Fimmtudagur 10.02.2011 - 22:22 - 8 ummæli

Fordómar og heilsuefling

Hér er gott dæmi um hvernig fitufordómar eru breiddir út með heilsueflingar skilaboðum. Þessi auglýsing frá borgaryfirvöldum í New York sýnir glögglega – fyrir þá sem eru orðnir læsir á þessa fordóma – hvernig heilsufarsumræðan getur skapað prýðisvettvang fyrir fituhatur og fitufóbíu.

Það er allra góðra gjalda vert að vekja athygli á skaðlegum neysluvenjum (eins og ofneyslu á sykruðum drykkjum) en það hlýtur að vera hægt að gera öðruvísi en með því að búa til hryllingsmynd af tilveru feitra. Hérna feitt fólk er gert að skrímslum og skilaboðin eru afkáraleg: Ef þú drekkur gos verður þú feitur í hjólastól með afmyndaðar tær. Hvað með skemmdir á glerungi tanna? Hvað með skaðleg áhrif á beinheilsu? Hvað með rússíbanaáhrif á blóðsykur? Hægt er að telja upp fjölda neikvæðra afleiðinga af mikilli gosneyslu sem hafa slæm áhrif á ALLA óháð þyngd. Hvers vegna að einblína á feitt fólk?

Það eina sem vinnst með svona nálgun er að viðmót til feitra versnar og einstaka unglingsstúlka (eða margar) hættir að drekka gos af ótta við að verða feit. Restin hugsar með sér að það sé langur vegur þar til maður verður svo feitur að maður lendi í hjólastól og heldur áfram sínu gosþambi í ljósi þeirrar hughreystingar.

Flokkar: Fitufordómar

«
»

Ummæli (8)

  • Gillz hefur kennt oss að ekki verða að rasshaus þannig að… ekkert gos fyrir mig. Aðeins rasshausar afmynda sig svona.

  • Takk fyrir gott blogg. Mig langaði að benda þér á þetta verkefni og sérstaklega þessa mynd (það eru fleiri á síðunni). Mér finnst hún æðisleg.

    http://fatpeopleart.tumblr.com/post/3044109070

  • Svona fyrir utan að þeir sem eru grannir halda áfram að drekka sykurdrykkina af því þeir fitna ekki og missa algjörlega af vitneskjunni um hvað allur þessi sykur er slæmur fyrir heilsuna (óháð þyngd).

  • Bjarki Guðlaugsson

    Þetta er einmitt vandamálið sem ég hef heyrt nokkra lækna tala um nýlega.

    Gefum okkur að maður fari til læknis. Í ljós kemur að hann er með hækkaðan blóðþrýsting, einkenni sykursýki 2 og of háa blóðfitu. Ef þessi maður er í yfirþyngd þá eru mun meiri líkur á að hann sé tilbúinn að breyta mataræði til að laga vandamálið og mótmælir sjaldan niðurstöðunni. Ef þessi maður er hins vegar grannur þá er viðkvæðið nánast alltaf það sama. „Það getur ekki verið, ég er í kjörþyngd!!“.

    Það sem ég á við með þessu er að það er talað um öll þessi heilsufarsvandamál sem órjúfanlegar afleiðingar yfirþyngdar. Það eru hins vegar mjög margar rannsóknir sem sýna að þetta byggist nánast eingöngu á genum og mataræði og skiptist eiginlega svo gott sem 50/50 á milli fólks í yfirþyngd og þeirra sem teljast í kjörþyngd. Að stoðkerfisvandamálum undanskildum.

    Niðurstaðan er því svona. Ef manneskja er svo „heppin“ að þyngjast ekki þegar neysla óhollrar fæðu er viðhöfð í lengri eða skemmri tíma þá er ekkert sem segir að viðkomandi sleppi við öll hin heilsufarsvandamálin sem fylgja óhollu mataræði.

