finna má heimildir um fituhatur sem ná mun aftar í mannkynssögunni, en flestir eru samt sammála um að það offors sem einkennir viðhorf til fitu og þyngdar nú til dags megi rekja til margvíslegra samfélagsbreytinga sem allar urðu á svipuðum tíma í byrjun 20. aldar.  Ég ætla að renna rétt aðeins yfir þessa sögu.

Þeir sem skrifað hafa um sögu fitubaráttunnar eru flestir frá Bandaríkjunum og bera heimildirnar þess merki. Gott að hafa það í huga. En allavega. Í fyrsta lagi voru ýmsir pólitískir straumar í gangi við upphaf 20. aldar sem ýttu mjög undir andúð á fitu með því að tengja hana við spillingu peningavaldsins.  Dregnar voru upp andstæðar myndir af mögrum verkalýð, sem bjó yfir vinnusemi, þrautseigju og heiðarleika, og svo feitum ríkisbubbum sem voru táknmynd leti, spillingar og óverðskuldaðra forréttinda. Sumir telja að þar hafi verið lagður grunnurinn að staðalmynd feitra sem tengist leti og græðgi, sem og þeirri félagslegu velþóknun sem síðan hefur fylgt rýrum holdum: Grannur vöxtur er staðfesting á því að þú sért heiðvirð og góð manneskja.

Í öðru lagi komst kvenréttindabaráttan loks á fullt skrið  í byrjun 20. aldar með þá byltingarkenndu hugmynd í fararbroddi að konur ættu rétt á samskonar lífi og karlmenn.  Ungar konur fengu í fyrsta sinn að hreyfa sig um og gera það sem þær sjálfar vildu – innan ákveðinna marka – í það minnsta áður en þær giftu sig.  Nútímakonur í byrjun síðustu aldar voru sjálfstæðar og móðins og vildu að sjálfsögðu aðgreina sig frá hinum ófrjálsu og gamaldags kynslóðum kvenna sem á undan fóru. Þess vegna fengu mjaðmir, brjóst, sítt hár og allt sem minnti á hina fangelsuðu húsmóður að fjúka. Nútímakonan var grönn og stráksleg; vöxtur hennar undirstrikaði hreyfanleika, sjálfstæði og frelsi. Það má kannski segja að þarna hafi barninu verið hent út með baðvatninu og höfum við ekki enn bitið fyllilega úr nálinni með það.

Í þriðja lagi var iðnvæðingin í hámarki um aldamótin 1900 og bar með sér þá hugmynd að líta á líkamann sem vél. Sem slík, átti hann að vera skilvirkur, útreiknanlegur og umfram allt stjórnanlegur. Á þessum tíma urðu einnig merkilegar vísindauppgötvanir sem áttu aldeilis eftir að draga dilk á eftir sér: Fæða var brotin niður í grunneiningar sínar, kolvetni, prótein og fitu, og vísindamenn uppgötvuðu, að af þessum þremur, hafði fita hlutfallslega flestar hitaeiningar.

Stuttu síðar náði efnafræðingur við Yale-háskóla að yfirfæra þessa grundvallar hugmynd, ekki aðeins yfir á orku-neyslu, heldur einnig á orku-eyðslu.  Jafnan um þyngdarstjórnun: Orka inn mínus orka út, hafði litið dagsins ljós. Þessi hugmyndafræði hefur haldið áfram að valda usla æ síðan, enda byggð á leiðinda misskilningi. Misskilningurinn er fólginn í því að líta á líkamann eins og vél. Líkaminn er ekki vél, heldur lifandi vera og sveigjanlegur eftir því. Hann lagar sig að umhverfisaðstæðum og getur aukið eða dregið úr matarlyst, orkueyðslu og orkunýtingu eftir þörfum.

Sem sagt: Við upphaf  20. aldar hófs þrotlaus sókn Vesturlandabúa eftir grönnum vexti.  Hún stendur enn og hefur litlu skilað.  Við hérna á Íslandi vorum aðeins seinni að taka við okkur, enda fátæklingar og höfðum um annað að hugsa.  Í Morgunblaðinu var ekki fjallað um offitu á alvarlegum nótum fyrr en um 1950.  Smám saman fór greinunum að fjölga og það er sláandi að sjá hversu lítið hefur breyst í þessari umfjöllun á rúmlega hálfri öld.  Þeir sem halda að núna sé offitufaraldur í algleymingi og að aldrei fyrr hafi verið talað um fitu sem vandamál hefðu gott af því að fara aðeins yfir gamlar heimildir og sjá að nákvæmlega sama taugaveiklunin ríkti fyrir 40 árum.  Sami barlómurinn og hörmungarhyggjan: Offita er bráðdrepandi. Við erum að deyja úr óheilbrigðum lifnaðarháttum. Og síðast en ekki síst, stóra vitleysan: Allir geta grennst ef þeir bara leggja sig fram.

Flokkar: Stríðið gegn fitu

«
»

Ummæli (6)

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af fimm og sex? Svar:

Höfundur

Líkamsvirðing er vettvangur þeirra sem vilja breytt samfélagsviðhorf varðandi útlit, heilsu og holdafar. Við viljum efla heilbrigði í víðum skilningi, vellíðan og virðingu fyrir fjölbreyttum líkamsvexti. likamsvirding@gmail.com