Þriðjudagur 14.06.2011 - 10:48 - 4 ummæli

Um forvarnir átraskana

Átraskanir eru menningarbundnar geðraskanir. Þrátt fyrir að dæmi finnist um sjálfsvelti (anorexíu) langt aftur í aldir, eru tilfellin fleiri í nútímasamfélögum en nokkru sinni fyrr í sögunni. Lotugræðgi (búlimía) er einnig talin alfarið afsprengi nútímamenningar sem leggur ofuráherslu á grannan vöxt á sama tíma og aðgengi að tilbúnum mat og kræsingum hefur aldrei verið meira. Lotugræðgi var fyrst skilgreind sem geðröskun árið 1979 og eru engar heimildir til um þessa röskun fyrir daga 20. aldar. Þetta þýðir að menningin okkar – nánar tiltekið sú óhóflega áhersla sem lögð er á mat og líkamsvöxt og stjórnun þessara þátta – er órjúfanlega tengd þeim vanda sem við stöndum nú frammi fyrir varðandi átraskanir. Það er mikilvægt að við skiljum að það verður aldrei hægt að uppræta þessar raskanir nema með breytingum á þeim viðhorfum og gildum sem hér ríkja varðandi mat og líkamsvöxt.

Skrefin eru einföld og í raun auðveld en gegn þeim ríkir mikil mótspyrna. Það er meginvandinn. Það sem við þurfum að gera er að hætta að hvetja til megrunar og hrósa fyrir grannan vöxt. Við þurfum að tala fyrir heilbrigði án þess að blanda megrun og þyngd inn í umræðuna. Það er vel hægt. Það eina sem við þurfum að gera er að trúa því að allt okkar tal um þyngdarstjórnun bæti í raun engu við skynsamlega umræðu um holla lífshætti. Þyngdaráherslan er algerlega óþörf og gerir ekkert annað en að styrkja þá þráhyggju og vanlíðan sem ríkir í sambandi við líkamsvöxt. Hvers vegna ekki bara að sleppa henni?

Ef við viljum uppræta átraskanir í okkar litla samfélagi þá þurfum við að rjúfa tengsl líkamsvaxtar við félagslega umbun og refsingu. Hættum að klappa fyrir fólki sem grennist og líta niður á þá sem þyngjast. Hættum að tengja grannan vöxt við fegurð og fitu við skömm. Tileinkum okkur hlutleysi í sambandi við líkamsvöxt (en ekki í sambandi við lífsvenjur) og vinnum þannig gegn því að líkamsvöxtur hafi yfirhöfuð einhverja félagslega merkingu. Þannig og aðeins þannig mun fólk hætta að misþyrma sjálfu sér við að reyna að öðlast hinn ákjósanlega líkamsvöxt. Þegar þyngdartap leiðir ekki lengur til aukinnar velvildar, virðingar, viðurkenningar og vinsælda, þá hættir sú hegðun sem einkennir átraskanir að hafa nokkurn tilgang.

Átraskanir hefjast í langflestum tilfellum á því að manneskja, sem hefur tileinkað sér þá hugmyndafræði að grannur vöxtur sé eftirsóknarverður, reynir að breyta líkama sínum til þess að líkja eftir þeim vexti. Það er algengur misskilningur að átröskunarsjúklingar vilji allir verða hættulega grannir. Yfirleitt langar verðandi sjúklingi til að byrja með aðeins að öðlast hinn granna og spengilega líkamsvöxt sem allir í samfélaginu dýrka og dá. Oftast ætlar viðkomandi í upphafi aðeins að missa nokkur kíló – en svo taka yfir líffræðilegar og sálfræðilegar breytingar, sem margar hverjar má rekja beint til viðbragða líkamans við fæðuskorti, sem festa sjúklinginn í vítahring sem hann ræður ekki við. Sjúkleg matarþráhyggja er fóðruð með stífri megrun sem leiðir til óstjórnlegra átkasta sem kalla á enn fastari skorður í megrun og svo framvegis og svo framvegis.