  • Er eitthvað í þessu myndbroti sem er ekki í samræmi við þekktar staðreyndir? Serious obesity can cause heart diseases, type 2 diabetes and some cancer.

    Enga fitufórdóma er að finna í þessu myndbroti sem Sigrún hefur grafið upp. Í myndbrotinu er ekki er aðeins sýnt fram á mikið innhald sykurs í gosi. Margir tillbúnir drykkir, sem fást í handhægum neytendaumbúðum, innhalda mjög mikið af sykri. Meiri sykur er flestir gera sér grein fyrir.

    Ég efast um að þetta myndbrot sé þess valdandi að unglingsstúlkur hætti að drekka gos vegna áhyggja að þær fitni eða gleymi annarri skaðsemi af ofneyslu sykurs. Inntak áróðursins er að mikil neysla dýsætra drykkja (gert ráð fyrir neyslu fjórum sinnum yfir daginn) getur leitt til offitu, þ.e. meiri neyslu hitaeininga en líkaminn nær að brenna.

    Takið líka eftir því að sá matur sem sýndur er á borðum er skyndibiti, þ.e. ekki matur sem eldaður er úr góðu hráefni í eldhúsinu hjá mömmu.

    Sem sagt, réttmætur áróður gegn ofneyslu sykraðra drykkja í neytendaumbúðum en ekki fitufordómar.

    P.s. Vitið þið hvað eru margar kaloríur í 93 sugar packets?

  • Krímer. Það að borða og/eða drekka of mikinn sykur er slæmt og það fylgja því margir gallar. Það eru fitufordómar að segja „gosdrykkir geta gert þig feitan.“ Því það er ekki eins og glerungsgallar, sykurrússíbaninn og janvel fíkn í gos og sykraða fæðu gerist bara hjá feitum. Allir geta lent í þessu.

    Þess vegna hefði auglýsingin átt að snúa að þessum hættum í staðinn fyrir að einblína á hættuna við að fitna. Því hvað með granna unglingsstrákinn sem drekkur líter af gosi á dag. Er það bara allt í kei vegna þess að hann er ekki feitur?

  • Auglýsing fyrir stuttu: Tilboð 8 kjúklingabitar, 2 lítrar Pepsi-gos
    og svo a u k a stór skammtur af frönskum steiktum.
    Herjir mega stuðla að vanlíðan og ótímabærum dauðdaga,
    sérstaklega fyrir hina eldri? Svari hver fyrir sig.

    SVO Á RÍKISVALDIÐ TRYGGJA GÓÐA LÆKNISÞJÓNUSTU.

  • „Heilsuátak“ er nýja orðið yfir megrun. Þetta er hvimleitt.

    Ég tók eitt sinn upp á því að nota matarvefinn (www.matarvefurinn.is) til þess að skrá matinn sem ég borðaði og reikna út næringargildið, m.a. þar sem ég hugði á barneignir og skildist að þá skipti máli að vera vel byrgður af fólasíni og gott að vera hraustur. Stuttu áður hafði mér auk þess verið meina að gefa blóð þar sem mitt var ekki nógu ríkt af járni. Um þetta uppátæki mitt talaði ég á kaffistofunni í vinnunni og kvaðst vera í heilsuátaki. Samstarfsmenn mínir brugðust ókvæða við og sögðu, nánast allir í kór: En þú ert svo grönn!

    Eins hef ég heyrt talað um að bananar séu óhollir, og brauð sömuleiðis, en einu rökin fyrir því eru þau að þessar matartegundir eru heldur hitaeiningaríkar. Það er alveg kominn tími á að snúa þessari þróun við.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af sjö og sjö? Svar:

Höfundur

Líkamsvirðing er vettvangur þeirra sem vilja breytt samfélagsviðhorf varðandi útlit, heilsu og holdafar. Við viljum efla heilbrigði í víðum skilningi, vellíðan og virðingu fyrir fjölbreyttum líkamsvexti. likamsvirding@gmail.com