Sunnudagur 03.07.2011 - 19:07 - Rita ummæli

Be the change

Gandhi sagði: Vertu sú breyting sem þú vilt sjá í veröldinni. Með því átti hann við að það er þversagnarkennt að tala um að vilja sjá breytingar í umhverfi sínu en halda síðan áfram að hegða sér á þann hátt sem viðheldur ástandinu eins og það er.  Í því samhengi er gott að átta sig á því að þrýstingur um grannan vöxt kemur ekki aðeins frá fjölmiðlum heldur einnig frá fólki, svo sem fjölskyldu, vinum, kærustum, íþróttaþjálfurum og fleirum. Ef við kærum okkur ekki um þennan þrýsting þá skulum við gæta þess að við séum ekki sjálf að ýta undir hann eða leyfa honum að lifa óáreittum.

Rannsóknir sýna að börn sem alast upp við áherslur á mikilvægi þess að vera grannur eru líklegri til þess að hafa áhyggjur af þyngd sinni og fara í megrun.  Í einni rannsókn voru stúlkur, sem töldu það mikilvægt fyrir að minnsta kosti annað foreldrið að þær væru grannar, tvisvar sinnum líklegri til þess að segjast hafa miklar áhyggjur af þyngd sinni ári síðar en aðrar stelpur.  Bæði strákar og stelpur sem töldu grannan líkamsvöxt skipta föður sinn máli voru mun líklegri til þess að vera í stöðugri megrun að ári liðnu en önnur börn.  Í þessari rannsókn reyndust jafnaldrar hins vegar engin áhrif hafa á viðhorf barnanna.

Eftir því sem lengra líður á unglingsár má hins vegar gera ráð fyrir því að áhrif félagahópsins aukist.  Í rannsókn frá 2004 kom til dæmis fram að þrýstingur um grannan vöxt frá jafnöldrum spáði fyrir um aukna óánægju með líkamsvöxt meðal 16 til 19 ára unglinga yfir níu mánaða tímabil.  Svipaðar niðurstöður fengust í annarri rannsókn þar sem bandarískir háskólanemar sögðu vini vera mikilvægasta viðmið sitt hvað útlit snerti.  Frægt fólk var álitið álíka mikilvægur samanburðarhópur og almenn bekkjar- og skólasystkini.  Þessar niðurstöður sýna að þrátt fyrir að fyrirmyndir í fjölmiðlum hafi orðið grennri með árunum og það geti vissulega leitt til óánægju með líkamsvöxt að hafa þær fyrir sjónum, sé talsverð einföldun að líta á fjölmiðla einu áhrifavaldana á líkamsmynd fólks. Þeir sem standa okkur næst hafa einnig mikil áhrif á hvaða viðhorf við tileinkum okkur til eigin líkama.

Þetta leiðir okkur að erfiðum sannleika, sem er sá að konur taka sjálfar virkan þátt í að viðhalda samfélagslegum kröfum um grannholda útlit.  Í einni rannsókn sögðu konur sem rætt var við að þær veittu ummælum um líkamsvöxt og útlit meiri athygli þegar þau komu frá öðrum konum, svo sem fjölskyldumeðlimum, vinkonum eða samstarfskonum.  En það sem meira er: Þær sögðust síður líta á athugasemdir frá konum sem þrýsting enda eru þær yfirleitt settar fram með vinsamlegum hætti.

Konur ræða sín á milli um áhyggjur af eigin líkamsvexti, hrósa hverri annarri fyrir að grennast og sýna samúð ef einhver þyngist.  Þær tala einnig um vaxtarlag annarra kvenna og lofa þær grönnu en lasta þær feitu.  Með því að taka sjálfar undir kröfur samfélagsins um grannan vöxt styrkja konur ríkjandi viðhorf til líkamsvaxtar og gera þau bæði sjálfsögð og eðlileg.  Í fyrrgreindri rannsókn kom fram að konur eru síður líklegar til þess að gagnrýna áherslur á grannan vöxt hjá hverri annarri, setja spurningamerki við þessi skilaboð eða verjast þeim með einhverjum hætti. Af þeim sökum velta höfundar því fyrir sér hvort áhrif kvenna á líkamsmynd hverrar annarrar séu ef til vill meiri og skaðlegri en áhrif annarra. Þau koma frá hópi sem konurnar líta á sem sinn eigin, hópi sem þær taka mark á, bera sig saman við og þykir vænt um.

Lítum okkur nær. Byltingin hefst í hjörtum okkar sjálfra.

Flokkar: Samfélagsbarátta · Útlitskröfur

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af þremur og fimm? Svar:

Höfundur

Líkamsvirðing er vettvangur þeirra sem vilja breytt samfélagsviðhorf varðandi útlit, heilsu og holdafar. Við viljum efla heilbrigði í víðum skilningi, vellíðan og virðingu fyrir fjölbreyttum líkamsvexti. likamsvirding@gmail.com