Í þessu samhengi er ágætt að gera sér grein fyrir því að það mun ekki gagnast vitundarögn að fræða ungmenni um átraskanir og þær hættur sem í þeim felast. Það hefur margsinnis verið reynt en árangurinn er enginn. Ef okkur er alvara með að berjast gegn átröskunum er kröftum okkar mun betur varið í að vinna beint gegn viðurkenndum áhættuþáttum þessara raskana: Dýrkun á grönnum vexti, slæmri líkamsmynd og megrunartilburðum.

Við þurfum að breyta unglingamenningunni og viðhorfum samfélagsins í heild. Við getum ekki haldið í þá skoðun að grannur vöxtur sé flottastur og ætlast til þess að tíðni átraskana fari minnkandi á sama tíma. Það mun ekki gerast. Alveg eins og ekki dró úr reykingum meðal ungmenna fyrr en tókst að snúa við þeirri hugmynd að reykingar væru töff, þá mun ekki draga úr tíðni átraskana fyrr en við hættum að snobba fyrir grönnum vexti. Þá er ekki þar með sagt að grannur vöxtur eigi að kalla á fyrirlitningu – heldur hlutleysi. Leyfum næstu kynslóð að alast upp í samfélagi þar sem líkamsvöxtur þeirra hefur enga sérstaka merkingu – þar sem allskonar líkamsvöxtur getur verið flottur og áherslan er einfaldlega á heilbrigða hegðun og heilbrigð viðhorf sem allir geta tileinkað sér.

Þá munu átraskanir að stærstum hluta heyra sögunni til.

Flokkar: Átraskanir

«
»

Ummæli (4)

  • Erna Valdís Valdimarsdóttir

    Hjartans þakkir. Orð að sönnu. „Let us look beyond!“

  • Ég er nú einn af þeim sem yfirleitt hefur hlegið að pistlum þínum en þessi er meira sannfærandi.

    Ég er ekki alveg sammála þér. Mér finnst grannur líkami fallegri en þybbinn. Mér þætti kona sem væri t.d. 165 cm á hæð vera fallegust á þyngdarbilinu u.þ.b. 55-60 kg. Kynþokki er einn þeirra eiginleika sem getur verið sjarmerandi. Og hann gefur einhverja vísbendingu um heilbrigði.

    En þessi ofuráhersla á að fólk falli akkúrat í staðalímyndir er örugglega skaðleg. Átraskanir hljóta að vera sérstakt samfélagsmein í dag í vestrænum ríkjum, þótt einhverjir hafi alltaf svelt sig. Kannski er samfélag sem lítur niður á „overweight“ konu — sem væri t.d. 165 cm og 70 kg en lifði heilbrigðu lífi félagslega og líkamlega — frekar sjúkt samfélag.

  • Tara Margrét

    MK. Mér finnst þetta afar áhugaverð ummæli hjá þér. Fyrir það fyrsta er þetta að sjálfsögðu ÞÍN skoðun en ekki allra, þ.e. að þér finnst grannur líkami fallegri en þybbinn. En hefurðu samt einhvern tímann velt fyrir því AF HVERJU þér finnst grannur líkami fallegri en þybbinn? Er það sérkenni sem þú hefur fæðst með, sem sagt persónueiginleiki eða er það vegna skilaboð frá samfélaginu um hvað kallist fallegt og hvað kallist ljótt? Nú hefur þú alist upp í samfélagi þar sem skilaboð um að grannt=fallegt bergmála í hverju horni. Heldur þú að það hafi ekki haft nein áhrif á skoðun þína um hvað teljist fallegt og hvað ekki?

  • MK. Í fyrsta lagi er kona sem er 165 og 70 kg. ekki „overweight“. Hún er í kjörþyngd.

    Kona sem er 55 kg. og 165 kg. er í neðri mörkum kjörþyngdar.

    Þitt fegurðarskyn veitir konum afar þröngan ramma, þrengri en læknisfræðileg kjörþyngd veitir.

    Svo veltir fólk því fyrir sér af hverju meirihluti kvenna er óhamingjusamur með útlit sitt, þegar meira að segja konur í kjörþyngd eru kallaðar of þungar!

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af fjórum og sex? Svar:

Höfundur

Líkamsvirðing er vettvangur þeirra sem vilja breytt samfélagsviðhorf varðandi útlit, heilsu og holdafar. Við viljum efla heilbrigði í víðum skilningi, vellíðan og virðingu fyrir fjölbreyttum líkamsvexti. likamsvirding@gmail.com