Þriðjudagur 01.03.2011 - 21:33 - 5 ummæli

Útlitsdýrkun drengja

Sú var tíðin að flestir karlmenn hefðu ekki látið grípa sig dauða í uppstillingu sem þessari, olíuborna og glennulega. En hér eru heimsþekktir fótboltamenn á ferð – og þeir víla það greinilega ekki fyrir sér.

Útlitsdýrkun í íþróttum var umfjöllunarefni knattspyrnumannsins Óla Stefáns Flóventssonar fyrir stuttu og er engin vanþörf á því að vekja upp slíka umræðu. Ég man hvað mér brá þegar ég heyrði í fyrsta sinn hóp unglingsstráka ræða um fitubrennslu og holdafar í heita pottinum í sundi fyrir nokkrum árum. Fram að því hafði ég haldið að þetta væri einkamartröð stúlkna. Þegar ég var unglingur hefði verið álíka líklegt að heyra stráka ræða um útlitskomplexa sín á milli eins og að hlusta á þá ræða uppskriftir og bróderingar. Það þótti bara alls ekki töff.

Því hefði þó sannarlega mátt fagna að strákar stigu í auknum mæli inn í „veröld kvenna“ og leggðu sitt af mörkum til að eyða kjánalegum staðalmyndum um konur og karlmenn, ef þeir hefðu ekki endilega þurft að velja þann hluta sem tengist einna helst minnimáttarkennd, kúgun og undirgefni. Það er veröld sem bæði kynin hefðu betur mátt fjarlægjast í stað þess að sameinast í ömurðinni.

Við hefðum getað sagt ykkur það, strákar, eftir okkar miklu og víðtæku reynslu, að útlitsdýrkun, fitukomplexar og matarþráhyggja eru hvorki gagnleg né gefandi fyrirbæri. Þetta er heimur sem lofar þér sjálfsöryggi, vinsældum og aðdáun, en aðeins ef þú uppfyllir ströngustu skilyrði um rétt útlit. En fegurðin er hverful, þannig að jafnvel þótt þér takist að ná þessum skilyrðum endrum og sinnum, þá renna þau þér jafn óðum úr greipum. Auk þess fylgir útlitsdýrkuninni ákveðið hugarfar sem leiðir til þess að þú horfir á þig með æ hvassari gagnrýnisaugum og munt þess vegna sífellt vera að uppgötva nýja og nýja útlitsgalla. Þetta hefðu nú stelpur með áralanga reynslu af því að horfa á sig með smásjá getað sagt ykkur. Með aldrinum verða svo dagarnir þar sem þér finnst þú ná tilskildu marki sífellt færri uns þú endar hnugginn og beygður með ónýta sjálfsmynd – enda búinn að binda hana við eitthvað sem er ómögulegt að ná.

Hingað til hafa rannsóknir ítrekað sýnt að konur eru með verri líkamsmynd en karlar. Þetta telja fræðimenn leiða til þess að þær verði óöruggari með sig, finnst þær háðar áliti annarra og þjást frekar af þunglyndi og átröskunum en karlar. Af hverju karlmenn kjósa að feta þessa dapurlegu slóð er fjarri mínum skilningi. Æskilegra hefði verið að konur fyndu leiðina út en að karlar eltu þær inn í ruglið. En það er ekki of seint að snúa við. Látið reynslu okkar af kúgun fegrunar- og megrunariðnaðarins ykkur að kenningu verða:  Ekki vera sökkerar!

Flokkar: Líkamsmynd · Útlitskröfur

«
»

Ummæli (5)

  • Hrein og tær snilld! Þetta verður mottóið mitt héðan af, ekki vera sökkerar!

  • Áhugaverður pistill. Ég er uppfullur sjálfur af útlitskomplexum, auðvitað myndi ég segja það engum þar sem það er ekki karlmannlegt 😉
    Velti þó fyrir mér hvort betra sé að vera sökker eða hlunkur? Ætli ég verði ekki að finna milliveg?

  • Sæl Sigrún og takk fyrir áhugavert blogg. Ég er búinn að vera dálítið hugsi yfir þeim atriðum sem þú bendir á varðandi útlitsdýrkun og „fituhatur“. Ég hef svo sem ekki neinar rannsóknir eða tölur á bak við mig, en getur verið að útlitskomplexar, sem þú kallar, séu eðlileg viðbrögð við áhrifum ofeldis undanfarinna áratuga?

    Það er ekkert launungamál að offita sem heilsufarsvandamál er að færast í aukana (var ekki frétt um það að íslendingar væru feitust í Evrópu um daginn?).

    Staðreyndin er sú að mjög margt fólk notar líkama sinn allt of lítið. Kyrrseta, bæði í vinnu og frítíma hefur aukist mikið. Á sama tíma hefur neysla hitaeiningaríkra, óhollra, unninna matvæla færst í aukana. Þetta hlítur að koma niður á heilsu fólks og breyta útliti þess. Í þessu umhverfi hefur fita orðið að tákni fyrir hrakandi heilsu.

    Ég er nokkuð viss um að á svæðum þar sem ofeldi er ekki eins mikið og á vesturlöndum er útlitsdýrkun minna áberandi.

    Annars segi ég eins og Aron hér að ofan, að sjálfur er ég uppfullur af útlitskomplexum, sem er algerlega óþolandi því formið er fínt.
    Kv
    Bragi

  • Er ekki full langt gengið að gera því í skóna að þessir hraustu og fallegu piltar séu endilega fastir í einhverri útlitsdýrkun eða matarþráhyggju? Þeir eru í mikilli þjálfun og ólíklegt að þeir þurfti að svelta sig eða gera eitthvað óheilbrigt til að líta svona út.

    Það er eitt að vera sáttur í eigin skinni og annað að setja út á heilbrigt fólk bara af því að það er í góðu formi. Það er frekar einhver þráhyggja að geta ekki samglaðst með því fólki sem er í góðri þjálfun og lítur vel út.

  • Nei common, málið er hvaða áhrif þessar fyrirmyndir eru að hafa á drengi og karlmenn yfirleitt. Þessir gæjar eru í miklum minnihlutahóp varðandi vöxt sinn, eru í svakalega mikilli þjálfun sem er jú og vinnan þeirra. Alveg eins og staðreyndin um að aðeins fá prósenta kvenna eru genetískt það mjög grannar eins og hollywood ímyndin er. Á þessari mynd eru gæjarnir settir upp sem glansandi fyrirmynd um hvernig er æskilegt að karlmenn líti út. Það kæmi mér síðan alls ekkert á óvart ef myndin væri photoshoppuð í þaula.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af núlli og sjö? Svar:

Höfundur

Líkamsvirðing er vettvangur þeirra sem vilja breytt samfélagsviðhorf varðandi útlit, heilsu og holdafar. Við viljum efla heilbrigði í víðum skilningi, vellíðan og virðingu fyrir fjölbreyttum líkamsvexti. likamsvirding@gmail.com